Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Jósúa minn er 17 ára í dag.

Jósúa TheodórssonÍ dag eru sautján ár síðan Jósúa sonur okkar tók sinn fyrsta andadrátt. Hann fæddist snemma að morgni vestur á Ísafirði en þangað hafði fjölskyldan flust aðeins örfáum dögum áður. Meðgangan og fæðingin gengu afar vel, og það gaf tóninn fyrir það sem framundan var.

Jósúa hefur alltaf verið mjög meðfærilegur og skemmtilegur einstaklingur. Hann veit alveg hvað hann vill og hvað hann vill ekki en það eru aldrei, og hafa aldrei verið, nein vandræði með hann. Systkini hans senda honum stundum kaldar kveðjur þegar við rifjum upp ”gamla daga” en það gerum við oft í okkar fjölskyldu. Þá er gjarnan spurt hver var nú þægasta barnið og alltaf er það Jósúa sem fær þau verðalun, hinum til mikilla vonbrigða.

Jósúa er mjög agaður maður sem sést best í því hvernig hann gjörbreytti matar- og lífsstíls venjum sínum alveg uppá eigin spýtur. Hann náði af sér tæpum 30 kílóum á tiltölulega fáum mánuðum og hefur síðan haldið sinni þyngd stöðugri í vel á annað ár eftir að markmiðinu var náð. Hann sýnir líka af sér eindæma aga þegar kemur að skóla og heimanámi, enda er hann framúrskarandi nemandi með topp einkunnir í öllum fögum.

Jósúa hefur verið okkur öllum ómæld blessun og mikill gleðigjafi. Hann er skapgóður, hjálpsamur og góðviljaður. Þegar kemur að vinnu er hann eins og maurarnir, fer ekki með neinu offari en er að eins lengi og þörf krefur. Það er helst ef hann á að vaska upp sem skóinn kreppir, en þá fær hann oft ”magapínu”. Það er reyndar trix sem hann lærði af eldri bróður sínum, Birgi Steini, og það virkaði svo vel hjá honum vegna þess að bjargvættur þeirra systkina, Thea stóra systir, hjólp þá alltaf til og bjargaði ”fárveikum” bróður sínum. Nú býr Jósúa minn við það að Thea býr austan Atlantsála og getur þvi ekki komið honum til hjálpar í þessum ”magaveikindum”.

Jósúa er líka mjög heiðarlegur maður og í hans lífi gildir það sem við höfum alltaf lagt inn í líf barnanna okkar að Já er Já og Nei er Nei. Ef Jósúa á að koma heim fyrir einhvern ákveðin tíma þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því, á mínútinni sem hann á að vera kominn heim skilar hann sér inn fyrir þröskuldinn. Menn uppskera svo eins og þeir sá og Jósúa hefur með framkomu sinni og karakter áunnið sér mikið og gott traust hjá okkur Kötu minni.

Elsku Jósua minn, innilega til hamingju með daginn þinn. Ég er verulega stolltur af þér og þakklátur fyrir að eiga þig bæði sem son og vin!!


Ráðgjafaþjónusta

Allir einstaklingar eru í samskiptum við einhvern eða einhverja allann liðlangann daginn. Við eigum í stöðugum samskiptum við maka okkar, börn okkar, fjölskyldumeðlimi, vini eða vinnufélaga. Oft á tíðum eru síðan okkar mikilvægustu samskipti háð við okkur sjálf, þar sem það skiptir öllu hvernig við tölum um og við okkur sjálf.

Mörgum gengur ljómandi vel á þessu sviði samskipta og lenda ekki í neinum teljandi vandræðum. Ef vandræði knýja dyra þá ná þessir að leysa það sjálfir með viðkomandi aðila.

Öðrum gengur ljómandi illa að eiga samskipti við aðra og svo virðist sem þeim takist ekki að komast klakklaust frá þessu sívirka hlutverki. Þá hafa menn aðeins tvo kosti, að vera í vandræðum og líða illa yfir stöðunni, og í mörgum tilfellum sjá hlutina enda með skelfilegum afleiðingum. Hinn kosturinn er að leita sér aðstoðar og fá hjálp við að koma samskiptum í lag.

Það að lifa í nútímavæddu vestrænu þjóðfélagi getur verið mjög flókið og það koma upp afar mörg og ólík vandamál í lífi hvers einasta manns. Sumir eiga við samskiptaerfiðleika að stríða, sumir lenda í fjárhagsvanda, aðrir glíma við fíknir og svo eru sumir sem einfaldelga lenda á vegg af einhverjum toga og brotna við höggið. Það er heldur ekkert einfalt að eiga maka, takast á við barnauppeldi og oft á tíðum lendir fólk í þeirri stöðu í blindgötu og sárvantar aðstoð út úr vandanum.

Ég hef í mörg ár unnið með fólki. Ég hef meðal annars verið prestur í mörg ár og hef sem slíkur tekið fólk í sálgæslu sem og almenna ráðgjöf um flest sem snertir mannlegt líf. Í gegnum mörg ár hef ég því sankað að mér reynslu sem ekki fæst keypt í verslun og ekki fæst í skóla. Auk þess hef ég líka lesið mér mikið til um fræðin, og stunda nú nám við Háskóla Íslands í félagsráðgjöf. Ég las sömu fræði við Álaborgarháskóla síðastliðin vetur með mjög góðum árangri. Þegar kemur að reynslu í að vera fjölskyldumaður og faðir á ég einnig áratuga farsæla sögu.

Nú hef ég ákveðið að opna mína eigin ráðgjafaþjónustu þar sem ég býð hverjum sem á þarf að halda aðgang að reynslu minni og þekkingu. Ég sel tímann á vægu verði og fólk slær því tvær flugur í einu höggi við að leyta til mín, fær aðstoð við að koma lagi á líf sitt og sparar sér fjármuni á sama tíma. Ég verð til húsa í hjá vinum mínum í CTF í Reykjavík (Háteigsvegi 7) og stundaskráin mín í HÍ gefur mér færi á að bjóða tíma jafnt eftir hádegi sem fyrir hádegi.

Það er hægt að panta tíma með því að senda mér t-póst á tb.radgjof@gmail.com eða í síma 858-1795.

Taktu ákvörðun í dag um að lifa það sem eftir er lífsins hamingjusamur og í jafnvægi. Ef þú þarft hjálp við það, hafðu þá samband og leyfðu mér að aðstoða þig.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband