Ísland!

Eins og ég er innilega ánægður með að búa í Danmörku, líður afar vel þar og væri ekki tilbúinn að flytja heim núna, þá er Ísland alltaf landið mitt og íslenska alltaf tungumálið mitt. Ég elska Ísland!

Ferðalagið gekk vel og við bræðurnir vorum komnir heim til Kidda og Ástu um miðnættið í gær. Ásta tók á móti okkur með íslenskum veislukosti, heimabökuðu brauði, hangikjöti, skyr og kaffi. Það hitti í mark!

Í morgun fórum við bræður ásamt Hermann Inga og Birgi Kiddasonum í kaffi til pabba og mömmu og það voru að sjálfsögðu fagnaðarfundir. Ella systir kom þar líka og það var yndislegt að sitja í stofunni hjá pabba og mömmu og njóta samfélagsins við dýrmæta vini, borða íslenskar flatkökur með eggjum og sötra kaffi með.  Engu líkt!

Í kvöld er svo mikil veisla til heiðurs mömmu og ég hlakka mikið til að hitta allt fólkið. Á morgun ætla síðan systkinin ásamt pabba og mömmu að hittast heima hjá Ellu og Katli og borða saman. Það eru því framundan yndislegir dagar og þó að það fari mér engan vegin að vera Kötulaus þá nýt ég þess að vera heima á Íslandi í faðmi stórfjölskyldunnar.

Njótið augnabliksins vinir - það kemur aldrei aftur!


Til hamingju með daginn!

Í dag er merkisdagur í stórfjölskyldunni minni, þar sem ættmóðurinn og móðir mín fyllir árið. Mamma er fædd 12. mars 1940 og er því sjötug í dag. Mamma er hins vegar svo ung bæði í útliti og atferli að það er hálf ótrúlegt að hún sé orðinn þetta fullorðin. En "ótrúlegt" er reyndar lýsandi fyrir mömmu því mamma er alveg ótrúleg kona sem ég er óendanlega þakklátur fyrir að eiga sem mömmu og vin.

Árið 2008 og 2009 eru ár sem Íslendingar munu alltaf líta til sem árin þar sem gildin breyttust. Í stað peningahyggju og græðgi fóru menn í auknu mæli að setja inn manngildi og meta lífið út frá öðrum forsendum. Það á hins vegar ekki við hana mömmu þvi að hún hefur alla ævi haft raunveruleg gildi lífsins að leiðarljósi. Mamma hefur aldrei verið upptekin af peningum eða veraldlegum gæðum. Það eru mun æðri gæði sem mamma hefur verið upptekin af. Fjölskyldan hefur verið verkefni hennar, bæði höfuðstóllinn (við börnin hennar) og vextirnir (tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn) og þessu verkefni hefur hún sinnt af alúð og óendanlegri umhyggju eins lengi og ég man eftir mér. Ég held að það séu engin takmörk fyrir því sem mamma gerir fyrir sitt fólk.

Mamma hefur afar mikla þýðingu í mínu lífi. Ég væri ekki einu sinni til ef hennar nyti ekki við! Mamma hefur kennt mér hvað það er sem skiptir máli og hefur kennt mér að standa við skoðanir mínar án þess að reyna að þvinga aðra til þess að hugsa eins og ég. Mamma hefur kennt mér að virða aðra og setja mig í spor annarra og taka þarfir annarra fram yfir mínar. Mamma hefur kennt mér svo margt að það tæki mig alltof langan tíma að telja það upp hér. Fyrst og fremst hefur mamma elskað mig í gegnum allt mitt líf og ég ELSKA mömmu mína.

Í tilefni dagsins ætla ég að skjótast heim til Íslands á eftir með Óla bróðir til að vera í veislunni hennar mömmu sem verður á morgun.

Elsku mamma - innilega til hamingju með daginn!


Jákvæðar fréttir

Ég er einn af þeim fylgist mjög náið með fréttum og les netmiðlana nokkrum sinnum á dag (til að missa ekki af neinu). Fréttir af heiman eru því miður lang flestar neikvæðar og niðurþrykkjandi, en það er svo sem svipað ástand á dönsku miðlunum, þó að það þeir séu heldur upplitsdjarfari en þeir íslensku. En það er nánast aldrei fjallað um það sem er jákvætt eða uppbyggilegt. Það er eins og jákvæðar fréttir "selji" ekki nógu vel.

 Atburðirnir á Haíti hafa eðilega verið mikið í fréttum. Ég á engin orð til lýsa sorg minni yfir þvi sem þar gerðist, og vona að slíkt muni aldrei endurtaka sig. Þó er það næsta víst að jörðin mun halda áfram að skjálfa og maðurinn mun aldrei ná að reikna út hvernig eða hvar nátturuhamfarir ríða yfir.

 Margar hjálparstofnanir og kirkjur hafa lagt hönd á plóginn og það eigum við að sjálfsögðu að gera. Í fréttum heyrum við núna mest um hversu erfitt sé að koma hjálpargögnum til bágstaddra, hvernig misyndismenn hafa nýtt sér neyðinni og annað í þeim dúr sem er sorglegt og neikvætt.

 Ein ótrúleg frétt hefir einhverra hluta vegna ekki ratað í heimsfréttirnar þó að viðburðurinn sé stórfrétt. Þann 12. febrúar kallaði forseti Haítí nefnilega þjóðina sína saman til bæna og föstu fyrir landi og þjóð. Talið er að allt að því 1.000.000 manns hafi tekið þá í bænastundinni. Það er að mínu mati heimsfrétt, en hefur þó ekki vakið athyggli fréttamanna eða fréttastjóra. Ég læt hér fylgja með myndband um þessa frétt.

 

 

 

Njótið lífsins vinir og njótum alls þess góða sem er í kringum okkur!


Ice-save

Það hefur sennilega ekki komið neinum á óvart hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fór á laugardaginn. Sjálfur er ég afar ánægður með niðustöðuna, þó að ég geri mér grein fyrir því að á hvorn veginn sem þetta hefði farið fylgja þvi afleyðingar. Mér finnst gott að sjá Pálma í Fons iðrast og vildi að aðrir útrásarmenn fylgdu í kjölfarið. Hvað sem iðrun þeirra líður þá er ekki réttlætanlegt að varpa þeirra mistökum á Íslensku þjóðina. Við eigum ekki að láta kúga okkur, hvorki sem einstaklinga né heldur sem þjóð, í þessum málum né neinum öðrum.

Það vakta nokkra undrun hjá mér í fyrirlesturm morgunsins í háskólanum hvað margir að mínum samnemendum höfðu fylgst með framvindu mála á Íslandi og voru vel inní umræðunni. Þverskuður á áliti þeirra sem tjáðu sig um málið var að Íslendingar hefðu tekið rétta ákvörðun. Hvað verður núna veit svo sem engin, en allir menn ættu að lifa frjálsir, eða deyja við að reyna að verða frjálsir. Ekki þar með sagt að ég hafi neinar áhyggjur af því að Íslenska þjóðin deyji. Síður en svo, við erum sterk þjóð sem höfum áður staðið af okkur brotsjó og gerum það líka núna. En við eigum ekki að láta níðast á okkur hvorki af Bretum, Hollendingum, Evrópusambandinu eða AGS. Sjálfstæði okkar felst í því að við ákveðum sjálf hvað gert verður!

Annars er vorið að banka uppá hjá okkur hér á Jótlandi þó að það sé helst til hógvært í því banki. Það er samt greinilegt að veðurskipti eru í gangi og danir bíða óþreyjufullir eftir hlýindum vorsins. Það gerum við Íslendingarnir líka og það er eftirvænting hjá okkur að upplifa danskt vor.

Njótið lífsins vinir mínir nær og fjær.


Laugardagsmorgun

Ég hef alltaf verið morgunmaður sem tek daginn snemma og nýt þess. En í morgun feilreiknaði likamsklukkan sig all svakalega. Ég var vaknaður og kominn á fætur rúmmlega fimm, heldur svekktur yfir þvi að ná ekki að sofa út. Var búinn að ákveða að sofa langt frameftir og fara ekki á fætur fyrr en á milli 7-8. En eftir að hafa reynt að sofna aftur í smá stund gafst ég uppá því verkefni og fór á fætur. Gerði það sem allir heimilisfeður gera á hverjum laugardagsmorgni og setti í eina þvottavél og settist svo niður við að lesa heimsfréttirnar. Byrjaði að sjálfsögðu heima á Íslandi (en það geri ég á hverjum morgni, svo voru það dönsku miðlarnir (jp.dk, tv2.dk og síðan nordjyske.dk) en í morgun sleppti ég Amerísku fréttunum. Síðan þarf að taka veðrið, bæði heima á landinu bláa og hér í ríki Margrétar Þorhildar.

Mér líður afar vel í Danmörku og er mjög sáttur við þá ákvörðun okkar að flytja hingað út. Það er mjög margt sem bakkar þá tilfinngu upp. Til dæmis finnst mér mjög gott að eiga fyrir mat á hverjum degi....Lífsbaráttan hér er einfaldlega mun auðveldara en heima á Íslandi. Vinnudagurinn styttri og launin betri þannig að maður á meiri tíma með fólkinu sínu. Ég sjálfur hef reyndar ekki unnið svona lítið eins og ég geri núna síðan við Kata mín stofnuðum fjölskyldu og fórum að eiga börnin okkar. Ég hef alltaf unnið alla vega tvö störf og stundum meira. Hér er ég bara í háskóla og þarf ekki að vinna neitt með náminu og mér finnst ég stundum hreinlega vera í sumarfríi. Kata min er í fullu starfi sem félagsráðgjafi hjá borginni en hennar vinnutími er frá 8-15 alla daga nema fimmtudaga en þá vinnur hún til 17. Það finnst okkur núna vera svaka langir dagar. Fyrir nokkurm árum var staðan þannig hjá okkur báðum að kl. 17 áttum við alla vega einn tíma eftir í dagvinnunni og síðan var kvöldvinnan eftir.

Í dag vildi ég reyndar gjarnan vera á Íslandi og taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég myndi með stollti segja NEI við þessum lögum. Mér finnst reyndar ráðamenn gefa ótrúleg skilaboð með því að segjast ekki ætla að kjósa. Mér finnst að þeir séu þar með að dæma sjálfa sig úr leik sem hæfir stjórnendur þjóðfélagsins, þó svo að ég hafi reyndar aldrei treyst þeim til að stýra þjóðarskútunni. Ég vona að sem allra flestir mæti á kjörstað og segji skoðun sína. Það er kjarni lýðræðisins og ótrúlegt að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra sniðgangi slíka samkomu. Það verður sannarlega spennandi að sjá niðurstöðu kosningarinnar þegar talningu líkur.

Ég ætla hins vegar snöggvast að laga mér kínverskt te og halda síðan áfram að hjálpa Camilla Lackberg, hinni sænsku, að leysa dularfullt sakamál. Ég hef komist að þvi að slík rannsóknarvinna er afar gagnleg í þeirri þrotlausu vinnu að læra dönsku.

Njótið dagsins vinir!


Veðurpæling.

Það segja mér fróðir menn að mars sé fyrsti vormánuðurinn í Danmörk. Mikið finnst mér það hljóma vel! Eftir hlýindi undanfarinna daga er þó aftur komið frost hér í Álaborg og næstu daga á að vera talsvert kalt, alveg niður í 15 gráður þegar mest er. En það eru samt hlýindi í kortinum alveg á næstunni og því líklegt að veturinn láti fljótt í minna pokan fyrir vorinu.

Í morgun var samt þrátt fyrir 5 gráðu frost afar fallegt og gott veður. Mildur andvari, heiðskírt og sól. Reyndar finnst mér alltaf gott veður hér. Þegar danskurinn talar um snjóstorm, sem hefur verið talsvert af í vetur, þá á ég í mesta basli við að finna storminn. Ég hef nú komist að því að þegar vindur nær 10m/s og snjóél er á sama tíma þá er það skilgreint sem snjóstormur. Og þá stoppar allt. Skólar loka, strætó hættir að ganga og leigubílar eiga i erfiðleikum með að sinna sinni þjónustu. Ég er hræddur um að það yrði lítið athafnalíf heima á Fróni ef menn notuðu sömu viðmið.

Framundan er góður dagur sem ég er staðráðin í að njóta til fullnustu. Ég legg til að þú gerir það saman!


femoghalvtreds!

Mikið er merkilegt hvernig heili mannsins registerar nýtt tungumál á stuttum tíma, sérstaklega hjá börnum.

Í gegnum árin hefur það helst verið Kata mín sem hefur setið yfir lærdómnum með börnunum okkar, en þó hefur það komið fyrir að ég hef aðstoðað þau. Eins og í dag.

Elín Rut var í einhverjum vandræðum með stærfræðina og ég sat hjá henni og liðsinnti henni. Málið var ekki sérlega flókið í þessari umferð, það var ekki fyrr en verkefnin þyngdust að ég kallaði á syni mina mér til halds og trausts. Hún er jú komin í 6. bekk.....

Verkefnið okkar Elin Rutar fólst í að mæla stærð horna. Við fundum til þess gráðuboga og svo var hafist handa. Elín Rut lagði gráðubogann samviskulega á sinn stað og síðan fikruðum við okkur eftir mælikvarðanum til að finna stærð hornsins. Elín Rut var á undan mér að finna svarið og sagði af sannfæringu: femoghalvtreds!

Og ég sem hélt að hornið væri 55 gráður.

Njótið lífsins vinir - það er Guðs gjöf til okkar.


Tækifæri

Lífið býður uppá mörg og margvísleg tækifæri. Margir missa af sínum stærstu tækifærum vegna þess að þeim skortir kjarkinn til að láta á hlutina reyna. Þeir sem hins vegar þora að ganga út á vatnið munu annað hvort blotna í tærnar, eða ná að ganga á vatninu. Það sem er spennandi er að maður veit það ekki alltaf fyrirfram hvernig árangurinn verður.

Fyrir rúmmu hálfu ári stóðum við Kata mín frammi fyrir því að taka aðra holskefluna í okkar fjármálum. Við vorum þá nýrisin upp eftir okkar fyrri niðursveiflu, og sú sveifla var alfarið í okkar boði og á okkar ábyrgð. Þar tókst okkur að sigla okkar "þjóðarskútu" upp á sker án þess að neinum væri um að kenna nema okkur. Í seinna skiptið urðum við samferð nokkurm góðum einstaklingum og lögaðilum eins og Eimskip, Stoðum, Kaupþingi, Glitni, Landsbankanum og Hannesi Smárasyni, svo að aðeins nokkrir séu nefndir. Það var svo sem ekkert minna svekkjandi að tapa öllu aftur, þó að í því væri smá fróun að auðvelt var í þessari lotu að benda á aðra sem hjálpuðu til við að stranda skútunni. Þetta var sem sagt ekki alfarið á okkar ábyrgð.

Reynsla gjaldþrotsins í byrjun aldarinnar hafði þo kennt okkur það að það eina sem við töpuðum í bankahruninu 2008 voru peningar. Við áttu ennþá hvort annað, einlæga vináttu og hreina ást og .....tækifæri!

Við tókum á tiltölulega skömmum tíma ákvörðun um að nýta tækifærið sem fólst í því að við neyddumst til að flytja úr fallega sveitasetrinu okkar á Selfossi að flytja aðeins lengra en við höfðum gert í langan tíma. Stefnan var sett á Álaborg og síðan var haldið á vit nýrra ævintýra.

Sumir voru afar svartsýnir á þessa ákvörðun okkar, en aðrir stóðu með okkur og höfðu trú á því að þetta væri góð og heilbrigð ákvörðun. Það sem mestu máli skipti var að við fjölskyldan vorum sammála um að í breytingunum lægu tækifæri og við ákváðum að "taka sénsinn". Í slíkum tilfellum gildir oft að sá sem alltaf horfir í skýin sáir aldrei, og sá sem sáir aldrei, uppsker aldrei.

Við sáðum ..... og nú uppskerum við og erum harla ánægð með að hafa þorað að nýta þau tækifæri sem við sáum í kringumstæðunum.

Bara smá pæling hjá mér! Njótið lífsins - og tækifæranna.


Sumarfrí

Þessar línur eru skrifaðar í Brekkuskógi þar sem fjölskyldan höfum dvalið í vikutíma. Í dag er hins vegar kominn tími til heimferðar og það er eins með þessa ferð og allar aðrar, toppurinn er að koma heim!

Tíminn hér hefur verið yndislegur - gott veður og góður félagsskapur. Við höfum líka fengið gesti og það eru forréttindi að eiga vini sem vilja leggja á sig ferðalag til að hitta mann. 

Ég á framundan frí í nokkra daga og það er líka yndislegt að þurfa ekki að fara að vinna strax á eftir svona letidögum eins og hafa verið hér í Brekkuskógi.  Ég hef ekki átt svona gott frí í fimm ár, eða síðan ég ég starfaði síðast fyrir Samhjálp árið 2004 en þá fékk ég 4 vikna frí í einni lotu. Ég á ekki fjórar vikur þetta árið en Heiðar, yfirmaður minn hjá Samhjálp, er mér afar góður og sýnir í verki að hann vill mér allt það besta. Þannig höfum við hliðrað til fyrir hvorn annan og ég fæ 3 vikur í sumarfrí og á því tvær vikur eftir. 

Njótið lífsins vinir mínir - það er ég alla vega að gera á hverjum degi. 


Ísland!

Það er alltaf eitthvað spennandi að gerast á Íslandi!

Undanfarið hefur verið talsvert stórviðrasamt á suðurlandi og ekki hægt að segja annað en veturinn neiti að sleppa haldi sínu á okkur og leyfa vorinu að njóta sín. Í nótt reið síðan snarpur jarðskjálfti yfir á suðurlandi og vakti meðal annars heimilisfólk hér á sveitasetrinu. Nú er bara að vona að skjálftinn hafi náð að hrista storminn af landinu og vorið haldi innreið sína í fullum skrúð. 

Njótið dagsins vinir mínir - hann er Guðs gjöf til okkar allra! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband