Afmæli og ættarmót
10.1.2009 | 13:14
Það er ekki ofsögum sagt að við fjölskyldan erum umvafinn skemmtilegum uppákomum og samkvæmum. Í dag er það bæði ættarmót í legg Kötu minnar og síðan er 20 ára afmæli hjá Hrund frænku okkar og vinkonu. Dagurinn mun því einkennast af yndislegu samfélagi við fólk sem við elskum. Ættin hennar Kötu er reyndar gríðarlega stór þannig að þar munum við eflaust líka hitta fólk sem við þekkjum ekki neitt og þar með skapast mikil og dýrmæt tækifæri til að eignast nýja vini.
Ég lenti í óvenjulegum hrakningum í gær þar sem ég keyrði gamla góða Volvoinn minn um götur höfuðstaðarins. Þegar ég ók Grensásveg til suðurs og tók stefnuna á Miklubraut til austurs neitaði sá sænski öllu samstarfi við mig. Tók hann öll völd í sínar hendur og drap á sér á miðjum gatnamótum. Og það klukkan 15:10 á föstudegi. Spennandi! Þessi ákvörðun sænska eðalvagnsins gaf mörgum vegfarendum tækifæri til að kanna hvort lúðrar þeirra eigin vagna væru í lagi. Og í afar mörgum tilfellum virkuðu flautur samferðamannanna óaðfinnanlega. Mér datt í hug sagan sem sögð er af Halldóri Laxness þar sem hann sat í bíl sínum sem hafði einnig drepið á sér á gatnamótum. Sá sem var fyrir aftan hann lá á flautunni í langan tíma. Eftir nokkuð basl við að koma tækinu í gang steig skáldið út úr vagni sínum og gekk að bílnum fyrir aftan sig og sagði kurrteitislega: "Fyrirgefðu herra minn. Ég kann ekki mikið á bíla. Ef þú vildir vera svo elskulegur að hjálpa mér að koma bílnum í gang skal ég taka að mér að liggja á flautunni fyrir þig á meðan......"
Ég reyndi að hringja í góða vini sem ég vissi að myndu hjálpa mér að koma tækinu - og mér - á öruggari stað en náði ekki í neinn enda háanna tími. Nú voru góða ráð dýr og tíminn vann ekki með mér. Það endaði með því að ég hringdi í Vöku og á þeirra vegum kom afar elskulegur og hjálpsamur maður sem dró bílinn á verkstæði fyrir mig.
Halldór Laxness þekki ég ekki neitt en Halldór Lárusson - prestur í Mozaik - er náinn og góður vinur minn. Hann sótti mig á verkstæðið og þegar ég bað hann að skutla mér í veg fyrir rútuna austur tók hann það ekki í mál. Sagði mér að þau hjónin þyrftu ekki tvo bíla yfir helgina og keyrði því næst sjálfan sig heim og sagði mér að taka bílinn sinn og nota eins og ég þyrfti. Svona eiga vinir að vera
Njótið lífsins vinir mínir og allra þeirra tækifæra sem lífið býður uppá!
Athugasemdir
Eins gott að þetta er ekki ættin mín og Kötu, nei ég veit það því ég hitti Theu í gær sem spurði hvort ég yrði ekki líka með í ættargleðinni, og þá kom í ljós hverslagsvar
Sé þig í anda í bílavandræðunum ohh ekki skemmtilegt á föst.d. en sniðug sagan af Laxness.
Góða helgi til ykkar elskurnar.
PS: Hvað er símin hjá Lifandi Halldóri hehe
Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir, 10.1.2009 kl. 13:22
Lengi lifi Volvo-inn...
Yngvi Rafn Yngvason (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 09:26
Leiðinlegt að þú skildir ekki ná í mig. ahhh
Kiddi Klettur (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 10:31
Sæll Teddi!
Skemtileg saga þó óskemtileg sé
Ég sé í henni ymsa góða punkta til að leggja út af í ræðu.
Bið að heilsa mömmu þinni !
Vertu Guði falinn.
Halldóra Lára Ásgeirsdóttir, 16.1.2009 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.