Heimskur er heimasetinn maður!

Fyrir 24 árum síðan átti ég skemmtilegt samtal við merkiskonu sem ég átti talsverð samskipti við í mörg ár. Konan hét Sigrid Ásgeirsson, norsk að uppruna, en notaði stærsta hluta lífs síns á Íslandi. Í áraraðir var hún húsvörður í Fíladelfíu krikjunni í Reykjavík. Þar sem ég tók afar virkan þátt í starfi kirkjunnar á þessum árum (og geri enn) lágu leiðir okkar Sigrid verulega oft saman og í lang flestum tilfellum voru það ánægjuleg samskipti. Hún átti það þó til að senda manni tóninn.

Á þessum árum voru báðir stóru bræður mínir við nám á erlendri grundu. Óli las verkfærði í Danmörku og Kiddi las Guðfræði í Kanada. Sigrid hafði áhuga á fólki og þekkti vel til beggja bræðra minna. Þegar við mættumst einu sinni á ganginum fyrir framan húsvarðaríbúðina í Fíladelfíu spurði hún mig hvað væri að frétta af bræðrum mínum og hvað þær væru að aðhafast. Ég sagði henni hvað hvor um sig væri að lesa og hvar. Hún spurði um hæl hvort ég hefði ekki farið neitt utan til náms og hvort það stæði ekki til. Ég neitaði hvoru tveggja enda var ég á þeim tíma alls ekki að hugsa um nám eða að flytja burt frá nafla alheimsins. Svar Sigrid við mínu svari var einfalt og hnitmiðað: "heimskur er heimasetinn maður.

Það er nú ekki hægt að segja með sannfæringu að ég hafi verið mjög uppörvaður eftir þetta samtal við Sigrid Ásgeirsson. En það er heldur ekki hægt að segja að það hafi verið vegna þessara orða hennar að ég fluttist ári seinna búferlum með litlu fjölskylduna mína til Kanada. Ferðinni var heitið í sama skóla og Kiddi var í og ég hóf að lesa "Pastoral Theologi".

Það var verulega lærdómsríkt að dvelja í Kanda, og það reyndist okkur Kötu minni líka dýrmætt að þurfa í jafn ríku mæli og raun bar vitni að treysta á okkur sjálf og hvort annað. Við fórum í gegnum menningarsjokk og erfiða aðlögun hönd í hönd og við erum enn að njóta góðs af þeirri mótun sem við fórum í gegnum á þessum tíma. Við vorum ung og nýgift með litlu Theu bara þriggja mánaða og langt frá heimahögum.

Um aldamótin - síðstu það er að segja - fór að myndast löngun í lífi mínu til að prófa að búa í Danmörk. Við vorum búinn að prófa að búa vestan við Atlantsála en höfðum bara ferðast austur á bóginn. Danmörk hefur alltaf heillað mig mikið og mig langaði veruelga að prófa að búa þar og lesa við einhvern góða háskóla. Í kreppunni miklu heima á Íslandi árið 2008-2009 ákváðum við Kata mín að nota það tækifæri sem myndaðist og flytjast til Danmerkur. Ég fór að lesa við Álaborgarháskóla og Kata fékk vinnu við sitt fag sem félagsráðgjafi hjá Aalborg Kommune.

Það er gríðarleg vinna að flytja í nýtt land og alls ekki átakalaust. Við þurftum að læra nýtt tungumál, læra á nýja menningu, aðlagast nýju þjóðfélagi og spreyta okkur ein - aftur! Við Kata mín höfum í uppveksti barnanna okkar lagt þeim þann arf inn í líf sitt að fjölskyldan stendur saman. Við höfum kennt þeim það sem okkur hefur reynst best, að treysta Guði og að fara í gegnum hlutina hönd í hönd, staðráðin í því að láta ekkert buga okkur. Og það hefur lánast okkur. Fjölskyldan tókst á við þessa áskorun og hafði betur. Samstarf systkininna (barnanna okkar) hefur verið með þvílíkum hætti að hverjum foreldrum væri það verulegur sómi. Það var samt strax við flutningin ákveðið að að ári liðnu yrði staðan skoðuð og út frá líðan okkar þá tekið ákvörðun um hvað gert yrði í framhaldinu.

Undanfarna vikur höfum við síðan vegið og metið og að lokum er komin niðurstaða. Þakklát fyrir þann tíma sem við höfum átt hér í Danmörk, þakklát fyrir þá vini sem Guð hefur blessað okkur með, þakklát fyrir þá reynslu sem dvölin hefur fært okkur, þakklát fyrir tungumálið sem við fengum að læra og þakklát fyrir þann tíma sem kjarnafjölskyldan okkar Kötu (sem fer óðum stækkandi) hefur átt saman síðasta árið er stefnan engu að síður tekin heim til landsins bláa. Elstu börnin okkar tvö verða þó eftir og munu alla vega að sinni búa í ríki Margrétar Þórhildar.

Þegar ég var yngri var ég afar upptekin af því sem öðrum fannst um mig. Í dag fer lítið fyrir þeim þankagangi hjá mér. Ég er þeim mun uppteknari af því sem mér finnst um mig. Það er nefnilega eins og Heiðar vinur minn Guðnason (framkv.stj. Samhjálpar) segir svo oft: "Það breytir mér ekkert hvað öðrum finnst um mig, það breytir mér bara hvað mér finnst um mig". Mér finnst ég hafa nýtt þau tækifæri sem lífið - bæði í meðbyr og mótbyr - hafa fært mér. Mér finnst ég hafa tekist á við verkefnin mín af yfirvegun og gert mitt besta í að klára hvern kafla fyrir sig. Mér finnst ég mun ríkari en annars væri vegna þeirrar reynslu og þroska sem lífið hefur fært mér. Mér finnst ég sem sagt ferlega fínn náungi.

Hvað sem öllum pælingum líður þá er ljóst að ég er ekki lengur heimasetinn maður og kem því ekki heimskur heim!

Áfram Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkominn heim óheimski maður. Ég held með þér.

Kiddi Klettur (IP-tala skráð) 3.8.2010 kl. 11:19

2 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður.

Mátti til að kvitta hér líka, ekki bara á facebook.

Þú ert alveg búinn að sanna það fyrir Sigrid að þessi orð eiga ekki við þig lengur og þér leyfist þar af leiðandi að koma heim  frá Baunalandi:-)

Við pirruðum Sigrid oft. Hún þoldi ekki að við vildum gaufa í forstofunni eftir samkomur.

Guð veri með þér

Shalom/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 5.8.2010 kl. 04:29

3 identicon

Velkomin heim kæru vinir!

Ragnheiður Kr. Björnsd. (IP-tala skráð) 5.8.2010 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband