Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
Sumardagurinn fyrsti.
30.6.2010 | 07:44
Þegar maður flytur í nýtt land er svo margt sem maður þarf að læra. Við höfum núna búið hér í Danmörk í rétt tæpt ár og þó að við séum búin að læra umtalsvert er enn meira ólært. Ég hef áður skrifað um að eitt af því sem ég sakna mest að heiman er að búa í þjóðfélagi sem ég þekki ekki. Slíkt uppgötvar maður fyrst þegar á það reynir.
Þetta tæpa ár sem ég hef verið hér, hefur verið gott veður uppá hvern einasta dag. Reyndar hefur veðrið verið óvanalegt að sögn heima manna. Við fengum til dæmis kaldasta og erfiðasta vetur sem verið hefur hér (alla vega við Limfjorden) í 20 ár, kaldasta maí mánuð í 30 ár og júní hefur að sögn danskra verið afleiddur. Mér hefur hins vegar fundist veðrið stórgott allan þennan tíma.
Og þá komum við að því sem maður er alltaf að læra; SKILGREININGAR!!!
Danir skilgreina veður nefnilega talsvert ólíkt ok0kur Frónverjum. Í vetur kom til dæmis hver snjóstormurinn á fætur öðrum, en við sáum aldrei stormana og vissum því sjaldnast af þeim nema þá af afspurn og vegna umtalsverðrar umkvörtunnar okkar samferðafólks. Ég fór því í vetur á stúfana og rannsakaði aðeins veðurskilgreiningar danskra frænda okkar. Ef vindur fer uppí 10 m/s og á sama tíma falla snjókorn til jarðar, þá er snjóstormur!! Og þá nánast lokast bærinn, skólum er aflýst og börnin send heim, strætó og leigbílar hætta að keya og það verður bara uppi fótur og fit. Með þessum orðum er ég alls ekki að gera lítið úr dönskum vinum mínum - enda líkar mér stórvel við dani - en þetta er bara talsvert framandi íslenskum manni sem búið hefur bæði á Ísafirði og Akureyri.
Þessu er eins farið með sólina og hitann. Í ríki Margrétar Þórhildar telst það ekki til sumardags ef opinberar hitamælingar eru undir 25 gráðum kenndar við sænska eðlisfræðingin Anders Celcius. Í fyrradag var sem sagt sumardagurinn fyrsti - í veðurfræðilegum skilningi - hér í hinni gróðursælu og fallegu Álaborg. Í dag er hins vegar "leiðinda veður", 17 sænskar gráður og léttskýað....
Ég ætla samt að njóta dagsins og lífsins sem er yndisleg Guðs gjöf!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veislur
27.6.2010 | 06:29
Allir sem þekkja mig vita að mér finnst veislur skemmtilegar og matur góður. Í gær var ég í mjög skemmtilegri veislu. Thea mín á yndislegan danskan kærasta og móðir hans og stjúpfaðir buðu okkur í garðveislu heima hjá sér í gær. Það var mjög gamana og þau hjónin veittu verulega vel.
Eitt af því sem ég hef lært eftir að ég flutti hingað út er að danir taka sér góðan tíma í veislur. Ég var til dæmis í "konfirmation" hjá Elínu bróðirdóttir minni í apríl og sú veisla stóð yfir í 8 tíma. Fyrst þegar ég tók þátt í danskri veislu fannst mér vera kominn tími til heimferðar eftir tæpa 3 tíma. En þá var leikurinn ekki einu sinni hálfnaður. Nú hef ég lært að þetta er góður siður. Við gefum okkur alltof sjaldan tíma til að setjast niður og eiga samfélaga hvert við annað. Það er þó hin einu sönnu verðmæti í lífinu, einstaklingar og það að eiga samfélag við aðra.
Matarboðið hjá Brian og Dorthe stóð í tæpa sex tíma. Allan þann tíma var boðið uppá einhvers konar hressingu og ég er ekki frá því að ég hafi borðað örlítið meira en mér holt. Thea hafði reyndar aðvarað okkur og sagt að það yrði veitt vel og við skyldum búa okkur undir mikið át. Og hún hafði rétt fyrir sér. Mér fannst maturinn afbragð, en það sem mér fannst best var að sitja með þessu góða fólki og fá að kynnast þeim og segja þeim frá okkur. þannig byggist vinátta, þegar hjarta mætir hjarta. Við keyrðum heim södd og ánægð, og einum vinahjónum ríkari. Líkami okkar vinnur úr matnum, hjá Kötu minni á nokkrum klukkutímum og hjá mér á nokkrum árum..... En vináttan og tengingin við Brian og Dorthe, hún heldur áfram að vaxa og dafna. Og það er dýrmætt.
Í dag förum við svo í aðra veislu, en í því húsi höfum við oft áður sest niður að snæðingi, og alltaf farið alltof södd heim. Júlía, elsta dóttir Óla bróður míns, varð stúdent í vikunni með glæsilegum árangri og nú skal því fagnað að hætti Anette mágkonu minnar. Veislur hjá þeim eru aldrei stuttar en það er alltaf stutt í næsta rétt á veisluborðinu þeirra. Ég hlakka til að fara, bæði vegna þess að Óli og Anette eru í hópi minna allra bestu vina og einnig vegna þess að veislur eru skemmtilegar. Þar hittist fólk til að gleðjast og fagna og fólk fær tækifæri til að gleyma amstri hversdagsins í nokkra tíma. Og það er yndislegt og mikilvægt.
Ég er afskaplega ríkur maður. Það getur vel verið að ég eignist einhverntíma peninga til að gera hluti sem ég get ekki leyft mér í dag, en ég er óhemju ríkur maður. Ég á frið við Guð og menn og fæ að að njóta samfélags við úrvalsfólk sem ég elska og sem elskar mig. Slíkt verður aldrei keypt fyrir allt gull veraldar.
Ég ætla að njóta dagsins og mæli með því að þú gerir það sama.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hver fer heim??
24.6.2010 | 05:23
Í gær fóru Birgir Steinn og Elín Rut heim til Íslands og ætla að vera þar í sumarfríinu sínu. Tengdamamma hefur verið hér ytra síðan í mars, og skipt tímanum á milli okkar og Betu (stóru systir Kötu minnar) og Detlef svila míns, en þau bú í Germaníu. Tengdamamma er 83 ára og þrátt fyrir að vera spræk mikklar hún það fyrir sér að flúgja ein á milli landa. Hún kom því með okkur Óla bróðir hingað út þegar við komum heim eftir sjötugs afmælið hennar mömmu í mars. Þegar það lá ljóst fyrir að Birgir Steinn færi heim til Íslands í frí ákvað tengdó því að fá far með honum. Við fórum því á netið og pöntuðum far fyrir hana í sömu vél hjá Iceland Express, en þeir fljúga einu sinni í viku beint á milli Íslands og Álaborgar. Við greiddum fargjaldið með kreditkorti Kötu minnar.
Í gær var svo farið með liðið á Lindholm flugvöllinn í Nørresundby (norður hluta Álaborgar) því nú skyldi halda heim. Það gekk vel að innrita Birgir Stein og Elín Rut í flugið en þegar kom að tengdamömmu var hún ekki á farþegalistanum. Varð nú uppi fótur og fit og yndælir starfsmenn flugvallarins reyndu að finna hana á farþegalistanum án nokkurs árangurs. Það endaði með því að ég var beðinn að lesa yfir farþegalistann og finna út hvort ég fyndi nafnið hennar á listanum, ef vera skyldi að þeim hefði hreinlega missést. Þegar ég las listann yfir fann ég hvergi nafn tengdamömmu, en mér til furðu var Kata mín skráð sem farþegi í vélinni. Starfsmenn flugvallarins áttu ekki neina skýringu á þessu, en íslensk kona sem var að innrita son sinn í sama flug við næsta borð var með sama vanda og við. Sonur hennar var einfaldlega ekki skráður í flugið.
Og nú voru góð ráð dýr, ég sá fram á að Kata færi heim og ég sæti uppi með tengdamömmu í staðinn. Ég var á þessari stundu feginn að tengdó talar ekki dönsku, því að ég sagði við starfsmann flugvarllarins að sú gamla væri búin að vera hjá okkur í 3 mánuði og þrátt fyrir að ég elska tengdamömmu mína væri kominn tími fyrir hana að fara heim. Starfsmaðurinn brosti skilningsrík og sagði að þau myndi leysa málið.
Í ljós kom síðan að sölukerfi flugfélagsins gerði þau mistök að í stað þess nafns sem gefið var upp sem farþegi við pöntun flugsins skráðist greiðandi ferðarinnar sem farþegi. Þessu var snarlega kipt í liðinn og framkvæmd nafnabreyting á miðanum. Það fór því þannig að tengdó fór heim og ég fékk að halda Kötu minni hjá mér...
Ferðin heim gekk þeim svo vel og þau voru öll þrjú feginn að komast til landsins bláa. Maggý (elsta systir Kötu) sótti þau úti á völl og eins og henni er líkt byrjaði hún á að fara með þau heim til sín og gefa þeim að borða. Þar var boðið uppá íslenskt lambalæri sem þreyttir ferðalangar borðuðu af ánægju, enda ekki hægt að gæða sér á slíku góðgæti hér í ríki Margrétar Þórhilidar nema með talsverði fyrirhöfn.
Njótið dagsins vinir - hann kemur aldrei aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Berrassaður borgarstjóri!
7.6.2010 | 04:23
Engin veit sína ævina fyrr en öll er. Það er ekki víst að Jón Gnarr hafi séð það fyrir þegar hann stofanði Besta flokinn að hann yrði borgarstjóri Reykjavíkur. Ef maður skoðar heimasíðu flokksins og þau myndskeið sem þar eru birt, líkjist það meira hugmyndum af skemmtiþætti en framboði.
En nú er Jón Gnarr orðin borgarstjóri í Reykjavík.
Um daginn sat ég með tengdamóðir minni og horfði á kvikmyndina Bjarnfreðarson, sem eins og flestir vita unnin af borgarstjóranum í Reykjvík. Tengdamóðir mín er hins vegar sjálfstæðismaður og hefur verið frá því að hún fékk kostningarétt. Það gidlir sama um hana og Einar J. Gíslaon, fyrrverandi prest Hvítasunnumanna á Íslandi, en hann lét hafa eftir í veislu undir stjórn vinar síns, Árna Johnsen þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að hann væri í sjöunda ættlið frá Fjalla Eyvindi og þeir hefðu allir verið sjálfstæðismenn. Ekki veit ég hversu langt aftur í ættir tengdamóðir mín rekur stuðning sinn til Sjálfstæðismanna, en ég veit að henni hefur ekki fundist Jón Gnarr eins skemmtilegur og mér hefur fundist hann.
Í myndinni Bjarnfreðarson fer borgarstjórinn snildarlega með hlutverk Georgs Bjarnfreðarsonar, og kemur meðal annars fyrir í myndbroti kviknakinn. Við það tækifæri hnippti ég í tengdamömmu og spurði hana hvernig henni litist á berrassaðan borgarstjórann. Það hnussaði í þeirri gömlu, og ég er ekki frá því að það hafi verið vandlætingarhnuss.
Það er ljóst að Jón Gnarr verður öðruvísi borgarstjóri en þeir sem á undan honum hafa setið í þessum eftirsótta stól. Eitt er þó ljóst að hann mun vinna að þessu verkefni með heilum hug og leggja sig allan fram við að sinna starfinu af kostgæfni. Hvort honum tekst það leiðir tíminn einn í ljós. Það er þó ljóst að Reykvíkingar hafa kosið sér borgarstjóra úr öðrum ranni en vani er til í höfuðstað lýðveldisins.
Svona virkar nú lýðræðið - áfram Ísland!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)