Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Nú er mér nóg boðið!

Ég tek heilshugar undir með Sigmundi Erni, þessi mótmæli eru komin út fyrir öll eðlileg mörk. Þeir einstaklingar sem tóku þátt í þessum mótmælum ættu að skammast sín og læra almenna mannasiði. Það er eitt að vera óhress með stöðu mála, en að beita saklausu fólki líkamsmeiðingar og eyðileggja eigur annarra er óafsakanlegt! Þarna töluðu mótmælendur alls ekki fyrir munn almennings í landinu. Ég segi "Nei takk" við svona aðferðum.
mbl.is Fólk slasað eftir mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkir

Ég fyllti árið í gær í 41. skiptið. Mér fannst það svolítið ótrúlegt þegar ég vaknaði og hugleiddi það í svefnrofanum að ég væri virkilega kominn á fimmtugsaldurinn. Þegar Thea dóttir mín kom svo inní herbergið okkar og lagði afstrákinn í rúmmið á milli okkar Kötu minnar þá fannst mér það ekki lengur neitt ótrúlegt að vera farinn að eldast. Það er ekki óeðlilegt að afar séu á fimmtugsaldri.

Elín Rut með Theodór ÍsakDagurinn í gær var mér afar ljúfur og góður. Kata mín dekraði við mig eins og hina 364 daga ársins og mér bárust margir tugir afmæliskveðja víðs vegar að úr heiminum. Ég hélt ekki uppá afmælið mitt með þeim hætti sem ég hef gert í gegnum árin. Þess í stað bauð ég hingað heim á sveitasetrið okkar foreldrum mínum og systkinum í súkkulaði með rjóma og smákökur með. Það var því fámennara en venjulega hjá okkur á þessu kvöldi annars jóladag en afar ljúft og ánægjulegt. Mér bárust líka fjöldi gjafa og mig langar að deila einni þeirra með ykkur. Það er þannig með unga menn á mínum aldri að það er ekki hægt að segja að það sé neitt sem manni vantar í afmælisgjöf, þó að gjafir gleðji að sjálfsögðu alltaf. Elín Rut dóttir mín (11 ára) hafði af því talsverðar áhyggjur hvað hún ætti að gefa mér í afmælisgjöf. Ég sagði henni að mig myndi mest af öllu langa í vísu sem hún semdi sjálf til mín. Og það gerði sú stutta og færði mér innrammaða og áletraða. Vísan bræddi hjarta mitt á augabragði enda kaupa engir penignar gjöf sem þessa. Ég læt vísuna fljóta hér með: 

Elsku besti pabbi minn
mikið þykir mér vænt um þig
besti pabbi minn.
Þú ert svo fyndin
ert svo blíður
Þú ert svo frábær
Það er ekki til
eins betri pabbi en þú

Skiljð þið núna af hverju ég táraðist þegar ég las þessar línur?

Elsku vinir - hjartans þakkir fyrir allar árnaðaróskir og afmæliskveðjur sem þið senduð mér í gær! 


Nokkrar myndir

afi sjáðu húsið mitt....Ég setti inn nokkrar myndir af jólahaldinu í myndamálbúmin hér á hægri spássíðu. Þeir sem hafa gaman af að kíkja í heimsókn þangað er það velkomið. Þeir sem engan áhuga hafa þá því ættu að skella sér í góðan göngutúr til að fá ferskt loft í lungun. Ég ætla sjálfur að halda áfram að hjálpa hinum sænska lögreglumanni Kurt Wallander að leysa flókna morðgátu í bókinni "Á villigötum" eftir Henning Menkell.

Njótið kvöldsins vinir - þetta kvöld kemur aldrei aftur!


Jóladagur

Ég svaf út í morgun enda er það góðra manna siður að sofa fram eftir á jóladagsmorgni. Það sem vakti fyrst athyggli mína í svefnrofanum var að heyra tengdamömmu spjalla við Jósúa son minn (15 ára). Ég var svo undrandi á að hann væri vaknaður svona snemma. Ég teygði mig í Armani arbandsúrið mitt og ekki minkaði undrun mín við það. Ég sá mér til furðu að klukkan var að verða 10 og hreint út sagt vissi ekki mitt rjúkandi ráð. Klukkan bara 10 að morgni og Jósúa kominn á fætur á frídegi. Þegar ég kom fram fékk ég skýringu á stöðunni: Jósúa minn var ekki ennþá sofnaður! Hann sem sagt vann "pissukeppnina" um hver gat vakað lengst. Hann var reyndar eini keppandinn Cool

Dagsrkáin í dag er einföld: AÐ NJÓTA ÞESS AÐ VERA TIL OG BORÐA MIKIÐ AF GÓÐUM MAT! 

Við á sveitasetrinu sendum ykkur öllum okkar bestu kveðjur og vonum að þið njótið þessa góða dags. 


Aðfangadagur jóla

Töfrar þessa dags hafa heillað mig frá því að ég man eftir mér!

Eftir að við Kata mín fórum að halda jólin saman fyrir rúmmum tveimur áratugum höfum við skapað okkar eigin hefðir sem við erum reyndar enn að bæta við. Hjá okkur líkur öllum undirbúningi á Þorláksmessu, nema því sem snýr að matseld. Aðfangadagur er því sæludagur fjölskyldunnar þar sem krakkarnir okkar (sem eru reyndar öll nema eitt orðin fullorðin) sofa út á meðan við hjónin- og tengdamamma - sitjum í eldhúskróknum og spjöllum um heima og geima. Þegar ungarnir vakna bíður þeirra hvers fyrir sig innpakkaður jólapakki í gluggakistunni frá jólasveininum og þar með er hátíðin hafin. Um hádegið fáum við okkur síðan hrísgrjónabúðing ala Teddi og einn heppinn fjölskyldumeðlimur fær möndlu í búðinginn sinn. Sá hinn sami fær möndlugjöfina sem undantekningarlítið er fjölskylduspil sem allir njóta síðan góðs af. Þegar degi fer að halla förum við síðan til kirkju áður en við setjumst að veisluborðinu.

Í kvöld verðum við með tvíréttað; Svína hamborgarhrygg og lambalæri. Hvorutveggja eldað og framreitt með ást og kærleika. Í Eftirrétt er síðan ananas frómans sem Kata mín útbýr eftir uppskrift frá mömmu minni. Þessi frómans er svo góður að það er ekki hægt að nálgast neinar lýsingar á honum með fátæklegum orðum. Ofan á þetta allt saman leggst síðan konfekt í kílóavís sem fjölskyldan leggur sig fram við að reyna að klára. Kata er reyndar svo dugleg við að fylla á að stundum eiga krakkarnir í fullu fangi við að hafa undan. En þá kem ég til hjálpar Wink

Þegar öllu þessu er lokið setjusmt við síðan í stofuna, lesum jólaguðspjallið saman, þökkum Guði fyrir allar hans góðu gjafir, þökkum honum fyrir að við fáum öll að vera saman og að við skulum njóta þess að búa í friði, kærleika og vináttu við hvert annað. Síðan er farið í að taka upp pakkana sem getur hæglega reynst talsverð vinna með tilheyrandi eftirvæntingu og gleði. Þegar öllu þessu er lokið setjumst við hjónin síðan yfir jólakortin og tárumst yfir öllum þeim sem hugsuðu til okkar þessi jólin. Jólakortalestrinum fylgir reyndar talsvert samviskubit yfir að hafa enn ein jólin slept því að senda jólakort sjálf og því fylgir yfirveguð ákvörðun að fyrir næstu jól breytum við þessu...

Með öðrum orðum: YNDISLEGUR DAGUR Í FAÐMI FJÖLSKYLDUNNAR! 

Kæri vinir - við Kata mín sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um gleðileg jól! 


Nýtt blogg

Það er ekki hægt að segja annað en kreppan hefur kallað fram ýmsar breytingar í lífi landsmanna. Ekki einasta erum við hjónin búin að losa okkur við báða lúxusvagnanna sem við keyrðum (og bílalánin af þeim) heldur hef ég ákveðið að hætta að borga fyrir bloggfærslur og færa mig bloggið mitt á þennan vinsæla vef í staðinn.

Hér mun ég sem sagt í óákveðin tíma segja mína skoðun á lífinu og tilverunni. Þeir sem hafa gaman af að fylgjast með slíku er boðið að njóta vel og hinum er ráðlagt að loka þessum glugga hið snarasta og snúna sér að einhverju sem viðkomandi hefur gaman af. Lífið er nefnilega allt og stutt til að eyða því í einhver leiðindi. 

Njótið dagsins - hann er Guðs gjöf til okkar. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband