Rólegir dagar.
4.4.2010 | 07:31
Það eru rólegir dagar að baki hjá okkur fjölskyldunni, og þeim hefur verið vel telkið. Í afar mörg ár höfum við ráðstafað verulega miklu af tíma okkar í að sinna öðrum og haft óþarflega lítin tíma fyrir okkur. Þegar við fluttum frá yndislega Íslandi ákváðum við strax að nota námstímann minn hér ytra til að stilla kompásinn uppá nýtt. Við höfum í svo mörg ár verið í forsvari fyrir kirkjulegu starfi og höfum notið þess þó svo að það sé svo gott sem botnlaus vinna. En allt hefur sinn tíma og nú finnum við að það er tími fyrir okkur! Og þann tíma höfum við og ætlum við að nota vel. Í dag njótum við þess að vera upptekin við að elska Guð og njóta elsku hans á móti.
Páskarnir hafa því verið sannkallaðir frídagar sem við höfum notað til að hvíla okkur og hlaða batteríin okkar. Við höfum farið í heimsókn og fengið heimsókn, farið i skógarferð, legið og lesið, horft á sjónvarp, borðað góðan mat og í alla staði notið lífsins. Reyndar hafa synir mínir verið í sitt hvoru ferðalaginu. Jósúa fór með bekkjarfélaga sínum og fjölskyldu hans í Legoland og var þar í 2 daga. Birgir Steinn fór hins vegar með nokkrum vinum sínum til Amsterdam og kemur heim seinnipartinn í dag.
Í kvöld verður síðan páskalambið borðað og það er, Guði sé lof, íslenskt lambalæri eldað af snillingnum mér.... Ég held að það sé ekki neinum ofsögum sagt að allri fjölskyldunni hlakki til að setjast að borðum í kvöld.
Á morgun koma svo Elísabet og Detlef (systir Kötu minnar og hennar heittelskaði) í vikudvöl hingað til Jótlands. Þau búa í Germaníu og hafa gert frá því að þau giftust fyrir 26 árum síðan. Þau hafa leigt sér sumarbústað hér rétt fyrir utan Álaborg þar sem þau ætla að dvelja, og við ætlum um næstu helgi að heimsækja þau og gista í 2 nætur hjá þeim. Það verður yndislegt að hitta þau og njóta samfélags við þau. Ég er svo heppinn að Óli bróðir býr í fallegum bæ rétt sunnan við Álaborg og við hittumst reglulega, síðast í gær þegar hann og Anette komu hér við í kaffisopa. Það er svo ómetanlegt að eiga fjölskyldu og njóta þess að elska og vera elskaður.
Njótið páskanna elsku vinir og þess frelsis sem verk Jesú á krossinum færir okkur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.