Aðfangadagur jóla
24.12.2008 | 11:35
Töfrar þessa dags hafa heillað mig frá því að ég man eftir mér!
Eftir að við Kata mín fórum að halda jólin saman fyrir rúmmum tveimur áratugum höfum við skapað okkar eigin hefðir sem við erum reyndar enn að bæta við. Hjá okkur líkur öllum undirbúningi á Þorláksmessu, nema því sem snýr að matseld. Aðfangadagur er því sæludagur fjölskyldunnar þar sem krakkarnir okkar (sem eru reyndar öll nema eitt orðin fullorðin) sofa út á meðan við hjónin- og tengdamamma - sitjum í eldhúskróknum og spjöllum um heima og geima. Þegar ungarnir vakna bíður þeirra hvers fyrir sig innpakkaður jólapakki í gluggakistunni frá jólasveininum og þar með er hátíðin hafin. Um hádegið fáum við okkur síðan hrísgrjónabúðing ala Teddi og einn heppinn fjölskyldumeðlimur fær möndlu í búðinginn sinn. Sá hinn sami fær möndlugjöfina sem undantekningarlítið er fjölskylduspil sem allir njóta síðan góðs af. Þegar degi fer að halla förum við síðan til kirkju áður en við setjumst að veisluborðinu.
Í kvöld verðum við með tvíréttað; Svína hamborgarhrygg og lambalæri. Hvorutveggja eldað og framreitt með ást og kærleika. Í Eftirrétt er síðan ananas frómans sem Kata mín útbýr eftir uppskrift frá mömmu minni. Þessi frómans er svo góður að það er ekki hægt að nálgast neinar lýsingar á honum með fátæklegum orðum. Ofan á þetta allt saman leggst síðan konfekt í kílóavís sem fjölskyldan leggur sig fram við að reyna að klára. Kata er reyndar svo dugleg við að fylla á að stundum eiga krakkarnir í fullu fangi við að hafa undan. En þá kem ég til hjálpar
Þegar öllu þessu er lokið setjusmt við síðan í stofuna, lesum jólaguðspjallið saman, þökkum Guði fyrir allar hans góðu gjafir, þökkum honum fyrir að við fáum öll að vera saman og að við skulum njóta þess að búa í friði, kærleika og vináttu við hvert annað. Síðan er farið í að taka upp pakkana sem getur hæglega reynst talsverð vinna með tilheyrandi eftirvæntingu og gleði. Þegar öllu þessu er lokið setjumst við hjónin síðan yfir jólakortin og tárumst yfir öllum þeim sem hugsuðu til okkar þessi jólin. Jólakortalestrinum fylgir reyndar talsvert samviskubit yfir að hafa enn ein jólin slept því að senda jólakort sjálf og því fylgir yfirveguð ákvörðun að fyrir næstu jól breytum við þessu...
Með öðrum orðum: YNDISLEGUR DAGUR Í FAÐMI FJÖLSKYLDUNNAR!
Kæri vinir - við Kata mín sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um gleðileg jól!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.