Jósúa minn er 17 ára í dag.
27.9.2010 | 06:39
Í dag eru sautján ár síðan Jósúa sonur okkar tók sinn fyrsta andadrátt. Hann fæddist snemma að morgni vestur á Ísafirði en þangað hafði fjölskyldan flust aðeins örfáum dögum áður. Meðgangan og fæðingin gengu afar vel, og það gaf tóninn fyrir það sem framundan var.
Jósúa hefur alltaf verið mjög meðfærilegur og skemmtilegur einstaklingur. Hann veit alveg hvað hann vill og hvað hann vill ekki en það eru aldrei, og hafa aldrei verið, nein vandræði með hann. Systkini hans senda honum stundum kaldar kveðjur þegar við rifjum upp gamla daga en það gerum við oft í okkar fjölskyldu. Þá er gjarnan spurt hver var nú þægasta barnið og alltaf er það Jósúa sem fær þau verðalun, hinum til mikilla vonbrigða.
Jósúa er mjög agaður maður sem sést best í því hvernig hann gjörbreytti matar- og lífsstíls venjum sínum alveg uppá eigin spýtur. Hann náði af sér tæpum 30 kílóum á tiltölulega fáum mánuðum og hefur síðan haldið sinni þyngd stöðugri í vel á annað ár eftir að markmiðinu var náð. Hann sýnir líka af sér eindæma aga þegar kemur að skóla og heimanámi, enda er hann framúrskarandi nemandi með topp einkunnir í öllum fögum.
Jósúa hefur verið okkur öllum ómæld blessun og mikill gleðigjafi. Hann er skapgóður, hjálpsamur og góðviljaður. Þegar kemur að vinnu er hann eins og maurarnir, fer ekki með neinu offari en er að eins lengi og þörf krefur. Það er helst ef hann á að vaska upp sem skóinn kreppir, en þá fær hann oft magapínu. Það er reyndar trix sem hann lærði af eldri bróður sínum, Birgi Steini, og það virkaði svo vel hjá honum vegna þess að bjargvættur þeirra systkina, Thea stóra systir, hjólp þá alltaf til og bjargaði fárveikum bróður sínum. Nú býr Jósúa minn við það að Thea býr austan Atlantsála og getur þvi ekki komið honum til hjálpar í þessum magaveikindum.
Jósúa er líka mjög heiðarlegur maður og í hans lífi gildir það sem við höfum alltaf lagt inn í líf barnanna okkar að Já er Já og Nei er Nei. Ef Jósúa á að koma heim fyrir einhvern ákveðin tíma þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því, á mínútinni sem hann á að vera kominn heim skilar hann sér inn fyrir þröskuldinn. Menn uppskera svo eins og þeir sá og Jósúa hefur með framkomu sinni og karakter áunnið sér mikið og gott traust hjá okkur Kötu minni.
Elsku Jósua minn, innilega til hamingju með daginn þinn. Ég er verulega stolltur af þér og þakklátur fyrir að eiga þig bæði sem son og vin!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.