Færsluflokkur: Bloggar
Afmæli og ættarmót
10.1.2009 | 13:14
Það er ekki ofsögum sagt að við fjölskyldan erum umvafinn skemmtilegum uppákomum og samkvæmum. Í dag er það bæði ættarmót í legg Kötu minnar og síðan er 20 ára afmæli hjá Hrund frænku okkar og vinkonu. Dagurinn mun því einkennast af yndislegu samfélagi við fólk sem við elskum. Ættin hennar Kötu er reyndar gríðarlega stór þannig að þar munum við eflaust líka hitta fólk sem við þekkjum ekki neitt og þar með skapast mikil og dýrmæt tækifæri til að eignast nýja vini.
Ég lenti í óvenjulegum hrakningum í gær þar sem ég keyrði gamla góða Volvoinn minn um götur höfuðstaðarins. Þegar ég ók Grensásveg til suðurs og tók stefnuna á Miklubraut til austurs neitaði sá sænski öllu samstarfi við mig. Tók hann öll völd í sínar hendur og drap á sér á miðjum gatnamótum. Og það klukkan 15:10 á föstudegi. Spennandi! Þessi ákvörðun sænska eðalvagnsins gaf mörgum vegfarendum tækifæri til að kanna hvort lúðrar þeirra eigin vagna væru í lagi. Og í afar mörgum tilfellum virkuðu flautur samferðamannanna óaðfinnanlega. Mér datt í hug sagan sem sögð er af Halldóri Laxness þar sem hann sat í bíl sínum sem hafði einnig drepið á sér á gatnamótum. Sá sem var fyrir aftan hann lá á flautunni í langan tíma. Eftir nokkuð basl við að koma tækinu í gang steig skáldið út úr vagni sínum og gekk að bílnum fyrir aftan sig og sagði kurrteitislega: "Fyrirgefðu herra minn. Ég kann ekki mikið á bíla. Ef þú vildir vera svo elskulegur að hjálpa mér að koma bílnum í gang skal ég taka að mér að liggja á flautunni fyrir þig á meðan......"
Ég reyndi að hringja í góða vini sem ég vissi að myndu hjálpa mér að koma tækinu - og mér - á öruggari stað en náði ekki í neinn enda háanna tími. Nú voru góða ráð dýr og tíminn vann ekki með mér. Það endaði með því að ég hringdi í Vöku og á þeirra vegum kom afar elskulegur og hjálpsamur maður sem dró bílinn á verkstæði fyrir mig.
Halldór Laxness þekki ég ekki neitt en Halldór Lárusson - prestur í Mozaik - er náinn og góður vinur minn. Hann sótti mig á verkstæðið og þegar ég bað hann að skutla mér í veg fyrir rútuna austur tók hann það ekki í mál. Sagði mér að þau hjónin þyrftu ekki tvo bíla yfir helgina og keyrði því næst sjálfan sig heim og sagði mér að taka bílinn sinn og nota eins og ég þyrfti. Svona eiga vinir að vera
Njótið lífsins vinir mínir og allra þeirra tækifæra sem lífið býður uppá!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heigulsskapur
7.1.2009 | 17:01
Hverslags heigulsskapur er það að mótmæla með með grímur sem fela andlit manns?
Mér finnst sjálfsagt að menn komi sinni skoðun á framfæri en ef það er gert á opinberum vettvangi þá þurfa menn líka að þora að gera það undir eigin nafni (andliti). Þessi aðferð mótmæla er að mínu mati skrípaleikur sem skilar engu nema aukinni mótstóðu við mótmælendur. Það er varla tilgangur mótmælanna.
Elín borin út úr bankanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Góður dagur að baki.
6.1.2009 | 21:37
Þessi síðasti dagur jóla hefur verið mér góður eins og flestir daga. Það eina sem skyggir á daginn er ekki einu sinni skuggi í raun og veru. Fjölskyldan er ekki bara að kveðja jólin í dag, við sjáum líka með söknuði á eftir Birgir Steini sem snéri aftur til Kaliforníu eftir afar vel heppnað jólaleyfi hér heima. Við Kata mín sátum langt fram á nótt með Theu okkar (20 ára) og Birgir Steini (18 ára) og spjölluðum um heima og geima. Það er svo yndislegt að eiga vináttu barnanna sinna og njóta samfélags við þau! Birgir Steinn flaug til Boston núna síðdegis og gistir þar í nótt. Á morgun fer hann svo áfram til San Fransisco þangað sem Gísli Hrafn vinur hann ætlar að sækja hann. Hann verður ekki kominn á áfangastað í Redding fyrr en undir morgun á fimmtudag að okkar tíma. Þetta er sannarlega langt ferðalag og ekki laust við að pabbi hans sé nett stressaður yfir þessu langa ferðalagi sonarins. En ég veit að hann er ekki einn þar sem Guð gætir hans í hverju spori.
Annars var kvöldið notalegt. Vinir okkar Guðbjartur og Sigga Helga borðuðu með okkur og að því loknu skaut Guðbjartur upp nokkrum kílóum af fratköttum við mikinn fögnuð unga fólksins og þar með kvöddum við jólin að þessu sinni. Jólaleyfið var okkur öllum hér á sveitasetrinu afar ánægjulegt sem helgast ekki síst af því að við fengum að vera öll saman. Það er dýrmætara en orð fá nokkurn tíma lýst.
Njótið lífsins vinir - það er Guðs gjöf til okkar allra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég elska að vera til!
3.1.2009 | 10:30
Það er ekki ofsögum sagt að ég er lífsglaður maður sem nýt þess að vera til. Laugardagsmorgnar finnst mér til dæmis yndislegir. Að fá að sofa út, vakna svo þegar langt er liðið á morguninn og hafa ekkert ákveðið að gera annað en njóta þess að vera til. Þvílíkur lúxus.
Við nutum þess að fá góða gesti í gærkvöldi en Halldór og Arný voru hjá okkur og við "brain storm -uðum" næstu skref fyrir Mozaik. Það er alltaf gaman að eiga samfélag við þau heiðurshjónin. Að auki renndi hér við á sveitasetrinu Ingólfur vinur okkar Harðarson en hann þurfti að reka erindi á Selfossi og fer að sjálfsögðu ekki um sýsluna án þess að koma hér við og fá sér kaffisopa. Kvöldið var yndislegt og við vorum enn einu sinni minnt á það hversu dýrmætt það er að eiga góða vini.
Dagurinn í dag býður líka upp á spennandi atburði eins og flestir dagar. Fyrst og fremst er ég ákveðin í því að njóta dagsins og fá sem mest út úr honum. Benjamin Disarelli - fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands - sagði eitt sinn :"Lífið er of stutt til að vera að eltast við smámuni".Ég ætla því í dag eins og aðra daga að lifa eftir eigin mottói og einblína á það sem er jákvætt og uppbyggjandi og breiða yfir þá bresti sem hugsanlega mæta mér í dag. Það er óbrigðul leið til að njóta hvers dags.
Guð gefi ykkur öllum góðan dag!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gleðilegt ár!
1.1.2009 | 11:45
Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs með þakklæti fyrir samfylgdina á því liðna. Hér á sveitasetrinu fögnuðu við áramótum með Kidda bróður mínum og Ásta mágkonu ásamt þeirra drengjum. Einnig voru þeir frændur mínir Eyþór og Karl hjá okkur og hjálpuðu til við að tendra fratkettina sem biðu þess að fá að ýmist fljúga, gjósa eða springa. Allt gekk þetta vel og enginn hlaut meiðsli af. Guði sé lof! Myndir af hátíðarhöldunum er að finna hér á spásíðunni.
Árið sem við kvöddum í gær reyndist okkur hjónunum afburðar gott ár með nokkrum djúpum sveiflum. Djúpu sveiflurnar tókum við með landsmönnum öllum og og snúa að efnahagsmálum. Okkur mætti í kjölfar bankahrunsins ágætis skammtur af úrvinnsluefnum, sumu er þegar búið að vinna úr en annað bíður lausnar. Það sem gerði árið hins vegar af einu af okkar bestu árum er að frumburðurinn okkar, Thea (20 ára) fæddi lítinn gullmola í júlí og ég varð því í sumar - barnungur maðurinn - AFI. Og þvílík forréttindi! Það er ekki laust við að ég sé rígmontinn af litla nafna mínum enda full ástæða til. Thea mín hefur það beint frá mömmu sinni að vera fyrirmyndar móðir og hún stendur sig afar vel í því hlutverki eins og öllu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur. Þannig má segja að öll okkar raunverulegu veðmæti uxu á síðasta ári. Birgir Steinn (18 ára) blómstrar í náminu sínu í Kaliforníu og er á mjög góðu róli, Jósúa (15 ára) stendur sig afar vel í skólanum og hefur þar að auki unnið trúfastlega í Bónus með skólanum undanfarin 2 ár. Elín Rut (11 ára) unir hag sínum mjög vel og stendur sig mjög vel bæði í skólanum og í fimleikum sem hún æfir af kappi. Krakkarnir okkar eru sem sagt öll í mjög góðum málum með líf sitt í góðu jafnvægi. Og við hjónin sem fögnum 22 ára brúðkaupsafmæli í þessum mánuði eru ennþá eftir öll þessi ár yfir okkur ástfangin hvort af öðru. Sem sagt - Að baki er enn eitt afburðar ár hjá okkur!
Framundan er svo nýja árið með öll sín tækifæri og spennandi verkefni. Ég byrja árið á breytingum í vinnumálum sem ég segi ykkur betur frá á næstu dögum. Árið leggst vel í mig og ég hlakka til að takast á við allt það sem árið ber í skauti sér.
Njótið þessa góða dags - hann er Guðs gjöf til okkar allra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nú er mér nóg boðið!
31.12.2008 | 15:41
Fólk slasað eftir mótmæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þakkir
27.12.2008 | 08:48
Ég fyllti árið í gær í 41. skiptið. Mér fannst það svolítið ótrúlegt þegar ég vaknaði og hugleiddi það í svefnrofanum að ég væri virkilega kominn á fimmtugsaldurinn. Þegar Thea dóttir mín kom svo inní herbergið okkar og lagði afstrákinn í rúmmið á milli okkar Kötu minnar þá fannst mér það ekki lengur neitt ótrúlegt að vera farinn að eldast. Það er ekki óeðlilegt að afar séu á fimmtugsaldri.
Dagurinn í gær var mér afar ljúfur og góður. Kata mín dekraði við mig eins og hina 364 daga ársins og mér bárust margir tugir afmæliskveðja víðs vegar að úr heiminum. Ég hélt ekki uppá afmælið mitt með þeim hætti sem ég hef gert í gegnum árin. Þess í stað bauð ég hingað heim á sveitasetrið okkar foreldrum mínum og systkinum í súkkulaði með rjóma og smákökur með. Það var því fámennara en venjulega hjá okkur á þessu kvöldi annars jóladag en afar ljúft og ánægjulegt. Mér bárust líka fjöldi gjafa og mig langar að deila einni þeirra með ykkur. Það er þannig með unga menn á mínum aldri að það er ekki hægt að segja að það sé neitt sem manni vantar í afmælisgjöf, þó að gjafir gleðji að sjálfsögðu alltaf. Elín Rut dóttir mín (11 ára) hafði af því talsverðar áhyggjur hvað hún ætti að gefa mér í afmælisgjöf. Ég sagði henni að mig myndi mest af öllu langa í vísu sem hún semdi sjálf til mín. Og það gerði sú stutta og færði mér innrammaða og áletraða. Vísan bræddi hjarta mitt á augabragði enda kaupa engir penignar gjöf sem þessa. Ég læt vísuna fljóta hér með:
Elsku besti pabbi minn
mikið þykir mér vænt um þig
besti pabbi minn.
Þú ert svo fyndin
ert svo blíður
Þú ert svo frábær
Það er ekki til
eins betri pabbi en þú
Skiljð þið núna af hverju ég táraðist þegar ég las þessar línur?
Elsku vinir - hjartans þakkir fyrir allar árnaðaróskir og afmæliskveðjur sem þið senduð mér í gær!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nokkrar myndir
25.12.2008 | 21:21
Ég setti inn nokkrar myndir af jólahaldinu í myndamálbúmin hér á hægri spássíðu. Þeir sem hafa gaman af að kíkja í heimsókn þangað er það velkomið. Þeir sem engan áhuga hafa þá því ættu að skella sér í góðan göngutúr til að fá ferskt loft í lungun. Ég ætla sjálfur að halda áfram að hjálpa hinum sænska lögreglumanni Kurt Wallander að leysa flókna morðgátu í bókinni "Á villigötum" eftir Henning Menkell.
Njótið kvöldsins vinir - þetta kvöld kemur aldrei aftur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jóladagur
25.12.2008 | 13:31
Ég svaf út í morgun enda er það góðra manna siður að sofa fram eftir á jóladagsmorgni. Það sem vakti fyrst athyggli mína í svefnrofanum var að heyra tengdamömmu spjalla við Jósúa son minn (15 ára). Ég var svo undrandi á að hann væri vaknaður svona snemma. Ég teygði mig í Armani arbandsúrið mitt og ekki minkaði undrun mín við það. Ég sá mér til furðu að klukkan var að verða 10 og hreint út sagt vissi ekki mitt rjúkandi ráð. Klukkan bara 10 að morgni og Jósúa kominn á fætur á frídegi. Þegar ég kom fram fékk ég skýringu á stöðunni: Jósúa minn var ekki ennþá sofnaður! Hann sem sagt vann "pissukeppnina" um hver gat vakað lengst. Hann var reyndar eini keppandinn
Dagsrkáin í dag er einföld: AÐ NJÓTA ÞESS AÐ VERA TIL OG BORÐA MIKIÐ AF GÓÐUM MAT!
Við á sveitasetrinu sendum ykkur öllum okkar bestu kveðjur og vonum að þið njótið þessa góða dags.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Aðfangadagur jóla
24.12.2008 | 11:35
Töfrar þessa dags hafa heillað mig frá því að ég man eftir mér!
Eftir að við Kata mín fórum að halda jólin saman fyrir rúmmum tveimur áratugum höfum við skapað okkar eigin hefðir sem við erum reyndar enn að bæta við. Hjá okkur líkur öllum undirbúningi á Þorláksmessu, nema því sem snýr að matseld. Aðfangadagur er því sæludagur fjölskyldunnar þar sem krakkarnir okkar (sem eru reyndar öll nema eitt orðin fullorðin) sofa út á meðan við hjónin- og tengdamamma - sitjum í eldhúskróknum og spjöllum um heima og geima. Þegar ungarnir vakna bíður þeirra hvers fyrir sig innpakkaður jólapakki í gluggakistunni frá jólasveininum og þar með er hátíðin hafin. Um hádegið fáum við okkur síðan hrísgrjónabúðing ala Teddi og einn heppinn fjölskyldumeðlimur fær möndlu í búðinginn sinn. Sá hinn sami fær möndlugjöfina sem undantekningarlítið er fjölskylduspil sem allir njóta síðan góðs af. Þegar degi fer að halla förum við síðan til kirkju áður en við setjumst að veisluborðinu.
Í kvöld verðum við með tvíréttað; Svína hamborgarhrygg og lambalæri. Hvorutveggja eldað og framreitt með ást og kærleika. Í Eftirrétt er síðan ananas frómans sem Kata mín útbýr eftir uppskrift frá mömmu minni. Þessi frómans er svo góður að það er ekki hægt að nálgast neinar lýsingar á honum með fátæklegum orðum. Ofan á þetta allt saman leggst síðan konfekt í kílóavís sem fjölskyldan leggur sig fram við að reyna að klára. Kata er reyndar svo dugleg við að fylla á að stundum eiga krakkarnir í fullu fangi við að hafa undan. En þá kem ég til hjálpar
Þegar öllu þessu er lokið setjusmt við síðan í stofuna, lesum jólaguðspjallið saman, þökkum Guði fyrir allar hans góðu gjafir, þökkum honum fyrir að við fáum öll að vera saman og að við skulum njóta þess að búa í friði, kærleika og vináttu við hvert annað. Síðan er farið í að taka upp pakkana sem getur hæglega reynst talsverð vinna með tilheyrandi eftirvæntingu og gleði. Þegar öllu þessu er lokið setjumst við hjónin síðan yfir jólakortin og tárumst yfir öllum þeim sem hugsuðu til okkar þessi jólin. Jólakortalestrinum fylgir reyndar talsvert samviskubit yfir að hafa enn ein jólin slept því að senda jólakort sjálf og því fylgir yfirveguð ákvörðun að fyrir næstu jól breytum við þessu...
Með öðrum orðum: YNDISLEGUR DAGUR Í FAÐMI FJÖLSKYLDUNNAR!
Kæri vinir - við Kata mín sendum ykkur öllum okkar bestu óskir um gleðileg jól!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)