Kolbiluð þvottavél.

Það eru þrjár vélar hér á heimilinu sem keyra nánast án afláts. Þvottavél, þurrkari og uppþvottavél.

Um daginn vildi ekki betur til en svo að þegar ég setti þvottavélina í gang neitaði hún alfarið öllu samstarfi við mig. Það var saman hvaða æfingar ég gerði, allir verkferlar þessarar rándýru 3 ára Simens vélar lágu niðri. Og þá voru góð ráð dýr.

Það fyrsta sem ég gerði var að hringja í Óla bróðir minn og spurja hann hvaða viðgerðarverkstæði hann notaðist við. Hann bað mig að finna út skráningarnúmer vélarinnar og hringdi síðan í umboðið fyrir mig. Stuttu seinna hringdi hann og sagði að umboðið þekkti ekki til þeirrar bilunar sem væri að hrjá vélina mína. Hann saðgi líka að það kostaði mig 800 danskar krónur að fá viðgerðarmann til bilunarleit. Það fannst mér í sjálfu sér alger bilun og var lítið hrifin af hugmyndinni.

Ég spurði því Óla hvað hann myndi gera í mínum sporum og hann sagðist myndi byrja á að kíkja á hana sjálfur. Það fannst mér mun sniðugari hugmynd og var fljótur að bjóða honum í kaffi. Þar sem ég á heimsins bestu bræður tók hann mjög vel í þá hugmynd og það leið ekki á löngu þar til hann var kominn til mín með verkfæratöskuna sína.

Þar sem ég veit EKKERT um svona viðgerðir spurði ég Óla hvað hann myndi byrja á að gera. Hann sagði að fyrsta verkið væri að athuga kolin í vélinni og ég var fljótur að segja honum að það væri alveg öruggt að það væri ekki vandinn. Ég hefði aldrei sett kol í vélina, bara þvott. Öll kolin væru bara í grillinu út á svölum....Óli var fljótur að átta sig á aðstæðum og spurði hvort það væri ekki best að ég hellti bara uppá kaffi á meðan hann tékkaði á vélinni......

Þegar búið var að rífa kolin úr sá verkfærðingurinn hann bróðir minn að þau voru alveg uppétin. Hann sagði því að næsta verk væri að panta ný kol og athuga hvort það gerði vélinni ekki gott. Í gær náði ég í nýju kolin og í dag kom Óli svo og setti þau í og nú er vélin komin í gagnið á ný! Og þvílíkur munur!!!

Mikið er ég þakklátur fyrir að eiga svona snjallan og hjálpsaman bróðir!!


Táningur!

Það eru merkileg tímamót í lífi okkar Kötu minnar í dag. Elín Rut, litla trippið okkar, fyllir árið og er frá og með deginum í dag orðin táningur. Það þýðir að við Kata mín eigum 2 táninga, tvo uppkominn börn og eitt barnabarn sem þrátt fyrir að vera nýfæddur fyllir sitt annað ár í sumar. Mikið svakalega flýgur tíminn áfram og það án þess að við hjónin eldumst neitt að ráði.

Elín Rut hefur sannkallaður gleðigjafi inní líf okkar og það er alltaf fjör og skemmtilegheit í kringum hana. Henni er alltaf afar mikið í mun að öllum líði vel og er almennt afar umhugað um fólk. Elín Rut er mjög dugleg í skólanum og eftir að við fluttum hingað til Danmerkur hefur henni gengi frábærlega að læra dönskuna og fóta sig í nýju umhverfi. Ég er bæði afskaplega stolltur af litlu telpunni minni og yfir mig þakklátur fyrir hana.

Elsku Eín Rut mín - til hamingju með daginn og táningsáfangann!


Friðhelgi heimilisins.

Ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunnar að virði eigi friðhelgi heimilsins. En ég er líka afdráttarlaust þeirrar skoðunnar að þar þurfi eitt yfir alla að ganga.

Undanfarið hefur verið efnt til mótmæla við heimili ýmissa ráðamanna og nú er svo komið að löggæslan hefur gripið í taumana. Það finnst mér hið besta mál og nauðsynlegt að tryggja að alþingismenn og aðrir leiðtogar þjóðarinnar geti óhulltir dvalið á heimilum sínum. Ólína Þorvarðardóttir skrifar á heimasíðu sinni að það væri "óhugnanlegt að fylgjast með mótmælum við heimili fólks". Ég get alveg tekið undir það með þingmanninum. Heimilið á jú líka í öllum tilfellum að vera friðhelgt.

En reyndin er nú samt allt önnur á landinu bláa. Þannig hafa bankarnir, sem flestir eru komnir í eigu okkar allra, gengið með harðri hendi að heimilum fjölda landsmanna. Og það er gert í skjóli þeirra sem við höfum valið til að gæta okkar hagsmuna. Hvernig má það síðan vera að þessir sömu aðilar sína á sér tennurnar þegar kemur að þeirra eigin heimilum? Með því eru þingmenn að segja okkur hinum að á Íslandi séu menn mis jafnir í þjóðfélagi sem státar af því að allir menn séu jafnir. Þetta er ótækt og óafsakandi!

Í þessum vangaveltum mínum lít ég ekki til allra þeirra viðskiptajöfra sem svikið hafa land og þjóð og sitja enn á gulli sínu þrátt fyrir að þjóðin liggi særð við vegkantinn eftir þá. Þeir hafa löngu sýnt að heiður þeirra og virðing er langt undir væntingum. En þegar kemur að landsfeðrunum hljótum við að geta gert skýra kröfu á að menn axli ábyrgð og standi vörð um land og þjóð. það er jú það sem við borgum þeim laun sem eru af þeirri stærðargráðu að ég myndi gjarnan þyggja þau kjör.

En þrátt fyrir þessa stundargeðvonsku mína yfir ástandi heima, á landinu sem ég elska, hef ég ákveðið að vera glaður og hamingjusamur í dag. Lífið er of gott til að verja því í leiðindi.

Njótið dagsins vinir - hann kemur aldrei aftur!


Lífið er ljúft!

Ég er svo lánsamur maður að lang flestir dagar í lífi mínu eru góðir dagar. Ég er hamingjusamur og nýt lífsins og hef aukinheldur lært þá kúnst að sjá það jákvæða í hverju degi.

Síðustu dagar hafa verið sérlega ánægjulegir. Frá fimmtudegi til laugardags dvöldum við í sumarhúsi á austurströnd Danmerkur með Betu mágkonu og hennar fjölskyldu. Að sitja með góðum vinum, borða góðan mat og njóta þess að hlæja að góðum minningum eru sönn forréttindi. Og ekki skemdi að veðrið var yndislegt og við nutum þess fara í langar gönguferðir um fallegt umhverfi sumarhúsasævðisins. Beta og Detlef keyrðu síðan heim til Germaníu á sunnudag og tóku tengdamömmu með. En áður en þau fóru af stað hjálpuðumst við að við að klára hangikjötið sem Kaja hafði komið með frá Íslandi. Við Kata mín hristum sem sagt fram eina snögga matarveislu, en það kunnum við ágætlega og kunnum einsaklega vel við að gera. Michael hennar Theu minnar var hjá okkur líka og það var ekki annað að sjá en þeim danska fynndist íslenska lambið hreinasta afbragð.

Eftir kveðjustundina fórum við Kata mín síðan út í skóg í göngutúr og strákarnir okkar komu með. Þvílík forréttindi að eiga þannig samfélag við börnin sín að þau nenni með manni í slíkar ferðir! Þar kemur uppskera margra ára sáningar fram. Þegar heim var komið og búið að ganga frá öllu sem gera þurfti fengum við síðan símtal frá Óla bróðr. Hann og Anette áttu í einhverjum erfiðleikum með allan ísinn sem þar var til í kistunni og þurftu smá aðstoð við að minnka lagerstöðuna. Við brugðum okkur því suður á bóginn og áttum yndislegt kvöld með dýrmætum vinum í Støvring.

Annars var hugurinn minn heima á Íslandi á föstudaginn, nánar tiltekið heima hjá pabba sem þá fyllti árið í 71. sinn. Ég hefði svo innilega viljað vera nær honum á þessum degi og fá mér kaffisopa með honum. En þar sem Atlantsálar skilja okkur að lét ég því duga að hringja í hann og óska honum til hamingju með daginn. Hann var sjálfum sér líkur og hafði meiri áhuga á að heyra um hvernig okkur liði og hvað væri að frétta af okkur en að tala um eigið afmæli. Pabbi hefur alltaf sýnt öllu sínu fólki einlæga umhyggju og verið einstaklega umhugað um að öllum líði vel. Eftir að við Kata mín fluttumst búferlum austur yfir hafið hefur það verið mikið áhugamál hjá pabba hvernig okkur gangi að læra málið og hvernig krökkunum gangi að komast inní skólakerfið. Ég er afar þakklátur fyrir þann áhuga sem pabbi hefur á mér og mínum og umhyggjuna sem hann sýnir okkur. Það eru ekki allir svo heppnir að eiga pabba sem elskar með þeim hætti sem pabbi gerir. Og ég elska pabba minn!

Njótið augnabliksins vinir - það kemur aldrei aftur!


Rólegir dagar.

Það eru rólegir dagar að baki hjá okkur fjölskyldunni, og þeim hefur verið vel telkið. Í afar mörg ár höfum við ráðstafað verulega miklu af tíma okkar í að sinna öðrum og haft óþarflega lítin tíma fyrir okkur. Þegar við fluttum frá yndislega Íslandi ákváðum við strax að nota námstímann minn hér ytra til að stilla kompásinn uppá nýtt. Við höfum í svo mörg ár verið í forsvari fyrir kirkjulegu starfi og höfum notið þess þó svo að það sé svo gott sem botnlaus vinna. En allt hefur sinn tíma og nú finnum við að það er tími fyrir okkur! Og þann tíma höfum við og ætlum við að nota vel. Í dag njótum við þess að vera upptekin við að elska Guð og njóta elsku hans á móti.

Páskarnir hafa því verið sannkallaðir frídagar sem við höfum notað til að hvíla okkur og hlaða batteríin okkar. Við höfum farið í heimsókn og fengið heimsókn, farið i skógarferð, legið og lesið, horft á sjónvarp, borðað góðan mat og í alla staði notið lífsins. Reyndar hafa synir mínir verið í sitt hvoru ferðalaginu. Jósúa fór með bekkjarfélaga sínum og fjölskyldu hans í Legoland og var þar í 2 daga. Birgir Steinn fór hins vegar með nokkrum vinum sínum til Amsterdam og kemur heim seinnipartinn í dag.

Í kvöld verður síðan páskalambið borðað og það er, Guði sé lof, íslenskt lambalæri eldað af snillingnum mér.... Ég held að það sé ekki neinum ofsögum sagt að allri fjölskyldunni hlakki til að setjast að borðum í kvöld.

Á morgun koma svo Elísabet og Detlef (systir Kötu minnar og hennar heittelskaði) í vikudvöl hingað til Jótlands. Þau búa í Germaníu og hafa gert frá því að þau giftust fyrir 26 árum síðan. Þau hafa leigt sér sumarbústað hér rétt fyrir utan Álaborg þar sem þau ætla að dvelja, og við ætlum um næstu helgi að heimsækja þau og gista í 2 nætur hjá þeim. Það verður yndislegt að hitta þau og njóta samfélags við þau. Ég er svo heppinn að Óli bróðir býr í fallegum bæ rétt sunnan við Álaborg og við hittumst reglulega, síðast í gær þegar hann og Anette komu hér við í kaffisopa. Það er svo ómetanlegt að eiga fjölskyldu og njóta þess að elska og vera elskaður.

Njótið páskanna elsku vinir og þess frelsis sem verk Jesú á krossinum færir okkur.


Að gæta tignar sinnar.

Mér hefur hlotnast ómetanlegur arfur. Þau auðævi verða aldrei mæld í krónum og aurum, heldur er um að ræða þekkingu og visku sem gengið hafa mann frá manni.

Ég bjó svo vel að eiga tvær yndislegar ömmur sem reyndust mér báða afburðarvel. Það var alveg sama hvort maður kom til Siggu ömmu eða Stínu ömmu, alltaf var manni tekið með þeim hætti að mér fannst ég mikilvægasti maður í heimi. Aldrei var látið í það vaka að ég kæmi á slæmum tíma eða illa stæði á. Og báðar áttu það sameiginlegt að úða í mig veitingum í afar ríku mæli. Sigga amma átti það til um miðjan dag að steikja handa okkur Kidda bróðir kótilettur, því eitthvað yrðum við að borða greyin.

Það besta sem ég fékk frá þeim var samt saman söfnuð þekking tveggja kvenna með djúpa lífsreynslu. Stína amma kenndi mér meðal annars að "gæta tignar minnar". Hún sagði að við værum of vönduð til að leyfa okkur að segja allt sem okkur dytti í hug. Við þyrftum í öllum tilfellum að gæta þess að orð okkar byggðu upp en brytu ekki niður. Síðan vitanði hún í heilaga ritningu sem kennir okkar að "dauði og líf er á tungunnar valdi". Aftur og aftur hef á lífsgöngu mína farið í minningarbankann og sótt visku til þeirra orða sem ömmur mínar hafa talað inní líf mitt.

Undanfarin misseri hef ég hugsað mikið til orðanna hennar ömmu um að gæta tignar minnar. Mér hefur svo oft misboðið fullkomnlega hvernig farið er með fólk heima á Íslandi og hvernig fjármálastofnanir hafa á grófann hátt mismunað fólki. Á meðan útvaldir fá afskrifðar þúsundir milljóna er almenningur hengdur í hæsta gálga. Og nú þarf ég að gæta tignar minnar áður en ég segi eitthvað sem ég sé svo eftir seinna. Það er kannski ekki úr vegi í þeim hugrenningum að minna sig á að í bankakerfinu sjálfu vinnur afar mikið af harðduglegu og strangheiðarlegu fólki sem enga ábyrgð ber á því sem misfarist hefur. Þar er ég ekki síst með í huga mína fyrrum vinnufélaga í útibúi 313 hjá Arionbanka. Úrvalsfólk, allt frá útbibússtjóra til ræstitæknisins! Þar var ég sem fulltrúi KB ráðgjafar - einu af betri fyrirtækjum landsins - í rúmlega 4 ár og kunni verulega vel við mig.

Sjálfur er ég orðin afi og geri mér svo ríka grein fyrir þvi að bæði börnin min og síðan barnabörn munu á einhverjum tímapunkti hugsa til baka og rifja upp það sem ég hef lagt inní líf þeirra. Ég hef fyrir löngu síðan ákveðið að þær minningar verði góðar og það sem ég legg inní líf þeirra veri þeim til framdráttar. Mig langar mjög að þeirra minning verði að ég hafi kennt þeim að gæta tignar sinnar.

Njótið dagsins elsku vinir.


Hamingja!

Allir menn eiga það sameiginlegt að langa til að vera hamingjusamir. Hamingja er líka afar eftirsóknarverð. Það sem færri gera sér grein fyrir er að hamingja er ekki ákvörðunarstaður heldur ferðalag.

Við Kata mín fórum með góðum vinum á tónleika síðast liðið miðuvikudagskvöldið með norskum tónlistarmanni. Kvöldið var hið ánægjulegasta og tónlistin skemmtileg. Tónlistarmaðurinn kynnti hvert lag og sagði áhugaverðar sögur um bakgrunn hvers lags. Eitt lagið fjallaði um að margann manninn dreymir um að lifa annarskonar lífi en þeir gera, og telja að allir aðrir hljóti að hafa það betra en maður sjálfur. Það tónar vel við gamla íslenska máltækið um að grasið sé grænna hinu megin.

Á göngu okkar í gegnum lífið skiptast alltaf á skin og skúrir. það er gangur lífsins. Það er jú einu sinni þannig að á hverjum einasta degi eru einhverjir jákvæðir punktar í lífi okkar og einhverjir neikvæðir. Guðfræðingurinn Rick Warren lýsir þessi vel í einni af bókum sínum. Þar líkri hann lífi okkar við járnbrautarteina. Til að lestin - það er að segja lífið okkar - geti keyrt áfram þurfa að vera tveir teinar. þannig má líkja öðrum teinunum við það neikvæða sem er í gangi hjá okkur dags daglega og hinum teininum við að jákvæða. Og það er þörf á þeim báðum til að lestin keyri.

Hamingja okkar snýst þvi að litlu leyti um fjármagn eða aðstæður. Hamingja okkar er fólgin í því hvort okkur tekst á lífsgöngu okkar að fókusera meira á það jákvæða í lífinu og minna á það neikvæða. Hamingja okkar felst í því að njóta ferðalagsins og nýta hvert andartak til hins ítrasta.

Ég hef því í gegnum árin ráðlagt öllum þeim sem til mín hafa leytað að hætta að bíða eftir hamingjunni, og byrja að njóta hennar hér og nú. Það má nefnilega á hverjum degi finna eitthvað jákvætt sem maður getur þakkað fyrir.


Íslenskt hrossakjöt!

Ég hef alltaf verið mikill matmaður og nýt þess að borða góðan mat. Danskurinn kann sannarlega að gæla við bragðlaukana og okkur hefur síður en svo skort matföngin þann tíma sem við höfum búið í ríki Margrétar Þórhildar. En það er sumt sem bara fæst á Íslandi og margir heima taka sem alltof sjálfsögðum hlut. Þar má meðal annars nefna skyr, harðfisk, íslenskt lambakjöt og hrossakjöt! Það síðast nefnda er eitt af mínu algjöru uppáhaldi!

Ég notaði því tækifærið um daginn þegar ég var heima á Íslandi til að skjótast í Bónus og ná mér í íslenskan kost sem fjölskyldan hefur saknað sárt undanfarna mánuði. Eitt af því var saltað hrossakjöt. Ég var reyndar með örlitla yfirvigt, svona rétt um 20 kíló, en það var líka farið heim með 3 lambalæri, talsvert af íslenskum lakkrís, Nóa konfekt og páskasúkkulaði, harðfisk, grænar baunir, lifrapylsa, hellingur af flatkökum og ........

Til að þurfa ekki að greiða þá himinháu sekt fyrir yfirvigtina sem SAS vildi að ég legði inní hið illa stadda norræna flugfélag gripum við Óli bróðir til þess ráðs að umraða vigtinni í handfarangur okkar og burðast matinn í fanginu á milli landshluta. Það gekk svo sem vel, en ég sá á svipbrigðum danska öryggisvarðarins á Kastrup að hann öfudnaði mig ekki af kostinum kæra. Nema þá ef vera skyldu grænu baunirnar því að þær vildi hann gjarnan fá að halda eftir. Ég var svolítið smeykur við að hann vildi líka halda í Skjóna gamla þar sem vakumpakkningin hafði gefið sig í fluginu frá Keflavík þannig að þegar hann tók pakkann upp úr töskunni minni varð hann örlítið klístraður á fingurgómunum.... Ef til vill hefur það bjargað mér fyrir horn að blessaður maðurinn hefur þurft að fara afsíðis og losa um velgjuna sem sást svo greinilega á andliti hans við skoðunina á handfarangirnum mínum.

En heim komst hrossið og ofan í pott. Og þvílík sæla!!! Til að fagna þessum merka áfanga í Danmerkur dvöl okkar var haldin veisla. Michael, kærasti Theu, og ein dönsk vinkona okkar komu í heimsókn og borðuðu með okkur. Og viðbröðgin voru svo góð að þegar Benedikt vinur minn og Dagný koma hingað í apríl verða þau beðinn að koma við í Jóhannesarbúð og kaupa eins og ein klár fyrir mig.

Annars er lífið ljúft hér í Álaborg. Vorið að bresta á og hitatölur að nálgast tveggja stafa stærðir. Skólinn gengur vel og ég nýt þess að fást við námið mitt. Ég er sannarlega lukkunnar pamfíll.

Njótið augnabliksins - það kemur aldrei aftur!


Morgunstund...

...gefur gull í mund!

Það er ekki vinna sem veldur því að ég vakna svona snemma á laugardagsmorgni né þá vonin um að einhver sé tilbúin að borga mér fyrir það að taka daginn snemma. Nei, það er eingöngu vegna þess að mín líkamsklukka segir mér dags daglega hvenær best sé að fara á fætur. Á virkum dögum er það á milli 5 og 6 þannig að það að ná að sofa til 7 er bara góður árangur.

Vikan hefur viðburðarrík, en um leið og ég kom heim frá Íslandi byrjaði skólinn á fullu og þar er ekkert gefið eftir. Ég hef í huga stórfeldar áætlanir um að ná þessari önn eins og þeirri síðustu og útskrifast síðan eftir tæpa þúsund daga. Þetta er sem sagt að bresta á!

Helgina ætlum við að nota til þess að hvílast og njóta samvista við fólkið okkar. Við byrjum á því að rölta yfir til Theu og Birgis Steins og fá okkur morgunkaffi, en sú hefð hefur komist á eftir að þau fluttu hér í götuna okkar að fá sér mogrunkaffi í eldhúskróknum þeirra á laugardagsmorgnum. Ég verð að sjálfsögðu búinn að hita upp með einum eða tveimur bollum hér heima enda þaulreyndur kaffikall á ferðinni hérna megin. Í kvöld borðum við síðan öll saman hérna heima og við ætlum í tilefni að því að tengdamamma er í heimsókn að gera okkur glaðari dag en venja er til. Það er svo gaman þegar fjölskyldan er saman!

Annað er ekki planað fyrir helgina, en markið er sett á að njóta þess að vera til og fullnýta hvert andartak.

Njótið þess vinir að vera til!


Heima er best!

Ég tók daginn snemma í gær enda var framundan heimferð eftir afar vel heppnaða heimsókn til Íslands. Að gista hjá Kidda og Ástu er eins og að dvelja á lúxushóteli, nema að það kemur engin reikningur!

Það er undarlegt að eiga heima í tveimur löndum. Ísland er alltaf "heima" enda er ég afar stolltur af því að vera íslendingur og tala íslensku. Að koma til Íslands verður þannig alltaf "heima". Ég var svo heppinn að verða samferða Óla bróðir mínum heim til Íslands. Óli hefur búið í Danmörku í tæpa 3 áratugi og eftir öll þessi ár ytra sagði hann nú samt þegar við vorum komnir um borð í vélina í Kaupmannahöfn "Going home". Römm er sú taug.....

En í dag á ég heima í Danmörku og er afar ánægður með það. Ég var því á heimleið í gær þegar ég kvaddi Ísland. Og heima er jú best! Og það var gott að koma heim!

Ferðin gekk vel í alla staði og ég komst í gegnum öryggisgæsluna þrátt fyrir að vera með úttröðnar handtöskur af íslenskum matvælum eins og lambalærum, harðfiski og söltu hrossakjötu ásamt gríðarlegu magni af íslensku sælgæti. Við Óli vorum aftur samferða heim og vorum í þessari lotu í fylgd með fullorðnum því að tengdamamma kom með mér heim. Kæja er á níræðisaldri en lét sig ekki muna um að skreppa á milli landa. Það var yndislegt að hitta Kötu mína og alla mína afkomendur og miklir fangarðfundir þegar liðið mitt hitti ömmu aftur eftir margra mánaða aðskilnað.

Í dag er það svo skólinn aftur. Hvað skyldi ég verða lengi að vinna upp tveggja daga stopp??? En ég nýt þess að vera í skóla og hlakka til að takast á við daginn.

Njótið augnabliksins vinir - það kemur aldrei aftur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband