Þakkir
27.12.2008 | 08:48
Ég fyllti árið í gær í 41. skiptið. Mér fannst það svolítið ótrúlegt þegar ég vaknaði og hugleiddi það í svefnrofanum að ég væri virkilega kominn á fimmtugsaldurinn. Þegar Thea dóttir mín kom svo inní herbergið okkar og lagði afstrákinn í rúmmið á milli okkar Kötu minnar þá fannst mér það ekki lengur neitt ótrúlegt að vera farinn að eldast. Það er ekki óeðlilegt að afar séu á fimmtugsaldri.
Dagurinn í gær var mér afar ljúfur og góður. Kata mín dekraði við mig eins og hina 364 daga ársins og mér bárust margir tugir afmæliskveðja víðs vegar að úr heiminum. Ég hélt ekki uppá afmælið mitt með þeim hætti sem ég hef gert í gegnum árin. Þess í stað bauð ég hingað heim á sveitasetrið okkar foreldrum mínum og systkinum í súkkulaði með rjóma og smákökur með. Það var því fámennara en venjulega hjá okkur á þessu kvöldi annars jóladag en afar ljúft og ánægjulegt. Mér bárust líka fjöldi gjafa og mig langar að deila einni þeirra með ykkur. Það er þannig með unga menn á mínum aldri að það er ekki hægt að segja að það sé neitt sem manni vantar í afmælisgjöf, þó að gjafir gleðji að sjálfsögðu alltaf. Elín Rut dóttir mín (11 ára) hafði af því talsverðar áhyggjur hvað hún ætti að gefa mér í afmælisgjöf. Ég sagði henni að mig myndi mest af öllu langa í vísu sem hún semdi sjálf til mín. Og það gerði sú stutta og færði mér innrammaða og áletraða. Vísan bræddi hjarta mitt á augabragði enda kaupa engir penignar gjöf sem þessa. Ég læt vísuna fljóta hér með:
Elsku besti pabbi minn
mikið þykir mér vænt um þig
besti pabbi minn.
Þú ert svo fyndin
ert svo blíður
Þú ert svo frábær
Það er ekki til
eins betri pabbi en þú
Skiljð þið núna af hverju ég táraðist þegar ég las þessar línur?
Elsku vinir - hjartans þakkir fyrir allar árnaðaróskir og afmæliskveðjur sem þið senduð mér í gær!
Athugasemdir
Æ en falleg vísa. Alveg skiljanlegt að fella tár yfir svona fallegu ljóði. En gott að afmælisdagurinn var góður. Þú ert frábær, Guð geymi þig og þína:) Arna frænka
Arna frænka (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.