Íslenskt hrossakjöt!

Ég hef alltaf verið mikill matmaður og nýt þess að borða góðan mat. Danskurinn kann sannarlega að gæla við bragðlaukana og okkur hefur síður en svo skort matföngin þann tíma sem við höfum búið í ríki Margrétar Þórhildar. En það er sumt sem bara fæst á Íslandi og margir heima taka sem alltof sjálfsögðum hlut. Þar má meðal annars nefna skyr, harðfisk, íslenskt lambakjöt og hrossakjöt! Það síðast nefnda er eitt af mínu algjöru uppáhaldi!

Ég notaði því tækifærið um daginn þegar ég var heima á Íslandi til að skjótast í Bónus og ná mér í íslenskan kost sem fjölskyldan hefur saknað sárt undanfarna mánuði. Eitt af því var saltað hrossakjöt. Ég var reyndar með örlitla yfirvigt, svona rétt um 20 kíló, en það var líka farið heim með 3 lambalæri, talsvert af íslenskum lakkrís, Nóa konfekt og páskasúkkulaði, harðfisk, grænar baunir, lifrapylsa, hellingur af flatkökum og ........

Til að þurfa ekki að greiða þá himinháu sekt fyrir yfirvigtina sem SAS vildi að ég legði inní hið illa stadda norræna flugfélag gripum við Óli bróðir til þess ráðs að umraða vigtinni í handfarangur okkar og burðast matinn í fanginu á milli landshluta. Það gekk svo sem vel, en ég sá á svipbrigðum danska öryggisvarðarins á Kastrup að hann öfudnaði mig ekki af kostinum kæra. Nema þá ef vera skyldu grænu baunirnar því að þær vildi hann gjarnan fá að halda eftir. Ég var svolítið smeykur við að hann vildi líka halda í Skjóna gamla þar sem vakumpakkningin hafði gefið sig í fluginu frá Keflavík þannig að þegar hann tók pakkann upp úr töskunni minni varð hann örlítið klístraður á fingurgómunum.... Ef til vill hefur það bjargað mér fyrir horn að blessaður maðurinn hefur þurft að fara afsíðis og losa um velgjuna sem sást svo greinilega á andliti hans við skoðunina á handfarangirnum mínum.

En heim komst hrossið og ofan í pott. Og þvílík sæla!!! Til að fagna þessum merka áfanga í Danmerkur dvöl okkar var haldin veisla. Michael, kærasti Theu, og ein dönsk vinkona okkar komu í heimsókn og borðuðu með okkur. Og viðbröðgin voru svo góð að þegar Benedikt vinur minn og Dagný koma hingað í apríl verða þau beðinn að koma við í Jóhannesarbúð og kaupa eins og ein klár fyrir mig.

Annars er lífið ljúft hér í Álaborg. Vorið að bresta á og hitatölur að nálgast tveggja stafa stærðir. Skólinn gengur vel og ég nýt þess að fást við námið mitt. Ég er sannarlega lukkunnar pamfíll.

Njótið augnabliksins - það kemur aldrei aftur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband