Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
Konur eru líka menn!
12.8.2010 | 04:12
Við lestur þessa pistils er nauðsynlegt að heyra bara það sem verið er að segja en alls ekki það sem ekki er verið að segja.
Það er alltaf svolítið broslegt þegar maður sér hund eltast við eigið skott.
Það brennur þó við í jafnréttismálum að einstaklingar taki upp þetta broslega hátterni ferfættlingsins.
Ég fylgist verulega vel með fréttum, les daglega helstu netmiðla heima á Fróni á netinu ásamt þeim dönsku, bresku og amerísku. Er ekki nógu vel að mér í öðrum tungumálum til að það gagni að fylgjast með netmiðlum á þeim bæjum. Um daginn heyrði ég svo í fréttatíma á RÚV að rætt var við "talskonu" samtaka sem láta sig varða jafnréttismál.
Þegar ég heyri þetta orð "talskona" kemur mér alltaf í hug besti vinur bónda sem ég starfaði hjá í 3 sumur sem unglingur. Tryggur eyddi nefnilega stórum hluta "frítíma" síns í að eltast við eigið skott.
Ef einstaklingur eða félagasamtök berjast fyrir jafnri stöðu kvenna við karla, hvernig stendur þá á því að sömu aðilar gefa til kynna með orðalagi sínu að þeir líti ekki á konur sem menn??
Konan mín, sem ég elska meira en ég fæ nokkurn tíma sett í orð, er kvenmaður. Það kemur engum á óvart sem hana hafa séð eða hitt. Hún er ekki kvenkona! Konur eru nefnilega líka menn. Á fyrstu síðum Biblíunnar er talað um að Guð hafi skapað MANNINN í sinni mynd, og svo er haldið áfram og sagt að hann hafi "...skapað þau karl og konu..." Karlmaður og kvenmaður!!
Mikið væri nú gott ef allir þeim sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna, viðurkenndu þá einföldu staðreynd að konur eru líka menn og hættu að nota orðskrýpi eins og "talskona". Sú kona sem á einhvern hátt talar fyrir hönd slíkra samtaka er að sjálfsögðu "talsmaður" þeirra.
Orð eru skapandi máttur - þess vegna er svo mikilvægt að velja orðalag sitt vel.
Áfram konur!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Birgir Steinn 20 ára!
10.8.2010 | 05:37
Í dag er litli drengurinn minn 20 ára. Það er með ólíkindum að það séu komnir tveir áratugir síðan við Kata mín fengum fallega drenginn okkar í fangið í fyrsta sinn. Og síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið.
Birgir Steinn hefur verið okkur til mikillar gleði og ánægju frá fyrsta degi. Fyrstu tvö árin í lífi hans var hann reyndar afskaplega rólegur og það varla hreyfðist í honum blóðið. En svo vaknaði hann til lífsins og hefur allar götur síðan þá hreinlega iðað af lífi. Hann er lífsglaður og duglegur við að njóta augnablikanna. Það hefur ekkert þvælst fyrir honum að fara alltaf hefðbundnar leiðir, enda listamaðurinn í honum strerkur og ríkari en svo að auðvelt sé að koma á hann böndum. Enda eiga menn ekki að láta kringumstæður binda sig, það er svo þvingandi. Bakhliðin á þeim pening er reyndar sú að hann er stundum svolítið eins og vindurinn, ekki auðvelt að vita hvaðan hann kemur eða hvert hann er að fara.
Birgir Steinn á afskaplega marga framúrskarandi eiginleika og ég ætla ekki í þessum fáu línum að reyna að gera þeim öllum skil. Það er hins vegar tvennt sem mér finnst standa uppúr, fram yfir gríðargóðar gáfur og listræna hæfileika, og annað þessara atriða er hjartalag Birgis Steins. Hann hefur svo einstaklega blíðan og yndislega anda og þá sem hann elskar elskar hann alla leið. Hitt er trúfesti Birgis Steins, en hann hefur marg sýnt að það sem hann lofar stendur hann við.
Undanfarin vetur hefur verið mjög óvenjulegur fyrir alla fjölskylduna og krafist þess að hver fjölskyldumeðlimur leggi sitt af mörkum. Þar hefur Birgir Steinn farið langt fram úr því sem hægt er að biðja 19 ára mann að gera. Þar hefur framlag hans og hugarfar vakið bæði undrun mína og ómælanlegt stolt.
Ég er afar þakklátur fyrir litla drenginn minn sem er orðin stór. Þakklátur fyrir það hver hann er og hvernig hann hefur með æðruleysi tekist á við alskonar aðstæður og alltaf haft sigur. Þakklátastur er ég þó án efa fyrir það að Birgir Steinn er ekki bara sonur minn, hann er einn af mínum allra nánustu vinum.
Elsku Birgir Steinn, innilega til hamingju með daginn þinn. Ég elska þig og er svo stolltur af þér!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimskur er heimasetinn maður!
3.8.2010 | 11:04
Fyrir 24 árum síðan átti ég skemmtilegt samtal við merkiskonu sem ég átti talsverð samskipti við í mörg ár. Konan hét Sigrid Ásgeirsson, norsk að uppruna, en notaði stærsta hluta lífs síns á Íslandi. Í áraraðir var hún húsvörður í Fíladelfíu krikjunni í Reykjavík. Þar sem ég tók afar virkan þátt í starfi kirkjunnar á þessum árum (og geri enn) lágu leiðir okkar Sigrid verulega oft saman og í lang flestum tilfellum voru það ánægjuleg samskipti. Hún átti það þó til að senda manni tóninn.
Á þessum árum voru báðir stóru bræður mínir við nám á erlendri grundu. Óli las verkfærði í Danmörku og Kiddi las Guðfræði í Kanada. Sigrid hafði áhuga á fólki og þekkti vel til beggja bræðra minna. Þegar við mættumst einu sinni á ganginum fyrir framan húsvarðaríbúðina í Fíladelfíu spurði hún mig hvað væri að frétta af bræðrum mínum og hvað þær væru að aðhafast. Ég sagði henni hvað hvor um sig væri að lesa og hvar. Hún spurði um hæl hvort ég hefði ekki farið neitt utan til náms og hvort það stæði ekki til. Ég neitaði hvoru tveggja enda var ég á þeim tíma alls ekki að hugsa um nám eða að flytja burt frá nafla alheimsins. Svar Sigrid við mínu svari var einfalt og hnitmiðað: "heimskur er heimasetinn maður.
Það er nú ekki hægt að segja með sannfæringu að ég hafi verið mjög uppörvaður eftir þetta samtal við Sigrid Ásgeirsson. En það er heldur ekki hægt að segja að það hafi verið vegna þessara orða hennar að ég fluttist ári seinna búferlum með litlu fjölskylduna mína til Kanada. Ferðinni var heitið í sama skóla og Kiddi var í og ég hóf að lesa "Pastoral Theologi".
Það var verulega lærdómsríkt að dvelja í Kanda, og það reyndist okkur Kötu minni líka dýrmætt að þurfa í jafn ríku mæli og raun bar vitni að treysta á okkur sjálf og hvort annað. Við fórum í gegnum menningarsjokk og erfiða aðlögun hönd í hönd og við erum enn að njóta góðs af þeirri mótun sem við fórum í gegnum á þessum tíma. Við vorum ung og nýgift með litlu Theu bara þriggja mánaða og langt frá heimahögum.
Um aldamótin - síðstu það er að segja - fór að myndast löngun í lífi mínu til að prófa að búa í Danmörk. Við vorum búinn að prófa að búa vestan við Atlantsála en höfðum bara ferðast austur á bóginn. Danmörk hefur alltaf heillað mig mikið og mig langaði veruelga að prófa að búa þar og lesa við einhvern góða háskóla. Í kreppunni miklu heima á Íslandi árið 2008-2009 ákváðum við Kata mín að nota það tækifæri sem myndaðist og flytjast til Danmerkur. Ég fór að lesa við Álaborgarháskóla og Kata fékk vinnu við sitt fag sem félagsráðgjafi hjá Aalborg Kommune.
Það er gríðarleg vinna að flytja í nýtt land og alls ekki átakalaust. Við þurftum að læra nýtt tungumál, læra á nýja menningu, aðlagast nýju þjóðfélagi og spreyta okkur ein - aftur! Við Kata mín höfum í uppveksti barnanna okkar lagt þeim þann arf inn í líf sitt að fjölskyldan stendur saman. Við höfum kennt þeim það sem okkur hefur reynst best, að treysta Guði og að fara í gegnum hlutina hönd í hönd, staðráðin í því að láta ekkert buga okkur. Og það hefur lánast okkur. Fjölskyldan tókst á við þessa áskorun og hafði betur. Samstarf systkininna (barnanna okkar) hefur verið með þvílíkum hætti að hverjum foreldrum væri það verulegur sómi. Það var samt strax við flutningin ákveðið að að ári liðnu yrði staðan skoðuð og út frá líðan okkar þá tekið ákvörðun um hvað gert yrði í framhaldinu.
Undanfarna vikur höfum við síðan vegið og metið og að lokum er komin niðurstaða. Þakklát fyrir þann tíma sem við höfum átt hér í Danmörk, þakklát fyrir þá vini sem Guð hefur blessað okkur með, þakklát fyrir þá reynslu sem dvölin hefur fært okkur, þakklát fyrir tungumálið sem við fengum að læra og þakklát fyrir þann tíma sem kjarnafjölskyldan okkar Kötu (sem fer óðum stækkandi) hefur átt saman síðasta árið er stefnan engu að síður tekin heim til landsins bláa. Elstu börnin okkar tvö verða þó eftir og munu alla vega að sinni búa í ríki Margrétar Þórhildar.
Þegar ég var yngri var ég afar upptekin af því sem öðrum fannst um mig. Í dag fer lítið fyrir þeim þankagangi hjá mér. Ég er þeim mun uppteknari af því sem mér finnst um mig. Það er nefnilega eins og Heiðar vinur minn Guðnason (framkv.stj. Samhjálpar) segir svo oft: "Það breytir mér ekkert hvað öðrum finnst um mig, það breytir mér bara hvað mér finnst um mig". Mér finnst ég hafa nýtt þau tækifæri sem lífið - bæði í meðbyr og mótbyr - hafa fært mér. Mér finnst ég hafa tekist á við verkefnin mín af yfirvegun og gert mitt besta í að klára hvern kafla fyrir sig. Mér finnst ég mun ríkari en annars væri vegna þeirrar reynslu og þroska sem lífið hefur fært mér. Mér finnst ég sem sagt ferlega fínn náungi.
Hvað sem öllum pælingum líður þá er ljóst að ég er ekki lengur heimasetinn maður og kem því ekki heimskur heim!
Áfram Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)