Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Fáránleg hegðun

Mér finnst hegðun ákveðinna mótmælenda algjörlega fáránleg og fullkomlega óábyrg. Hvað á það að þýða að kveikja elda í miðborginni, brjóta rúður á Alþingi og hindra réttkjörna fulltrúa þjóðarinnar í að sinna störfum sínum. Þessi framkoma er óásættanleg, og með sama móti og þjóðin krefst þess að þingheimur og ríkisstjórnin axli ábyrgð ætla ég að vona að þeir sem skemmi almannaeigur og skapa almenningi hættu með framkomu sinni verðir dregnir til ábyrgðar!
mbl.is „Þið eruð öll rekin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ég ætti....

Ef ég ætti egg, þá fengi ég mér egg og beikon ef ég ætti beikon....

Reynið að toppa þennan Wink


Nafni minn 6 mánaða í dag

Theodór ísak Í dag eru 6 mánuðir síðan ég fékk nafnbótina AFI. Tíminn er sannarlega fljótur að líða. Það er helst til frásagnar að við höfum báðir nafnarnir notið þess í botn að eiga hvorn annanWink  Ég er alltaf jafn heillaður af litla krílinu og finnst hann algjört æði. Hann er alltaf svo glaður og kátur...nema þegar hann er svangur. Við eigum sem sagt meira sameiginlegt en nafnið... Thea mín er líka að blómstra í sinu nýja hlutverki sem móðir og við Kata mín erum svo þakklát fyrir að fá að hafa þau heima hjá okkur. 

Það er eins með okkur Kötu og aðra að hin einu sönnu verðmæti sem við eigum eru börnin okkar. Það er því gleðilegra en nokkur orð fá lýst að sjá öll börnin sín blómstra og njóta þess að vera til. Fyrir það er ég Guði afar þakklátur.  Slíkt er ekki sjálfgefið!

Það má því með sanni segja að lífið leiki við mig! 


Samkoma í dag

Mikið er innilega gott að komast heim eftir ferðalög. Ferðin vestur gekk vel og það fór ágætlega um mig á hótelinu í Hólminum - en það er ekkert eins gott og að vera heima! Kata mín beið eftir mér í gærkvöldi með góðan mat eins og henni var líkt. Við áttum svo notalega kvöldstund fjölskyldan með ropvatn og popp og horfðum á bíómynd. Myndin var ekkert sérstök enda finnst mér kvikmyndagerð vera frekar slappa núorðið og fáar myndir sem grípa mig. Kannski hafa myndirnar ekkert breyst, ef til vill er það bara ég sem hef breyst. En það var samt yndislegt að sitja með fólkinu sínu og njóta samfélagsins. 

 Í dag er stefnan sett á kirkju eins og alla sunnudaga. Samkoman okkar í Mozaik byrjar kl. 14:00 og þar er alltaf  mikið fjör. Vinur minn Halldór Lárusson er að predika í dag og það er enginn svikinn af hans kennslu.

Njótið lífsins vinir - það er of stutt til að eyða því í vonbrigði og víl. 


Ferðalag og fundarhöld

Það hefur löngum verið um mig sagt að ég sé fundvís maður. Ekki þó í þeim skilningi að ég finni auðveldlega það sem er týnd. Með fundvísi minni er vísað til þess hversu marga og mismundandi fundi ég þarf að sitja. Einn langur fundur er framundan á morgun og er hann vestur á Stykkishólmi. Þar munu prestar Hvítasunnukirkjunnar hittast um helgina og funda stíft. Ég fer með þeim vinum mínum Heiðari í Samhjálp og Halldór í Mozaik í Ameríska lúxusjeppanum hans Heiðars. Ég bauð þeim Volvoinn minn en þeim leist ekki vel á það, samt er hann kominn úr viðgerð. Heiðar talaði um þann sænska sem aflóga dós en ég minnti hann á að ég er bara svo líkur Jesú. Hann reið ekki á glæstum fola inn í Jerúsalem forðum heldur fékk sér far með asna, og ég geri eins og hann. Ekki það að ég hafi fengið far með asna, heldur er ég á einföldu og ódýru farartæki! Reyndar er ég dauðfeginn að fá far í bílnum hans Heiðars enda bílinn mjög þægilegur og Heiðar þaulvanur keyrari. 

Njótið lífsins vinir - það er gjöf frá Guði. 


Afmæli og ættarmót

Það er ekki ofsögum sagt að við fjölskyldan erum umvafinn skemmtilegum uppákomum og samkvæmum. Í dag er það bæði ættarmót í legg Kötu minnar og síðan er 20 ára afmæli hjá Hrund frænku okkar og vinkonu. Dagurinn mun því einkennast af yndislegu samfélagi við fólk sem við elskum. Ættin hennar Kötu er reyndar gríðarlega stór þannig að þar munum við eflaust líka hitta fólk sem við þekkjum ekki neitt og þar með skapast mikil og dýrmæt tækifæri til að eignast nýja vini.

Ég lenti í óvenjulegum hrakningum í gær þar sem ég keyrði gamla góða Volvoinn minn um götur höfuðstaðarins. Þegar ég ók Grensásveg til suðurs og tók stefnuna á Miklubraut til austurs neitaði sá sænski öllu samstarfi við mig. Tók hann öll völd í sínar hendur og drap á sér á miðjum gatnamótum. Og það klukkan 15:10 á föstudegi. Spennandi! Þessi ákvörðun sænska eðalvagnsins gaf mörgum vegfarendum tækifæri til að kanna hvort lúðrar þeirra eigin vagna væru í lagi. Og í afar mörgum tilfellum virkuðu flautur samferðamannanna óaðfinnanlega. Mér datt í hug sagan sem sögð er af Halldóri Laxness þar sem hann sat í bíl sínum sem hafði einnig drepið á sér á gatnamótum. Sá sem var fyrir aftan hann lá á flautunni í langan tíma. Eftir nokkuð basl við að koma tækinu í gang steig skáldið út úr vagni sínum og gekk að bílnum fyrir aftan sig og sagði kurrteitislega: "Fyrirgefðu herra minn. Ég kann ekki mikið á bíla. Ef þú vildir vera svo elskulegur að hjálpa mér að koma bílnum í gang skal ég taka að mér að liggja á flautunni fyrir þig á meðan......" 

Ég reyndi að hringja í góða vini sem ég vissi að myndu hjálpa mér að koma tækinu - og mér - á öruggari stað en náði ekki í neinn enda háanna tími.  Nú voru góða ráð dýr og  tíminn vann ekki með mér. Það endaði með því að ég hringdi í  Vöku og á þeirra vegum kom afar elskulegur og hjálpsamur maður sem dró bílinn á verkstæði fyrir mig. 

Halldór Laxness þekki ég ekki neitt en Halldór Lárusson - prestur í Mozaik - er náinn og góður vinur minn. Hann sótti mig á verkstæðið og þegar ég bað hann að skutla mér í veg fyrir rútuna austur tók hann það ekki í mál. Sagði mér að þau hjónin þyrftu ekki tvo bíla yfir helgina og keyrði því næst sjálfan sig heim og sagði mér að taka bílinn sinn og nota eins og ég þyrfti. Svona eiga vinir að vera Wink

Njótið lífsins vinir mínir og allra þeirra tækifæra sem lífið býður uppá! 


Heigulsskapur

Hverslags heigulsskapur er það að mótmæla með með grímur sem fela andlit manns?

Mér finnst sjálfsagt að menn komi sinni skoðun á framfæri en ef það er gert á opinberum vettvangi þá þurfa menn líka að þora að gera það undir eigin nafni (andliti). Þessi aðferð mótmæla er að mínu mati skrípaleikur sem skilar engu nema aukinni mótstóðu við mótmælendur. Það er varla tilgangur mótmælanna.


mbl.is Elín borin út úr bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður dagur að baki.

Birgir Steinn og Theodór ÍsakÞessi síðasti dagur jóla hefur verið mér góður eins og flestir daga. Það eina sem skyggir á daginn er ekki einu sinni skuggi í raun og veru. Fjölskyldan er ekki bara að kveðja jólin í dag, við sjáum líka með söknuði á eftir Birgir Steini sem snéri aftur til Kaliforníu eftir afar vel heppnað jólaleyfi hér heima. Við Kata mín sátum langt fram á nótt með Theu okkar (20 ára) og Birgir Steini (18 ára) og spjölluðum um heima og geima. Það er svo yndislegt að eiga vináttu barnanna sinna og njóta samfélags við þau! Birgir Steinn flaug til Boston núna síðdegis og gistir þar í nótt. Á morgun fer hann svo áfram til San Fransisco þangað sem Gísli Hrafn vinur hann ætlar að sækja hann. Hann verður ekki kominn á áfangastað í Redding fyrr en undir morgun á fimmtudag að okkar tíma. Þetta er sannarlega langt ferðalag og ekki laust við að pabbi hans sé nett stressaður yfir þessu langa ferðalagi sonarins. En ég veit að hann er ekki einn þar sem Guð gætir hans í hverju spori. 

Annars var kvöldið notalegt. Vinir okkar Guðbjartur og Sigga Helga borðuðu með okkur og að því loknu skaut Guðbjartur upp nokkrum kílóum af fratköttum við mikinn fögnuð unga fólksins og þar með kvöddum við jólin að þessu sinni. Jólaleyfið var okkur öllum hér á sveitasetrinu afar ánægjulegt sem helgast ekki síst af því að við fengum að vera öll saman. Það er dýrmætara en orð fá nokkurn tíma lýst. 

Njótið lífsins vinir - það er Guðs gjöf til okkar allra. 


Ég elska að vera til!

Það er ekki ofsögum sagt að ég er lífsglaður maður sem nýt þess að vera til. Laugardagsmorgnar finnst mér til dæmis yndislegir.  Að fá að sofa út, vakna svo þegar langt er liðið á morguninn og hafa ekkert ákveðið að gera annað en njóta þess að vera til. Þvílíkur lúxus.

Við nutum þess að fá góða gesti í gærkvöldi en Halldór og Arný voru hjá okkur og við "brain storm -uðum"  næstu skref fyrir Mozaik. Það er alltaf  gaman að eiga samfélag við þau heiðurshjónin. Að auki renndi hér við á sveitasetrinu Ingólfur vinur okkar Harðarson en hann þurfti að reka erindi á Selfossi og fer að sjálfsögðu ekki um sýsluna án þess að koma hér við og fá sér kaffisopa. Kvöldið var yndislegt og við vorum enn einu sinni minnt á það hversu dýrmætt það er að eiga góða vini. 

Dagurinn í dag býður líka upp á spennandi atburði eins og flestir dagar. Fyrst og fremst er ég ákveðin í því að njóta dagsins og fá sem mest út úr honum. Benjamin Disarelli - fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands - sagði eitt sinn :"Lífið er of stutt til að vera að eltast við smámuni".Ég ætla því í dag eins og aðra daga að lifa eftir eigin mottói og einblína á það sem er jákvætt og uppbyggjandi og breiða yfir þá bresti sem hugsanlega mæta mér í dag. Það er óbrigðul leið til að njóta hvers dags. 

Guð gefi ykkur öllum góðan dag!


Gleðilegt ár!

Elín Rut lætur ljós sitt skínaÉg óska ykkur öllum gleðilegs árs með þakklæti fyrir samfylgdina á því liðna. Hér á sveitasetrinu fögnuðu við áramótum með Kidda bróður mínum og Ásta mágkonu ásamt þeirra drengjum. Einnig voru þeir frændur mínir Eyþór og Karl hjá okkur og hjálpuðu til við að tendra fratkettina sem biðu þess að fá að ýmist fljúga, gjósa eða springa. Allt gekk þetta vel og enginn hlaut meiðsli af.  Guði sé lof! Myndir af hátíðarhöldunum er að finna hér á spásíðunni. 

Árið sem við kvöddum í gær reyndist okkur hjónunum afburðar gott ár með nokkrum djúpum sveiflum. Djúpu sveiflurnar tókum við með landsmönnum öllum og og snúa að efnahagsmálum. Okkur mætti í kjölfar bankahrunsins ágætis skammtur af úrvinnsluefnum, sumu er þegar búið að vinna úr en annað bíður lausnar. Það sem gerði árið hins vegar af einu af okkar bestu árum er að frumburðurinn okkar, Thea (20 ára)  fæddi lítinn gullmola í júlí og ég varð því í sumar - barnungur maðurinn - AFI. Og þvílík forréttindi! Það er ekki laust við að ég sé rígmontinn af litla nafna mínum enda full ástæða til. Thea mín  hefur það beint frá mömmu sinni að vera fyrirmyndar móðir og hún stendur sig afar vel í því hlutverki eins og öllu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur.  Þannig má segja að öll okkar raunverulegu veðmæti uxu á síðasta ári. Birgir Steinn (18 ára) blómstrar í náminu sínu í Kaliforníu og er á mjög góðu róli, Jósúa (15 ára) stendur sig afar vel í skólanum og hefur þar að auki unnið trúfastlega í Bónus með skólanum undanfarin 2 ár. Elín Rut (11 ára) unir hag sínum mjög vel og stendur sig mjög vel bæði í skólanum og í fimleikum sem hún æfir af kappi. Krakkarnir okkar eru sem sagt öll í mjög góðum málum með líf sitt í góðu jafnvægi. Og við hjónin sem fögnum 22 ára brúðkaupsafmæli í þessum mánuði eru ennþá eftir öll þessi ár yfir okkur ástfangin hvort af öðru. Sem sagt - Að baki er enn eitt afburðar ár hjá okkur! 

Framundan er svo nýja árið með öll sín tækifæri og spennandi verkefni. Ég byrja árið á breytingum í vinnumálum sem ég segi ykkur betur frá á næstu dögum. Árið leggst vel í mig og ég hlakka til að takast á við allt það sem árið ber í skauti sér. 

Njótið þessa góða dags - hann er Guðs gjöf til okkar allra. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband