Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Spakmæli

Við systkinin og makar hittumst öll í gærkvöldi í okkar árlegu þorraveislu. Því miður gátu ekki öll systkinin verið með en þar fyrir utan var kvöldið afar ánægjulegt. Óli og Anette sem búa í Danmörku  komust eðlilega ekki og Ella og Ketill áttu ekki ekki áttu heimangengt í gærkvöldi og voru því ekki með okkur. Það er dýrmætara en orð fá lýst að eiga fjölskyldu og fá að njóta þess að eiga samfélag við hana. Í þetta sinn vorum við heima hjá Sigrúnu og Heiðari og þar sem Sigrún fylltu árið á fimmtudaginn gáfu pabbi og mamma henni bókina Þegar orð fá vængi. Stórskemmtileg bók sem ég mæli með. Eitt spakmælið í bókinni á óvenjuvel við þessa tíma sem við lifum í dag: 

 Góða peninga á ekki að nota til að borga slæmar skuldir!

Annars er ég einn heima þessa stundina sem er afar óvenjulegt. Hér á sveitasetrinu er stöðugt fjör og skemmtilegheit og ég er afar þakklátur fyrir það. Það er hins vegar mjög sjaldgæft að ég sé einn með húsið og eins og ég elska allt umstangið sem hér ríkir dags daglega er yndislegt að vera einn í kyrrð og ró inná milli. Kata mín og Thea fóru með Theodór Ísak að horfa á Elínu Rut keppa í fimleikum og þar sem Kata telur að ég sé lasinn fékk ég þá tilskipun að vera heima og hvíla mig. Það þurfti reyndar ekki að dekstra mig til þess Halo

 Njótið lífsins vinir - það er of stutt til að eyða því í vanlíðan og vandræði! 


Kótelettuklúbbur

það hefur verið gestkvæmt hér á sveitasetrinu um helgina. Á föstudagskvöld var Kata með saumaklúbb en Kata var ein af þeim sem stofnaði þann klúbb fyrir tæpum tuttugu árum og þær hittast ennþá einu sinni í mánuði og eiga góðan tíma saman. Í gærkvöldi var síðan röðin komin að mér að hýsa Kótelettuklúbbinn en í honum erum 8 bráðskemmtilegir vinir mínir og við hittumst alltaf fyrsta laugardag í mánuði til að borða kótelettur. Það eru mjög strangar reglur um hvernig á að matreiða letturnar en þar sem mikil meirihluti meðlima í klúbbnum eru undir eftirliti hjartasérfræðinga er því miður ekki hægt að gefa upp aðferðafræðina hér á veraldarvefnum. En ég get sagt ykkur að þetta er FERLEGA FRÁBÆR AÐFERÐ ef litið er til bragsins. Báðar þessar uppákomur um helgina tókust mjög vel. það er mikið ríkidæmi að eiga góða vini. Í dag förum við síðan í kirkju í Mozaik eins og alla sunnudaga.

Það var líka stór helgi hjá Birgir Steini syni mínum um helgina. Hann var að spila á stóru móti með  Jesus Culture. Ég hef ekki vit á tónlist en þeir sem þekkja til segja þetta  frábært tækifæri fyrir hann og staðfesti enn einu sinni hvað hann er góður bassaleikari. 

Hér er myndband frá Jesus Culture móti sem haldið var í fyrra. 

 

Lífið er sannarlega ljúft og ég er ákveðinn í að njóta þess!  


Góður dagur að baki!

Þá er enn einn góður dagur að baki og ég er bara nokkuð þreyttur! En það er til góð þreyta þegar maður leggst til hvíldar og er sáttur við dagsverkið. Það hefur verið nokkuð annríkt hjá mér í dag en þannig vil ég reyndar hafa það.

Helgin okkar Kötu var YNDISLEG! Á laugardaginn var áttum við 22 ára brúðkaupsafmæli og að vanda var haldið uppá það með rómantískri helgarferð. Að þessu sinni fórum við á Hótel Flúðir og vorum þar frá föstudegi til sunnudags og nutum þess að eiga tíma og athygli hvors annars án nokkurs utanaðkomandi truflunar. Við höfum notið þess að eiga hvort annað og standa saman í blíðu og stríðu frá því að við fyrst fléttuðum fingrum okkar saman fyrir hart nær aldarfjórðungi. Þessi ár hafa verið okkur góð og ég hef notið hvers dags. Lífið með Kötu minni er ævintýri líkast og hver dagur er sérstök blessun frá Guði.  Tíminn hefur sannarlega flogið áfram og mér finnst við ekki hafa elst neitt frá því að við byrjuðum saman. Það er sagt að góður maki sjái mann ennþá eins og maður heldur að maður líti út. Kata mín lætur mér líða eins og ég sé enn ungur og ferskur og þó að ég eigi bæði spegil og baðvigt þá vel ég að trúa henni og njóta þess. Hún er að sjálfsögðu eins og gott vín - verður betri með hverju árinu!

Hamingjan er hins vegar, eins og Erla systir mín segir alltaf, ferðalag en ekki endastöð. Ferðalag okkar Kötu minnar hefur verið afar hamingjuríkt, bæði þegar vel hefur gengið og þegar skóinn hefur þrengt. Þar gildir að viðhorf okkar er það sem mestu skiptir. 

Njótið lífsins vinir - það er fullt af yndislegum tækifærum!

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband