Sumardagurinn fyrsti.
30.6.2010 | 07:44
Þegar maður flytur í nýtt land er svo margt sem maður þarf að læra. Við höfum núna búið hér í Danmörk í rétt tæpt ár og þó að við séum búin að læra umtalsvert er enn meira ólært. Ég hef áður skrifað um að eitt af því sem ég sakna mest að heiman er að búa í þjóðfélagi sem ég þekki ekki. Slíkt uppgötvar maður fyrst þegar á það reynir.
Þetta tæpa ár sem ég hef verið hér, hefur verið gott veður uppá hvern einasta dag. Reyndar hefur veðrið verið óvanalegt að sögn heima manna. Við fengum til dæmis kaldasta og erfiðasta vetur sem verið hefur hér (alla vega við Limfjorden) í 20 ár, kaldasta maí mánuð í 30 ár og júní hefur að sögn danskra verið afleiddur. Mér hefur hins vegar fundist veðrið stórgott allan þennan tíma.
Og þá komum við að því sem maður er alltaf að læra; SKILGREININGAR!!!
Danir skilgreina veður nefnilega talsvert ólíkt ok0kur Frónverjum. Í vetur kom til dæmis hver snjóstormurinn á fætur öðrum, en við sáum aldrei stormana og vissum því sjaldnast af þeim nema þá af afspurn og vegna umtalsverðrar umkvörtunnar okkar samferðafólks. Ég fór því í vetur á stúfana og rannsakaði aðeins veðurskilgreiningar danskra frænda okkar. Ef vindur fer uppí 10 m/s og á sama tíma falla snjókorn til jarðar, þá er snjóstormur!! Og þá nánast lokast bærinn, skólum er aflýst og börnin send heim, strætó og leigbílar hætta að keya og það verður bara uppi fótur og fit. Með þessum orðum er ég alls ekki að gera lítið úr dönskum vinum mínum - enda líkar mér stórvel við dani - en þetta er bara talsvert framandi íslenskum manni sem búið hefur bæði á Ísafirði og Akureyri.
Þessu er eins farið með sólina og hitann. Í ríki Margrétar Þórhildar telst það ekki til sumardags ef opinberar hitamælingar eru undir 25 gráðum kenndar við sænska eðlisfræðingin Anders Celcius. Í fyrradag var sem sagt sumardagurinn fyrsti - í veðurfræðilegum skilningi - hér í hinni gróðursælu og fallegu Álaborg. Í dag er hins vegar "leiðinda veður", 17 sænskar gráður og léttskýað....
Ég ætla samt að njóta dagsins og lífsins sem er yndisleg Guðs gjöf!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.