Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Kata min!

Kata min fyllir árið í dag!

Það er nú þannig að allt í sambandi við hana Kötu mína er mér gleðiefni. Það eru tæplega 30 ár síðan hún fangaði huga minn og hjarta og meirihluta ævi okkar beggja höfum við rölt í gegnum sætt og súrt hönd i hönd. Við kunnum bæði tvö vel við þann ferðamátan.

Kata er, eins og allir sem til hennar þekkja, alveg einstök kona. Hún er gædd svo mörgum framúrskarandi eiginleikum að í flestum tilfellum þarf nokkra eiginleika til að rúmma öll þessi gæði. En Kata mín fer létt með að höndla þetta allt í einum pakka. Ég hef til dæmis aldrei hitt neinn einstakling sem er jafn geðgóður og hún Kata mín. það þýðir ekki að hún hafi ekki skap, því það er engin skortur á því, en hún skiptir ekki svo auðveldlega skapi. Hún er hins vegar réttsýn fram í fingurgóma og í hennar huga skal rétt vera rétt. Það er því ekki gefinn neinn afsláttur á því, en aðferð hennar við að koma sinni staðföstu skoðun á framfæri er með þeim hætti að einginn meiðir sig á leiðinni. Léttleiki og jákvæðni eru henni svo eðlislæg að ég þekki ekki annað eins. Hún er líka umtalsbesta manneskja sem ég þekki og myndi ekki segja ósátt þó að hún ætti líf sitt að leysa. Svo er hún svo yndislega gelymin. Hún gleymir jafnóðum því sem aflaga hefur farið og hefur lag á að lifa í núinu og framtíðinni, en lætur fortíðina ekki binda sig eða hindra framgang sinn.

Ég gæti notað fjöldann allan af blaðsíðum til að lýsa Kötu minni, en ég ætla ekki að gera það hér. Ég ætla í staðinn að játa hvað mér finnst best við hana Kötu mína, en það er hver ég er þegar ég er með henni. Hún nær að draga fram í mér allt það besta sem ég hef uppá að bjóða og á sama tíma hjálpar hún mér við að dempa og laga það sem betur má fara.

Ég gæti hreinlega ekki hugsað mér lífið án Kötu minnar. Hún er mér allt, jafnt himinn sem haf, sól og máni!!

Elsku Kata mín - innilega til hamingju með daginn þinn. Ég elska að eldast með þér!!


Hinn dýrasti arfur!

Ég hef verið að benda börnunum mínum, og þá ekki síst Theu minni með litla drenginn sinn, á mikilvægi þess að rækta Íslenska tungu þó að við búum erlendis. Íslenkan er jú okkar dýrasti arfur sem við verðum að vernda og meta að verðleikum. Það eru ómæld forréttindi að vera í hópi þeirra örfáu þúsunda sem tala þetta einstaka og gullfallega mál. Ég bý svo vel að tala auk minnar eigin tungu bæði ensku og dönsku en það er ekkert sem jafnast á við að tjá sig á sínu eigin máli!

Læt hér fylgja með kveðskap sem allir landsmenn eiga að þekkja:

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn nema ég og þú.
(Jónas Hallgrímsson)

Ég elska Ísland og okkar dýrasta arf!


Thea 22 ára í dag!!

Mér finnst alveg ótrúlegt til þess að hugsa að það séu orðin 22 ár síðan ég fékk hana Theu mína í hendurnar í fyrsta skipti, en það er nú samt staðreynd. Hvernig getur svona ungur maður eins og ég átt svona uppkomna dóttir....

Thea min fyllir sem sagt árið í dag í 22. skiptið. Það eru að sjálfsögðu alltaf yndisleg tímamót að ljúka einu ári og fá að byrja það næsta.

Thea mín er í senn einstök og yndisleg. Hún hefur frá því að við vissum að hennar var að vænta verið okkur afar mikið gleðiefni. Það er þó ekki laust við að hún hafi alltaf vitað hvað hún vildi og hvernig hún vildi hafa hlutina. Það má því segja að hún hafi verið okkur í senn blíðust og stríðust. Ég veit ekki hvaðan hún hefur fengið þá eiginleika að vilja alltaf ráða öllu sjálf. Þetta hlýtur að koma úr móðurættinni.... En Thea er líka kona sem hefur farið í gegnum erfiða hluti og þurft að berjast fyrir lífi sínu. Þar hefur hún sýnt hvað í henni býr. Thea er kona sem gefst ekki upp og tekst á við allt sem mætir henni með því hugarfari að ekkert sé henni um megn. Það eru eiginleikar sem ég met afar mikils í fari hvers einstaklings. Ég er afskaplega stolltur og þakklátur fyrir hana Theu mína.

í dag blasir lífið við Theu minni og litla nafna mínum. Hún hefur með einstakri elju og dugnaði lokið við alla þá aðgangskúrsa sem hún þurfti að klára til að geta hafið háskólanám í haust og það útaf fyrir sig er frábær áfangi. Í vetur kynntist hún yndislegum ungum manni héðan frá Álaborg og þau hafa nú ákveðið að rugla reitum. Okkur líst afar vel á Michael og erum þess fullviss að þau muni ná að höndla hamingjuna saman.

Elsku Thea mín - innilega til hamingju með daginn þinn. Hlakka til að fá ykkur í mat í kvöld!!


Verðfall á mörkuðum.

Það hafa verið ítarlegar fréttir af verðfalli á mörkuðum bæði vestan hafs og austan undan farna daga. Vangaveltur eru uppi um hvort að um hafi verið að ræða mannleg mistök hjá einhverjum miðlaranum.

í dag fékk ég frétt um merkilegt verðfall á fasteignamarkaðinum heima á Íslandi.

Í árslok 2006 festum við Kata mín kaup á nýju og fallegu einbýlishúsi í falleg hverfi á Selfossi. Við greiddum 32.000.000 fyrir húsið og áttum dágóðan hluta í því þegar við fluttum inní það í ársbyrjun 2007. Það sem við skulduðum í húsinu var hins vegar því miður að mestu í erlendri mynt og því fór hjá okkur eins og afar mörgum öðrum, skuldinn óx langt umfram verðgildi hússins. Þegar staðan var orðin þannig að í stað þess að eiga all margar milljónir í hreinni eign í húsinu var skuld okkar við bankann orðin rúmum 15.000.000 umfram hugsanlegt söluverðmæti hússins. Þá hentum við handklæðinu í hringinn og ákváðum að eyða ekki lífi okkar í að bjarga fallega húsinu okkar. það verður þó að viðurkennast að það var verulega sárt að sjá á eftir því sem við höfðum með harðri hendi og gríðarlegri vinnu náð að eignast eftir að ahfa misst allt okkar í gjaldþroti nokkrum árum áður.

Í dag frétti ég hins vegar að nauðungarsöluferli hússins er lokið og bankinn leysti til sín húsið. Þeir fengu það samt á verði sem mér hefði aldrei boðist að kaupa það á. Ég gerði tilraun til þess að endursemja um verð hússins og þá var mér boðið að endurkaupa það á 42.000.000. Bankinn náði umtalsvert betri samningi við sjálfan sig og leysti til sín húsið mitt á 5.000.000. Það er gríðarlegt verðfall....verst að ég fékk ekki að njóta þess.

Svona ganga nú kaupin á eyrinni.


Nýr tónn

Það verður að segjast eins og er að það kveður við nýjan tón í harmleiknum "Íslenska efnahagshrunið" með handtökum tveggja Kaupþingskónga í gær.

Í upphafi vil ég taka það fram að ég er alls ekki hrifinn af fangelsum og finnst skelfilegt að menn skuli leyðast á þær brautir sem enda þar.

Ég er þessar vikurnar að skrifa rannsóknarritgerð um afleiðingar fátæktar á börn í velferðarríkinu Danmörk. Þetta er í senn fróðlegt og athygglisvert viðfangsefnið sem hefur gefið mér dýpri skilning á því þjóðfélagi sem ég bý í í dag.

Ritgerðin er skrifuð sem hópverkefni og það fyrsta sem við gerðum var að skoða skilgreiningar á fátækt. Það kom í ljós að það eru tvær meginskilgreingar til, önnur notuð af EB og hin af OECD. Við fundum líka fljótt út af það eru notaðu tvö hugtök um fátækt, annnars vegar raunveruleg fátækt (absolut fattigdom) og hins vegar afstæð fátkækt (relative fattigdom).

Í Danmörku þekkist ekki raunveruleg fátækt eins og hún er skilgreind bæði af EB og OECD, en þá er talað um að einstaklingar eigi hvergi höfði sínu að halla og hafi engan aðgang að mat. Það er hins vegar verulega stórt vandamál, og ört vaxandi, hversu margir búa við "relative" fátækt í Danmörku. Það þýir að viðkomandi þarf að neyta sér um fjölmargt sem almenningur telur sjálfsagan hlut. Þetta getur verið allt frá því að eiga ekki GSM síma, eiga ekki tölvu eða niður í það að geta ekki borðað borðað 3 góðar máltíðir á dag og skaffað sér og sínum þau föt sem nauðsynleg eru. Viðkomandi er því í raun fátækur þó að hann falli ekki undir skilgreiningar EB og OECD um að vera "raunverulega fátækur".

Og þá hugsa ég heim til Íslands. Mér finnst ekki sniðugt að fjölskyldumenn séu hnepptir í fangelsi. En á móti varpa ég fram þeirri spurningu (sem ég vel að svara ekki sjálfur hér og nú) hvort það sé eðlilegt að menn sem varpa þúsundum einstaklinga í "relativt" fangelsi gangi um frjálsir og lifi í munaði sem íslenskur almúgi mun aldrei geta leyft sér. Sami almúgi og mun greiða upp skuldir og ævintýramennsku þessara manna.

Mín einlæga skoðun er sú að það sé ekki besta leiðin að fangelsa þá sem bera ábyrgð á efnahagshruninu. Það besta er að þeir einfaldlega skili því sem þeir stálu og almenningur verði þannig leystur úr sínu "relative" fangelsi og allir geti síðan lifað sáttir við sitt.

Væri það nú ekki yndislegt?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband