Hver á hvað???

Þegar ég var strákgutti datt mér það snjallræði í hug að stela úr búð. Það gekk svo ljómandi vel að ég prófaði aftur. Og í nokkur skipti tókst mér að hnupla sælgætisstykkjum og fannst þetta fíansta leið til að mæta þeirri nammiþörf sem ég hafði, en foreldrar mínir höfðu lítin skilning á. En síðan komst upp um kauða! Sennilega hef ég (án þess að muna það í smáatriðum) gleymt að þurrka súkkulaðið úr munnvikunum eða eitthvað í þá áttina. Alla vega komst mamma að því hvað ég hafði gert og ég fékk mikinn skammarlestur. Innihaldið var að ég skyldi leggja stund á heiðarleika því að menn uppskæru alltaf í samræmi við sáninguna. Síðan var nýjasti ránsfengurinn gerður upptækur og mér tilkynnt með festu að ég ætti ekki neitt í þessu súkkulaði, og því kæmi ekki til greina að ég borðaði það. Tvennt ætti ég þó: ég ætti að skammast mín og ég ætti að biðja kaupmanninn afsökunnar.

Slík varð iðrun mín yfir þessum strákapörum að ég ákvað hið snarasta að beygja af glæpabrautinni og gerðist aftur Guðhræddur mömmustrákur ;-)
Enn í dag er ég feginn viðbrögðunum sem ég fékk heimafyrir þegar ég byrjaði að stela úr búð. Hefðu viðbrögðin verið önnur veit ég ekki hvert það hefði getað leitt mig.

Ekki veit ég hvort útrásarvíkingarnir sem rændu íslensku bankana innan frá hafi á æskuárum sínum stolið úr búð. Og ekki dytti mér í hug að væna foreldra þeirra um að hafa gleymt að kenna þeim það sem mamma kenndi mér í æsku. En það er samt athygglisvert hvernig þessir einstaklingar hafa náð að nýta sér ránsfengi sína til alls konar verkefna.

Þannig má lesa í fjölmiðlum í dag að Karl Wernersson hafi haft verulegar tekjur af úthátíð í Galtalækjarskógi um liðan helgi. Hann hafi nefnilega "keypt" skóginn á 300 milljónir fyrir nokkrum árum og fái því tekjur af honum dag. Ekki veit ég hvort bótasjóður Sjóvá Almennra hafi verið notaður til að "kaupa" skóginn, en ljóst er að Karl hefur ekki "keypt" ýkja mikið á útþennsluárum Milestone veldisins. Nú hefur nefnilega komið í ljós að peningarnir sem hann notaði hafa í flestum tilfellum verið stolið úr íslenska bankakerfinu, á kostnað almennings. Það er því hreint fáránlegt að Karl Wernersson skuli ennþá fá tekjur af ránsfengi sínum.

Ekki vekur það síður furðu, að Jón Ásgeir Jóhannesson, sem í septmber sl. átti bara fyrir Diet Coke, skuli þrátt fyrir kyrrsetningu eigna sinna getað snarað fram 1.300.000.000 króna til að greiða upp lán í glæsiíbúð "sinni" í New York.

Ekki veit ég með ykkur kæru lesendur, en ég skil hvorki upp né niður í þessu öllu og mér er það hulin ráðgáta hver á hvað í íslensku þjóðfélagi.

Svona er víst Ísland í dag!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver skilur þetta?

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband