Birgir Steinn 20 ára!

Í dag er „litli“ drengurinn minn 20 ára. Það er með ólíkindum að það séu komnir tveir áratugir síðan við Kata mín fengum fallega drenginn okkar í fangið í fyrsta sinn. Og síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið.

Birgir Steinn hefur verið okkur til mikillar gleði og ánægju frá fyrsta degi. Fyrstu tvö árin í lífi hans var hann reyndar afskaplega rólegur og það varla hreyfðist í honum blóðið. En svo vaknaði hann til lífsins og hefur allar götur síðan þá hreinlega iðað af lífi. Hann er lífsglaður og duglegur við að njóta augnablikanna. Það hefur ekkert þvælst fyrir honum að fara alltaf hefðbundnar leiðir, enda listamaðurinn í honum strerkur og ríkari en svo að auðvelt sé að koma á hann böndum. Enda eiga menn ekki að láta kringumstæður binda sig, það er svo þvingandi. Bakhliðin á þeim pening er reyndar sú að hann er stundum svolítið eins og vindurinn, ekki auðvelt að vita hvaðan hann kemur eða hvert hann er að fara.

Birgir Steinn á afskaplega marga framúrskarandi eiginleika og ég ætla ekki í þessum fáu línum að reyna að gera þeim öllum skil. Það er hins vegar tvennt sem mér finnst standa uppúr, fram yfir gríðargóðar gáfur og listræna hæfileika, og annað þessara atriða er hjartalag Birgis Steins. Hann hefur svo einstaklega blíðan og yndislega anda og þá sem hann elskar elskar hann alla leið. Hitt er trúfesti Birgis Steins, en hann hefur marg sýnt að það sem hann lofar stendur hann við.

Undanfarin vetur hefur verið mjög óvenjulegur fyrir alla fjölskylduna og krafist þess að hver fjölskyldumeðlimur leggi sitt af mörkum. Þar hefur Birgir Steinn farið langt fram úr því sem hægt er að biðja 19 ára mann að gera. Þar hefur framlag hans og hugarfar vakið bæði undrun mína og ómælanlegt stolt.

Ég er afar þakklátur fyrir litla drenginn minn sem er orðin stór. Þakklátur fyrir það hver hann er og hvernig hann hefur með æðruleysi tekist á við alskonar aðstæður og alltaf haft sigur. Þakklátastur er ég þó án efa fyrir það að Birgir Steinn er ekki bara sonur minn, hann er einn af mínum allra nánustu vinum.

Elsku Birgir Steinn, innilega til hamingju með daginn þinn. Ég elska þig og er svo stolltur af þér!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband