Pabbi minn er sjötugur í dag!

Í dag er merkisdagur hjá stórfjölskyldunni því að hann pabbi er sjötugur í dag.

Pabbi minn er einn merkilegasti karakter sem ég hef nokkurn tíma hitt. Það væri þó umtalsverðar ýkjur að eigna honum einhverja grátóna í lífi sínu því að svart/hvítari einstaklingur er sennilega ekki til. Ég gæti sagt ykkur endalausar sögur af pabba og hans sterku skoðunum. Pizzur vill pabbi til dæmis alls ekki borða, hann vill frekar mat. En samlokubrauð með osti og skinku hitað í örbylgjuofni finnst honum mjög gott. Bensín frá Essó fer mjög vel með vélina í bílnum en á öðrum bensínstöðfum kaupir þú drasl sem vísast til brýtur fyrir þér mótorinn

Pabbi er af þeirri kynslóð sem aldrei var kennt að tjá tilfinningar sínar gangvart börnunum sínum. Ég er 41 árs og hef aldrei heyrt pabba segja “Ég elska þig”. En pabbi hefur hins vegar verið mjög duglegur að leyfa mér að vita að hann elskar mig og ég veit að það gerir hann svo sannarlega. Einlæg umhyggja hans gagnvart fólkinu sínu kemur fram með ýmsum og mjög áberandi hætti. Gott dæmi um það er þegar við Kata mín bjuggum á Ísafirði og síðan Akureyri fyrir nokkrum árum mátti ekki gera vont veður án þess að  pabbi hringdi til að vita hvort allt væri ekki í lagi. Setningar eins og “Eru krakkarnir ekki örugglega allir inn í húsi í þessu veðri” sögðu mér meira um einlæga um hyggju hans í minn garð heldur en hann hefur gert sér grein fyrir. Þegar ég þurfti – sem gerðist nokkuð oft – að bregða mér á milli lands eða heimshluta og Kata var ein með krakkana hafði hann reglulega samband við hana til að athuga hvort allt væri í lagi. Það hefur alltaf skipt pabba miklu máli að fólkið hans hafi það gott og öllum líði vel. Þegar við Kata vorum að keyra landið þvert og endilangt í ýmsum erindagjörðum fyrir kirkjuna okkar vildi pabbi vita hvert við værum að fara og oft hringdi hann og var þá búinn að kanna á textavarpinu hvernig færðin og spáin væri. Þó svo að ég hafi að sjálfsögðu verið búinn að athuga það líka sjálfur þá glöddu þessi símtöl mig afar mikið. Þetta var pabbi að segja “Ég elska þig!”

Þegar við krakkarnir hans förum erlendis má heldur ekki gleyma að senda honum sms þegar lent er og láta hann vita að allt sé í lagi. Eitt sinn þegar Erla systir og Erling fóru í eitt af sínum fjölmörgu ferðalögum um heiminn hafði Erla gleymt að senda honum sms og 2 tímum eftir áætlaða lendingu hringdi pabbi í mig til að athuga hvort ég hefði eitthvað heyrt af þeim. Krúttlegt – og svo mikið pabbi að athuga með fólkið sitt.

Elsku pabbi minn – innilega til hamingju með daginn. Ég elska þig!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll kæri trúbróðir

Til hamingju með hann pabba þinn.

Skilaðu kveðju til kappans frá mér.

Gleðilega páska

Velkominn á síðuna hjá mér.

Vertu Guði falinn

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 9.4.2009 kl. 19:53

2 Smámynd: Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir

Til hamingju með pabbann gott að eiga góðan föður á  himnum og á jörðu.

Gleðilega páska elskurnar!

Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir, 9.4.2009 kl. 20:16

3 identicon

Virkilega fallegur pistill Teddi.

Til hamingju með daginnn!

Páll Ágúst (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband