Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
Að gæta tignar sinnar.
30.3.2010 | 07:02
Mér hefur hlotnast ómetanlegur arfur. Þau auðævi verða aldrei mæld í krónum og aurum, heldur er um að ræða þekkingu og visku sem gengið hafa mann frá manni.
Ég bjó svo vel að eiga tvær yndislegar ömmur sem reyndust mér báða afburðarvel. Það var alveg sama hvort maður kom til Siggu ömmu eða Stínu ömmu, alltaf var manni tekið með þeim hætti að mér fannst ég mikilvægasti maður í heimi. Aldrei var látið í það vaka að ég kæmi á slæmum tíma eða illa stæði á. Og báðar áttu það sameiginlegt að úða í mig veitingum í afar ríku mæli. Sigga amma átti það til um miðjan dag að steikja handa okkur Kidda bróðir kótilettur, því eitthvað yrðum við að borða greyin.
Það besta sem ég fékk frá þeim var samt saman söfnuð þekking tveggja kvenna með djúpa lífsreynslu. Stína amma kenndi mér meðal annars að "gæta tignar minnar". Hún sagði að við værum of vönduð til að leyfa okkur að segja allt sem okkur dytti í hug. Við þyrftum í öllum tilfellum að gæta þess að orð okkar byggðu upp en brytu ekki niður. Síðan vitanði hún í heilaga ritningu sem kennir okkar að "dauði og líf er á tungunnar valdi". Aftur og aftur hef á lífsgöngu mína farið í minningarbankann og sótt visku til þeirra orða sem ömmur mínar hafa talað inní líf mitt.
Undanfarin misseri hef ég hugsað mikið til orðanna hennar ömmu um að gæta tignar minnar. Mér hefur svo oft misboðið fullkomnlega hvernig farið er með fólk heima á Íslandi og hvernig fjármálastofnanir hafa á grófann hátt mismunað fólki. Á meðan útvaldir fá afskrifðar þúsundir milljóna er almenningur hengdur í hæsta gálga. Og nú þarf ég að gæta tignar minnar áður en ég segi eitthvað sem ég sé svo eftir seinna. Það er kannski ekki úr vegi í þeim hugrenningum að minna sig á að í bankakerfinu sjálfu vinnur afar mikið af harðduglegu og strangheiðarlegu fólki sem enga ábyrgð ber á því sem misfarist hefur. Þar er ég ekki síst með í huga mína fyrrum vinnufélaga í útibúi 313 hjá Arionbanka. Úrvalsfólk, allt frá útbibússtjóra til ræstitæknisins! Þar var ég sem fulltrúi KB ráðgjafar - einu af betri fyrirtækjum landsins - í rúmlega 4 ár og kunni verulega vel við mig.
Sjálfur er ég orðin afi og geri mér svo ríka grein fyrir þvi að bæði börnin min og síðan barnabörn munu á einhverjum tímapunkti hugsa til baka og rifja upp það sem ég hef lagt inní líf þeirra. Ég hef fyrir löngu síðan ákveðið að þær minningar verði góðar og það sem ég legg inní líf þeirra veri þeim til framdráttar. Mig langar mjög að þeirra minning verði að ég hafi kennt þeim að gæta tignar sinnar.
Njótið dagsins elsku vinir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hamingja!
27.3.2010 | 10:28
Allir menn eiga það sameiginlegt að langa til að vera hamingjusamir. Hamingja er líka afar eftirsóknarverð. Það sem færri gera sér grein fyrir er að hamingja er ekki ákvörðunarstaður heldur ferðalag.
Við Kata mín fórum með góðum vinum á tónleika síðast liðið miðuvikudagskvöldið með norskum tónlistarmanni. Kvöldið var hið ánægjulegasta og tónlistin skemmtileg. Tónlistarmaðurinn kynnti hvert lag og sagði áhugaverðar sögur um bakgrunn hvers lags. Eitt lagið fjallaði um að margann manninn dreymir um að lifa annarskonar lífi en þeir gera, og telja að allir aðrir hljóti að hafa það betra en maður sjálfur. Það tónar vel við gamla íslenska máltækið um að grasið sé grænna hinu megin.
Á göngu okkar í gegnum lífið skiptast alltaf á skin og skúrir. það er gangur lífsins. Það er jú einu sinni þannig að á hverjum einasta degi eru einhverjir jákvæðir punktar í lífi okkar og einhverjir neikvæðir. Guðfræðingurinn Rick Warren lýsir þessi vel í einni af bókum sínum. Þar líkri hann lífi okkar við járnbrautarteina. Til að lestin - það er að segja lífið okkar - geti keyrt áfram þurfa að vera tveir teinar. þannig má líkja öðrum teinunum við það neikvæða sem er í gangi hjá okkur dags daglega og hinum teininum við að jákvæða. Og það er þörf á þeim báðum til að lestin keyri.
Hamingja okkar snýst þvi að litlu leyti um fjármagn eða aðstæður. Hamingja okkar er fólgin í því hvort okkur tekst á lífsgöngu okkar að fókusera meira á það jákvæða í lífinu og minna á það neikvæða. Hamingja okkar felst í því að njóta ferðalagsins og nýta hvert andartak til hins ítrasta.
Ég hef því í gegnum árin ráðlagt öllum þeim sem til mín hafa leytað að hætta að bíða eftir hamingjunni, og byrja að njóta hennar hér og nú. Það má nefnilega á hverjum degi finna eitthvað jákvætt sem maður getur þakkað fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslenskt hrossakjöt!
22.3.2010 | 20:09
Ég hef alltaf verið mikill matmaður og nýt þess að borða góðan mat. Danskurinn kann sannarlega að gæla við bragðlaukana og okkur hefur síður en svo skort matföngin þann tíma sem við höfum búið í ríki Margrétar Þórhildar. En það er sumt sem bara fæst á Íslandi og margir heima taka sem alltof sjálfsögðum hlut. Þar má meðal annars nefna skyr, harðfisk, íslenskt lambakjöt og hrossakjöt! Það síðast nefnda er eitt af mínu algjöru uppáhaldi!
Ég notaði því tækifærið um daginn þegar ég var heima á Íslandi til að skjótast í Bónus og ná mér í íslenskan kost sem fjölskyldan hefur saknað sárt undanfarna mánuði. Eitt af því var saltað hrossakjöt. Ég var reyndar með örlitla yfirvigt, svona rétt um 20 kíló, en það var líka farið heim með 3 lambalæri, talsvert af íslenskum lakkrís, Nóa konfekt og páskasúkkulaði, harðfisk, grænar baunir, lifrapylsa, hellingur af flatkökum og ........
Til að þurfa ekki að greiða þá himinháu sekt fyrir yfirvigtina sem SAS vildi að ég legði inní hið illa stadda norræna flugfélag gripum við Óli bróðir til þess ráðs að umraða vigtinni í handfarangur okkar og burðast matinn í fanginu á milli landshluta. Það gekk svo sem vel, en ég sá á svipbrigðum danska öryggisvarðarins á Kastrup að hann öfudnaði mig ekki af kostinum kæra. Nema þá ef vera skyldu grænu baunirnar því að þær vildi hann gjarnan fá að halda eftir. Ég var svolítið smeykur við að hann vildi líka halda í Skjóna gamla þar sem vakumpakkningin hafði gefið sig í fluginu frá Keflavík þannig að þegar hann tók pakkann upp úr töskunni minni varð hann örlítið klístraður á fingurgómunum.... Ef til vill hefur það bjargað mér fyrir horn að blessaður maðurinn hefur þurft að fara afsíðis og losa um velgjuna sem sást svo greinilega á andliti hans við skoðunina á handfarangirnum mínum.
En heim komst hrossið og ofan í pott. Og þvílík sæla!!! Til að fagna þessum merka áfanga í Danmerkur dvöl okkar var haldin veisla. Michael, kærasti Theu, og ein dönsk vinkona okkar komu í heimsókn og borðuðu með okkur. Og viðbröðgin voru svo góð að þegar Benedikt vinur minn og Dagný koma hingað í apríl verða þau beðinn að koma við í Jóhannesarbúð og kaupa eins og ein klár fyrir mig.
Annars er lífið ljúft hér í Álaborg. Vorið að bresta á og hitatölur að nálgast tveggja stafa stærðir. Skólinn gengur vel og ég nýt þess að fást við námið mitt. Ég er sannarlega lukkunnar pamfíll.
Njótið augnabliksins - það kemur aldrei aftur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Morgunstund...
20.3.2010 | 06:52
...gefur gull í mund!
Það er ekki vinna sem veldur því að ég vakna svona snemma á laugardagsmorgni né þá vonin um að einhver sé tilbúin að borga mér fyrir það að taka daginn snemma. Nei, það er eingöngu vegna þess að mín líkamsklukka segir mér dags daglega hvenær best sé að fara á fætur. Á virkum dögum er það á milli 5 og 6 þannig að það að ná að sofa til 7 er bara góður árangur.
Vikan hefur viðburðarrík, en um leið og ég kom heim frá Íslandi byrjaði skólinn á fullu og þar er ekkert gefið eftir. Ég hef í huga stórfeldar áætlanir um að ná þessari önn eins og þeirri síðustu og útskrifast síðan eftir tæpa þúsund daga. Þetta er sem sagt að bresta á!
Helgina ætlum við að nota til þess að hvílast og njóta samvista við fólkið okkar. Við byrjum á því að rölta yfir til Theu og Birgis Steins og fá okkur morgunkaffi, en sú hefð hefur komist á eftir að þau fluttu hér í götuna okkar að fá sér mogrunkaffi í eldhúskróknum þeirra á laugardagsmorgnum. Ég verð að sjálfsögðu búinn að hita upp með einum eða tveimur bollum hér heima enda þaulreyndur kaffikall á ferðinni hérna megin. Í kvöld borðum við síðan öll saman hérna heima og við ætlum í tilefni að því að tengdamamma er í heimsókn að gera okkur glaðari dag en venja er til. Það er svo gaman þegar fjölskyldan er saman!
Annað er ekki planað fyrir helgina, en markið er sett á að njóta þess að vera til og fullnýta hvert andartak.
Njótið þess vinir að vera til!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heima er best!
17.3.2010 | 06:53
Ég tók daginn snemma í gær enda var framundan heimferð eftir afar vel heppnaða heimsókn til Íslands. Að gista hjá Kidda og Ástu er eins og að dvelja á lúxushóteli, nema að það kemur engin reikningur!
Það er undarlegt að eiga heima í tveimur löndum. Ísland er alltaf "heima" enda er ég afar stolltur af því að vera íslendingur og tala íslensku. Að koma til Íslands verður þannig alltaf "heima". Ég var svo heppinn að verða samferða Óla bróðir mínum heim til Íslands. Óli hefur búið í Danmörku í tæpa 3 áratugi og eftir öll þessi ár ytra sagði hann nú samt þegar við vorum komnir um borð í vélina í Kaupmannahöfn "Going home". Römm er sú taug.....
En í dag á ég heima í Danmörku og er afar ánægður með það. Ég var því á heimleið í gær þegar ég kvaddi Ísland. Og heima er jú best! Og það var gott að koma heim!
Ferðin gekk vel í alla staði og ég komst í gegnum öryggisgæsluna þrátt fyrir að vera með úttröðnar handtöskur af íslenskum matvælum eins og lambalærum, harðfiski og söltu hrossakjötu ásamt gríðarlegu magni af íslensku sælgæti. Við Óli vorum aftur samferða heim og vorum í þessari lotu í fylgd með fullorðnum því að tengdamamma kom með mér heim. Kæja er á níræðisaldri en lét sig ekki muna um að skreppa á milli landa. Það var yndislegt að hitta Kötu mína og alla mína afkomendur og miklir fangarðfundir þegar liðið mitt hitti ömmu aftur eftir margra mánaða aðskilnað.
Í dag er það svo skólinn aftur. Hvað skyldi ég verða lengi að vinna upp tveggja daga stopp??? En ég nýt þess að vera í skóla og hlakka til að takast á við daginn.
Njótið augnabliksins vinir - það kemur aldrei aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ísland!
13.3.2010 | 16:32
Eins og ég er innilega ánægður með að búa í Danmörku, líður afar vel þar og væri ekki tilbúinn að flytja heim núna, þá er Ísland alltaf landið mitt og íslenska alltaf tungumálið mitt. Ég elska Ísland!
Ferðalagið gekk vel og við bræðurnir vorum komnir heim til Kidda og Ástu um miðnættið í gær. Ásta tók á móti okkur með íslenskum veislukosti, heimabökuðu brauði, hangikjöti, skyr og kaffi. Það hitti í mark!
Í morgun fórum við bræður ásamt Hermann Inga og Birgi Kiddasonum í kaffi til pabba og mömmu og það voru að sjálfsögðu fagnaðarfundir. Ella systir kom þar líka og það var yndislegt að sitja í stofunni hjá pabba og mömmu og njóta samfélagsins við dýrmæta vini, borða íslenskar flatkökur með eggjum og sötra kaffi með. Engu líkt!
Í kvöld er svo mikil veisla til heiðurs mömmu og ég hlakka mikið til að hitta allt fólkið. Á morgun ætla síðan systkinin ásamt pabba og mömmu að hittast heima hjá Ellu og Katli og borða saman. Það eru því framundan yndislegir dagar og þó að það fari mér engan vegin að vera Kötulaus þá nýt ég þess að vera heima á Íslandi í faðmi stórfjölskyldunnar.
Njótið augnabliksins vinir - það kemur aldrei aftur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Til hamingju með daginn!
12.3.2010 | 05:36
Í dag er merkisdagur í stórfjölskyldunni minni, þar sem ættmóðurinn og móðir mín fyllir árið. Mamma er fædd 12. mars 1940 og er því sjötug í dag. Mamma er hins vegar svo ung bæði í útliti og atferli að það er hálf ótrúlegt að hún sé orðinn þetta fullorðin. En "ótrúlegt" er reyndar lýsandi fyrir mömmu því mamma er alveg ótrúleg kona sem ég er óendanlega þakklátur fyrir að eiga sem mömmu og vin.
Árið 2008 og 2009 eru ár sem Íslendingar munu alltaf líta til sem árin þar sem gildin breyttust. Í stað peningahyggju og græðgi fóru menn í auknu mæli að setja inn manngildi og meta lífið út frá öðrum forsendum. Það á hins vegar ekki við hana mömmu þvi að hún hefur alla ævi haft raunveruleg gildi lífsins að leiðarljósi. Mamma hefur aldrei verið upptekin af peningum eða veraldlegum gæðum. Það eru mun æðri gæði sem mamma hefur verið upptekin af. Fjölskyldan hefur verið verkefni hennar, bæði höfuðstóllinn (við börnin hennar) og vextirnir (tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn) og þessu verkefni hefur hún sinnt af alúð og óendanlegri umhyggju eins lengi og ég man eftir mér. Ég held að það séu engin takmörk fyrir því sem mamma gerir fyrir sitt fólk.
Mamma hefur afar mikla þýðingu í mínu lífi. Ég væri ekki einu sinni til ef hennar nyti ekki við! Mamma hefur kennt mér hvað það er sem skiptir máli og hefur kennt mér að standa við skoðanir mínar án þess að reyna að þvinga aðra til þess að hugsa eins og ég. Mamma hefur kennt mér að virða aðra og setja mig í spor annarra og taka þarfir annarra fram yfir mínar. Mamma hefur kennt mér svo margt að það tæki mig alltof langan tíma að telja það upp hér. Fyrst og fremst hefur mamma elskað mig í gegnum allt mitt líf og ég ELSKA mömmu mína.
Í tilefni dagsins ætla ég að skjótast heim til Íslands á eftir með Óla bróðir til að vera í veislunni hennar mömmu sem verður á morgun.
Elsku mamma - innilega til hamingju með daginn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jákvæðar fréttir
10.3.2010 | 10:05
Ég er einn af þeim fylgist mjög náið með fréttum og les netmiðlana nokkrum sinnum á dag (til að missa ekki af neinu). Fréttir af heiman eru því miður lang flestar neikvæðar og niðurþrykkjandi, en það er svo sem svipað ástand á dönsku miðlunum, þó að það þeir séu heldur upplitsdjarfari en þeir íslensku. En það er nánast aldrei fjallað um það sem er jákvætt eða uppbyggilegt. Það er eins og jákvæðar fréttir "selji" ekki nógu vel.
Atburðirnir á Haíti hafa eðilega verið mikið í fréttum. Ég á engin orð til lýsa sorg minni yfir þvi sem þar gerðist, og vona að slíkt muni aldrei endurtaka sig. Þó er það næsta víst að jörðin mun halda áfram að skjálfa og maðurinn mun aldrei ná að reikna út hvernig eða hvar nátturuhamfarir ríða yfir.
Margar hjálparstofnanir og kirkjur hafa lagt hönd á plóginn og það eigum við að sjálfsögðu að gera. Í fréttum heyrum við núna mest um hversu erfitt sé að koma hjálpargögnum til bágstaddra, hvernig misyndismenn hafa nýtt sér neyðinni og annað í þeim dúr sem er sorglegt og neikvætt.
Ein ótrúleg frétt hefir einhverra hluta vegna ekki ratað í heimsfréttirnar þó að viðburðurinn sé stórfrétt. Þann 12. febrúar kallaði forseti Haítí nefnilega þjóðina sína saman til bæna og föstu fyrir landi og þjóð. Talið er að allt að því 1.000.000 manns hafi tekið þá í bænastundinni. Það er að mínu mati heimsfrétt, en hefur þó ekki vakið athyggli fréttamanna eða fréttastjóra. Ég læt hér fylgja með myndband um þessa frétt.
Njótið lífsins vinir og njótum alls þess góða sem er í kringum okkur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ice-save
8.3.2010 | 15:10
Það hefur sennilega ekki komið neinum á óvart hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fór á laugardaginn. Sjálfur er ég afar ánægður með niðustöðuna, þó að ég geri mér grein fyrir því að á hvorn veginn sem þetta hefði farið fylgja þvi afleyðingar. Mér finnst gott að sjá Pálma í Fons iðrast og vildi að aðrir útrásarmenn fylgdu í kjölfarið. Hvað sem iðrun þeirra líður þá er ekki réttlætanlegt að varpa þeirra mistökum á Íslensku þjóðina. Við eigum ekki að láta kúga okkur, hvorki sem einstaklinga né heldur sem þjóð, í þessum málum né neinum öðrum.
Það vakta nokkra undrun hjá mér í fyrirlesturm morgunsins í háskólanum hvað margir að mínum samnemendum höfðu fylgst með framvindu mála á Íslandi og voru vel inní umræðunni. Þverskuður á áliti þeirra sem tjáðu sig um málið var að Íslendingar hefðu tekið rétta ákvörðun. Hvað verður núna veit svo sem engin, en allir menn ættu að lifa frjálsir, eða deyja við að reyna að verða frjálsir. Ekki þar með sagt að ég hafi neinar áhyggjur af því að Íslenska þjóðin deyji. Síður en svo, við erum sterk þjóð sem höfum áður staðið af okkur brotsjó og gerum það líka núna. En við eigum ekki að láta níðast á okkur hvorki af Bretum, Hollendingum, Evrópusambandinu eða AGS. Sjálfstæði okkar felst í því að við ákveðum sjálf hvað gert verður!
Annars er vorið að banka uppá hjá okkur hér á Jótlandi þó að það sé helst til hógvært í því banki. Það er samt greinilegt að veðurskipti eru í gangi og danir bíða óþreyjufullir eftir hlýindum vorsins. Það gerum við Íslendingarnir líka og það er eftirvænting hjá okkur að upplifa danskt vor.
Njótið lífsins vinir mínir nær og fjær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagsmorgun
6.3.2010 | 05:36
Ég hef alltaf verið morgunmaður sem tek daginn snemma og nýt þess. En í morgun feilreiknaði likamsklukkan sig all svakalega. Ég var vaknaður og kominn á fætur rúmmlega fimm, heldur svekktur yfir þvi að ná ekki að sofa út. Var búinn að ákveða að sofa langt frameftir og fara ekki á fætur fyrr en á milli 7-8. En eftir að hafa reynt að sofna aftur í smá stund gafst ég uppá því verkefni og fór á fætur. Gerði það sem allir heimilisfeður gera á hverjum laugardagsmorgni og setti í eina þvottavél og settist svo niður við að lesa heimsfréttirnar. Byrjaði að sjálfsögðu heima á Íslandi (en það geri ég á hverjum morgni, svo voru það dönsku miðlarnir (jp.dk, tv2.dk og síðan nordjyske.dk) en í morgun sleppti ég Amerísku fréttunum. Síðan þarf að taka veðrið, bæði heima á landinu bláa og hér í ríki Margrétar Þorhildar.
Mér líður afar vel í Danmörku og er mjög sáttur við þá ákvörðun okkar að flytja hingað út. Það er mjög margt sem bakkar þá tilfinngu upp. Til dæmis finnst mér mjög gott að eiga fyrir mat á hverjum degi....Lífsbaráttan hér er einfaldlega mun auðveldara en heima á Íslandi. Vinnudagurinn styttri og launin betri þannig að maður á meiri tíma með fólkinu sínu. Ég sjálfur hef reyndar ekki unnið svona lítið eins og ég geri núna síðan við Kata mín stofnuðum fjölskyldu og fórum að eiga börnin okkar. Ég hef alltaf unnið alla vega tvö störf og stundum meira. Hér er ég bara í háskóla og þarf ekki að vinna neitt með náminu og mér finnst ég stundum hreinlega vera í sumarfríi. Kata min er í fullu starfi sem félagsráðgjafi hjá borginni en hennar vinnutími er frá 8-15 alla daga nema fimmtudaga en þá vinnur hún til 17. Það finnst okkur núna vera svaka langir dagar. Fyrir nokkurm árum var staðan þannig hjá okkur báðum að kl. 17 áttum við alla vega einn tíma eftir í dagvinnunni og síðan var kvöldvinnan eftir.
Í dag vildi ég reyndar gjarnan vera á Íslandi og taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég myndi með stollti segja NEI við þessum lögum. Mér finnst reyndar ráðamenn gefa ótrúleg skilaboð með því að segjast ekki ætla að kjósa. Mér finnst að þeir séu þar með að dæma sjálfa sig úr leik sem hæfir stjórnendur þjóðfélagsins, þó svo að ég hafi reyndar aldrei treyst þeim til að stýra þjóðarskútunni. Ég vona að sem allra flestir mæti á kjörstað og segji skoðun sína. Það er kjarni lýðræðisins og ótrúlegt að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra sniðgangi slíka samkomu. Það verður sannarlega spennandi að sjá niðurstöðu kosningarinnar þegar talningu líkur.
Ég ætla hins vegar snöggvast að laga mér kínverskt te og halda síðan áfram að hjálpa Camilla Lackberg, hinni sænsku, að leysa dularfullt sakamál. Ég hef komist að þvi að slík rannsóknarvinna er afar gagnleg í þeirri þrotlausu vinnu að læra dönsku.
Njótið dagsins vinir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)