Lífið er ljúft!

Ég er svo lánsamur maður að lang flestir dagar í lífi mínu eru góðir dagar. Ég er hamingjusamur og nýt lífsins og hef aukinheldur lært þá kúnst að sjá það jákvæða í hverju degi.

Síðustu dagar hafa verið sérlega ánægjulegir. Frá fimmtudegi til laugardags dvöldum við í sumarhúsi á austurströnd Danmerkur með Betu mágkonu og hennar fjölskyldu. Að sitja með góðum vinum, borða góðan mat og njóta þess að hlæja að góðum minningum eru sönn forréttindi. Og ekki skemdi að veðrið var yndislegt og við nutum þess fara í langar gönguferðir um fallegt umhverfi sumarhúsasævðisins. Beta og Detlef keyrðu síðan heim til Germaníu á sunnudag og tóku tengdamömmu með. En áður en þau fóru af stað hjálpuðumst við að við að klára hangikjötið sem Kaja hafði komið með frá Íslandi. Við Kata mín hristum sem sagt fram eina snögga matarveislu, en það kunnum við ágætlega og kunnum einsaklega vel við að gera. Michael hennar Theu minnar var hjá okkur líka og það var ekki annað að sjá en þeim danska fynndist íslenska lambið hreinasta afbragð.

Eftir kveðjustundina fórum við Kata mín síðan út í skóg í göngutúr og strákarnir okkar komu með. Þvílík forréttindi að eiga þannig samfélag við börnin sín að þau nenni með manni í slíkar ferðir! Þar kemur uppskera margra ára sáningar fram. Þegar heim var komið og búið að ganga frá öllu sem gera þurfti fengum við síðan símtal frá Óla bróðr. Hann og Anette áttu í einhverjum erfiðleikum með allan ísinn sem þar var til í kistunni og þurftu smá aðstoð við að minnka lagerstöðuna. Við brugðum okkur því suður á bóginn og áttum yndislegt kvöld með dýrmætum vinum í Støvring.

Annars var hugurinn minn heima á Íslandi á föstudaginn, nánar tiltekið heima hjá pabba sem þá fyllti árið í 71. sinn. Ég hefði svo innilega viljað vera nær honum á þessum degi og fá mér kaffisopa með honum. En þar sem Atlantsálar skilja okkur að lét ég því duga að hringja í hann og óska honum til hamingju með daginn. Hann var sjálfum sér líkur og hafði meiri áhuga á að heyra um hvernig okkur liði og hvað væri að frétta af okkur en að tala um eigið afmæli. Pabbi hefur alltaf sýnt öllu sínu fólki einlæga umhyggju og verið einstaklega umhugað um að öllum líði vel. Eftir að við Kata mín fluttumst búferlum austur yfir hafið hefur það verið mikið áhugamál hjá pabba hvernig okkur gangi að læra málið og hvernig krökkunum gangi að komast inní skólakerfið. Ég er afar þakklátur fyrir þann áhuga sem pabbi hefur á mér og mínum og umhyggjuna sem hann sýnir okkur. Það eru ekki allir svo heppnir að eiga pabba sem elskar með þeim hætti sem pabbi gerir. Og ég elska pabba minn!

Njótið augnabliksins vinir - það kemur aldrei aftur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband