Að gæta tignar sinnar.
30.3.2010 | 07:02
Mér hefur hlotnast ómetanlegur arfur. Þau auðævi verða aldrei mæld í krónum og aurum, heldur er um að ræða þekkingu og visku sem gengið hafa mann frá manni.
Ég bjó svo vel að eiga tvær yndislegar ömmur sem reyndust mér báða afburðarvel. Það var alveg sama hvort maður kom til Siggu ömmu eða Stínu ömmu, alltaf var manni tekið með þeim hætti að mér fannst ég mikilvægasti maður í heimi. Aldrei var látið í það vaka að ég kæmi á slæmum tíma eða illa stæði á. Og báðar áttu það sameiginlegt að úða í mig veitingum í afar ríku mæli. Sigga amma átti það til um miðjan dag að steikja handa okkur Kidda bróðir kótilettur, því eitthvað yrðum við að borða greyin.
Það besta sem ég fékk frá þeim var samt saman söfnuð þekking tveggja kvenna með djúpa lífsreynslu. Stína amma kenndi mér meðal annars að "gæta tignar minnar". Hún sagði að við værum of vönduð til að leyfa okkur að segja allt sem okkur dytti í hug. Við þyrftum í öllum tilfellum að gæta þess að orð okkar byggðu upp en brytu ekki niður. Síðan vitanði hún í heilaga ritningu sem kennir okkar að "dauði og líf er á tungunnar valdi". Aftur og aftur hef á lífsgöngu mína farið í minningarbankann og sótt visku til þeirra orða sem ömmur mínar hafa talað inní líf mitt.
Undanfarin misseri hef ég hugsað mikið til orðanna hennar ömmu um að gæta tignar minnar. Mér hefur svo oft misboðið fullkomnlega hvernig farið er með fólk heima á Íslandi og hvernig fjármálastofnanir hafa á grófann hátt mismunað fólki. Á meðan útvaldir fá afskrifðar þúsundir milljóna er almenningur hengdur í hæsta gálga. Og nú þarf ég að gæta tignar minnar áður en ég segi eitthvað sem ég sé svo eftir seinna. Það er kannski ekki úr vegi í þeim hugrenningum að minna sig á að í bankakerfinu sjálfu vinnur afar mikið af harðduglegu og strangheiðarlegu fólki sem enga ábyrgð ber á því sem misfarist hefur. Þar er ég ekki síst með í huga mína fyrrum vinnufélaga í útibúi 313 hjá Arionbanka. Úrvalsfólk, allt frá útbibússtjóra til ræstitæknisins! Þar var ég sem fulltrúi KB ráðgjafar - einu af betri fyrirtækjum landsins - í rúmlega 4 ár og kunni verulega vel við mig.
Sjálfur er ég orðin afi og geri mér svo ríka grein fyrir þvi að bæði börnin min og síðan barnabörn munu á einhverjum tímapunkti hugsa til baka og rifja upp það sem ég hef lagt inní líf þeirra. Ég hef fyrir löngu síðan ákveðið að þær minningar verði góðar og það sem ég legg inní líf þeirra veri þeim til framdráttar. Mig langar mjög að þeirra minning verði að ég hafi kennt þeim að gæta tignar sinnar.
Njótið dagsins elsku vinir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.