Hver fer heim??

Í gær fóru Birgir Steinn og Elín Rut heim til Íslands og ætla að vera þar í sumarfríinu sínu. Tengdamamma hefur verið hér ytra síðan í mars, og skipt tímanum á milli okkar og Betu (stóru systir Kötu minnar) og Detlef svila míns, en þau bú í Germaníu. Tengdamamma er 83 ára og þrátt fyrir að vera spræk mikklar hún það fyrir sér að flúgja ein á milli landa. Hún kom því með okkur Óla bróðir hingað út þegar við komum heim eftir sjötugs afmælið hennar mömmu í mars. Þegar það lá ljóst fyrir að Birgir Steinn færi heim til Íslands í frí ákvað tengdó því að fá far með honum. Við fórum því á netið og pöntuðum far fyrir hana í sömu vél hjá Iceland Express, en þeir fljúga einu sinni í viku beint á milli Íslands og Álaborgar. Við greiddum fargjaldið með kreditkorti Kötu minnar.

Í gær var svo farið með liðið á Lindholm flugvöllinn í Nørresundby (norður hluta Álaborgar) því nú skyldi halda heim. Það gekk vel að innrita Birgir Stein og Elín Rut í flugið en þegar kom að tengdamömmu var hún ekki á farþegalistanum. Varð nú uppi fótur og fit og yndælir starfsmenn flugvallarins reyndu að finna hana á farþegalistanum án nokkurs árangurs. Það endaði með því að ég var beðinn að lesa yfir farþegalistann og finna út hvort ég fyndi nafnið hennar á listanum, ef vera skyldi að þeim hefði hreinlega missést. Þegar ég las listann yfir fann ég hvergi nafn tengdamömmu, en mér til furðu var Kata mín skráð sem farþegi í vélinni. Starfsmenn flugvallarins áttu ekki neina skýringu á þessu, en íslensk kona sem var að innrita son sinn í sama flug við næsta borð var með sama vanda og við. Sonur hennar var einfaldlega ekki skráður í flugið.

Og nú voru góð ráð dýr, ég sá fram á að Kata færi heim og ég sæti uppi með tengdamömmu í staðinn. Ég var á þessari stundu feginn að tengdó talar ekki dönsku, því að ég sagði við starfsmann flugvarllarins að sú gamla væri búin að vera hjá okkur í 3 mánuði og þrátt fyrir að ég elska tengdamömmu mína væri kominn tími fyrir hana að fara heim. Starfsmaðurinn brosti skilningsrík og sagði að þau myndi leysa málið.

Í ljós kom síðan að sölukerfi flugfélagsins gerði þau mistök að í stað þess nafns sem gefið var upp sem farþegi við pöntun flugsins skráðist greiðandi ferðarinnar sem farþegi. Þessu var snarlega kipt í liðinn og framkvæmd nafnabreyting á miðanum. Það fór því þannig að tengdó fór heim og ég fékk að halda Kötu minni hjá mér...

Ferðin heim gekk þeim svo vel og þau voru öll þrjú feginn að komast til landsins bláa. Maggý (elsta systir Kötu) sótti þau úti á völl og eins og henni er líkt byrjaði hún á að fara með þau heim til sín og gefa þeim að borða. Þar var boðið uppá íslenskt lambalæri sem þreyttir ferðalangar borðuðu af ánægju, enda ekki hægt að gæða sér á slíku góðgæti hér í ríki Margrétar Þórhilidar nema með talsverði fyrirhöfn.

Njótið dagsins vinir - hann kemur aldrei aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær saga!

Ragnheiður Kr. Björnsdóttir (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband