Elín Rut fyllir árið!

Mikið óskaplega flýgur tíminn áfram. Mér finnst svo stutt síðan við Kata mín fórum af stað uppá Sjúkrahúsið á Ísafirði til að eiga fjórða barnið okkar. Í þá daga var fátítt að fólk vissi hvaða kyn væri von á en ég hafði rætt það ítarlega við Guð hvað mig langaði mest í. Fyrir áttum við 3 algjörlega yndisleg börn, Theu sem þá var 9 ára, Birgir Stein sem var þá 7 ára og Jósúa sem var þá 4 ára. Þegar Thea fæddist bað ég Guð að gefa mér rauðhærða dóttur og núna þegar ljóst var að við myndum ekki eignast fleiri börn en það sem Kata mín bar undir belti fannst mér svo upplagt að enda barnaeignir með sama hætti við byrjuðum þær og fá rauðhærða dóttir. Það segir í helgri bók að Guð elski að gera vel við börnin sín og það er líka mín persónulega reynsla af samskiptum mínum við hann. Klukkan 3:03 þann 22. apríl 1997 kom í heiminn lítil falleg rauðhærð stúlka sem við gáfum strax nafnið Elín Rut. Og þvílík Guðs gjöf. Strax frá upphafi heillaði hún alla sem að henni komu!

Elín Rut er eins og systkini sín afar mikill karakter. Hún er glaðlynd og lífsglöð og það er mjög gaman að eiga samfélag við hana. Í skólanum gengur henni mjög vel og er vel liðin bæði af starfsfólki skólans og meðal vina sinna. Hún æfir líka fimleika og stendur sig afar vel á því sviði. Elín Rut er mikill friðflytjandi og er mjög umhugað um aðra. Hún er bara svo yndisleg að meira að segja mér verður orðafátt þegar ég lýsi eiginleikum hennar. Ég er yfir mig þakklátur fyrir litlu telpuna mína sem er að stækka svo hratt og verður alltof fljótt orðin fullorðin. Elsku Elín Rut mín, innilega til hamingju með daginn. Ég er mjög stoltur af þér. 


Sumarfrí!

Þá er ég kominn í sumarfrí og verð í sumarfríi í allan dag!

Daginn ætla ég að nota til samfélags við bræður mína, en eins og lesendur síðunnar minnar vita er Óli bróðir hér heima í tilefni 70 ára afmælis pabba um daginn. Við Kiddi heimsækjum Óla á hverju vori og dveljum í góðu yfirlæti hjá þeim Anette og við bræðurnir höldum okkar árlegu "bræðrafundi". Þessir dagar eru alltaf afar skemmtilegir þar sem við bræðurnir tölum, hlægjum, rifjum upp skemmtilega minningar,  deilum framtíðarsýn okkar með hver öðrum, segjum sögur sem stundum eru sannar og borðum mikið af góðum mat. Í dag er sem sagt stuttur bræðrafundur og ég tók mér einn sumarleyfisdag í það verkefni. Við munum síðan að sjálfsögðu halda alvöru bræðrafund austur í Danmörku seinna í vor eða sumar þannig að dagurinn í dag er bara upphitun. 

Annars gekk afmælið hans pabba afar vel og gamli var greinilega mjög ánægður. Það voru fjölmargir sem ávörpuðu hann og mærðu í bak og fyrir og það var ekki laust við að hann væri klökkur yfir öllum ræðuhöldunum. Þegar hann svo kvaddi fólk í lok kvöldsins og þakkaði fyrir sig var hann síðan klappaður upp en það hef ég aldrei séð í slíkri veislu áður. En kvöldið var vel heppnað og gaman að taka þátt í þessu með stór fjölskyldunni. 

Njótið dagsins vinir - það ætla ég að gera. 


Fagnaðarfundir!

Það stendur mikið til í dag hjá stórfjölskyldunni. Pabbi varð sjötugur um daginn og í kvöld á að halda mikla veislu í Háborg, félagsmiðstöð Samhjálpar. Óli bróðir er kominn heim frá ríki Margrétar Þórhildar til að fagna með pabba og ég hlakka mikið til að hitta hann.

Ég á tvo bræður og er svo heppinn að þeir eru báðir bestu bræður sem hægt er að hugsa sér. Um leið og þeir eru mjög ólíkur eru þeir svo innilega líkir. Það sem einkennir þá báða er raunverulega umhyggja fyrir öðrum. Þó að ég sé orðin rúmlega fertugur þá vaka stóru bræður mínir ennþá yfir mínum hagsmunum og minni velferð. Það eru mér ómælanleg forréttindi að eiga Óla og Kidda í lífi mínu. Ég hef ekki hitt Óla í tæpt ár núna og þó að við tölum reglulega saman í síma og á netinu þá er það ekki eins og að fá að sitja með stóra bróður og njóta samfélagsins við hann. Því miður er Anette mágkona að glíma við krankleika og komst ekki með honum. Hún er yndisleg kona sem hefur laðað það besta fram í fari Óla. Það hefði verið fullkomið ef hún hefði komist með, því að það eru sex ár síðan við hittumst öll systkinin og makar og því löngu tímabært að endurtaka það.  

Í gær var Elín Rut dóttir mín að keppa á enn einu fimleikamótinu og koma heim með silfurverðlaun! Hún stendur sig svo vel og það er svo gaman að sjá hvað hún er metnaðarfull í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Rauðhærðu dætur mínar tvær eiga þetta og svo margt annað sameiginlegt. Ég er svo ríkur að eiga hana Kötu mína og yndislegu börnin mín fjögur og litla afastrákinn minn. Þessi auðævi mín hafa ekki rýrnað neitt í kreppunni enda ekki hægt að setja neinn veraldlegan verðmiða á himnesk auðævi. Ég er sannarlega blessaður maður og ég geri mér svo sannarlega grein fyrir því og met það afar mikils. 

Ég heyri að afastrákurinn minn er vaknaður og ætla að fara og knúsa hann. Njótið dagsins vinir mínir - hann er Guðs gjöf til okkar. 


Yndislegt kvöld!

Veðrið hefur sannarlega leikið við okkur sunnlendinga í dag og þá ekki síst hér á Selfossi. Eftir góðan kvöldverð fórum við Kata mín með Theu okkar og Elín Rut í sund í blíðskaparveðri. Stelpurnar pössuðu heitapottinn á meðan ég synti og svo nutum við þess að vera öll saman og láta þreytu dagsins líða úr líkama okkar. Hreint yndislegt. Það eru ótrúleg forréttindi að hafa aðgang að sundlaugum eins og við íslendingar höfum enda erum við fjölskyldan mjög dugleg að nýta okkur það.

Það er orðið hljótt á bænum og flestir fjölskyldumeðlimir gengnir til náða þó að klukkan sé ekki orðin ýkja margt. Ég held ég taki mér bók í hönd og rannsaki aðeins eiginleika tempur rúmsins okkar góða. 

Góða nótt! 


Hann er upprisinn!

Jesús kom sá og sigraði þegar hann gerðist maður og dó í okkar stað á Golgata. Erling vinur minn Magnússon orðaði það svo vel þegar hann sagði að páskadagur væri andardráttur kristinnar trúar. Jesús dó ekki bara  - hann reis upp frá dauðum og lifir enn!

Eftir dauða hans og upprisu er ekkert sem getur tekið mig eða þig frá kærleika föðurins sem elskar alla menn án nokkurra skilyrða. Það er hins vegar lagt í okkar vald að þiggja eða afþakka samfylgd Guðs í gegnum lífið. Þeir sem velja að ganga með Guði verða eitt með honum eins og segir í Jóhannesarguðspjalli 17. kafla.

Þar er fjallað um að eins og Guð faðir, Sonurinn og Heilagur andi séu eitt, verði þeir sem taka á móti frelsisverki Jesú Krists eitt með föðurnum. það verður alger samruni. Best er að líkja þessu við það að taki maður gulan leir og rauðan leir og nuddar þeim saman lengi og vel þá renna guli og rauði liturinn saman og úr verður rauðgul leirkúla. Ekki röndótt og ekki köflótt heldur einlit rauðgul kúla. Þegar búið er að nudda þessu saman með þessum hætti er síðan ógerningur að aðskilja rauða og gula leirinn frá hverum örðum. það hefur orðið alger samruni. Eins er með okkur Guð, það verður alger samruni á milli okkar og hans. Það þýðir að "ekkert getur lengur gert okkur viðskila við kærleika föðurins"eins og Páll postuli orðar það í bréfi sínu til Rómverja.  Vegna Jesús Krists erum við orðin samofin Guði föður sem samkvæmt Jóhannesi 17:23  elskar okkur eins og hann elskar Jesús.

Þvílíkt frelsi sem við höfum eignast. Eina sem við þurfum síðan að gæta að er að frelsi fylgir án undatekninga ábyrgð. 


Til hamingju með daginn!

Til hamingju með daginn gott fólk.

Föstudagurinn langi er einn merkilegasti dagur mannkynssögur er í dag. Á þessum degi vann Jesús fullkominn sigur með því að fullkomna lögmálið. Þar með var næsta skref undirbúið og óhjákvæmilegt - að Jesús færi til heljar og sigraði þar dauða og djöful í eitt skipti fyrir öll.

Það sem Jesús gerði á þessum frábæra degi tryggir að ég þurfi aldrei að glíma við djöfulinn eða dvelja í helvíti. Hann hefur búið mér eilífan sigur og tryggt mér öruggan aðgang að Pabba okkar á himnum. Enska tungan er því skýrari með nafn föstudagsins langa en á engilsaxnesku kallast dagurinn "Föstudagurinn góði (e. Good Friday)"

Svo kæru vinir - Til hamingju með daginn og njótið hans í botn! 


Pabbi minn er sjötugur í dag!

Í dag er merkisdagur hjá stórfjölskyldunni því að hann pabbi er sjötugur í dag.

Pabbi minn er einn merkilegasti karakter sem ég hef nokkurn tíma hitt. Það væri þó umtalsverðar ýkjur að eigna honum einhverja grátóna í lífi sínu því að svart/hvítari einstaklingur er sennilega ekki til. Ég gæti sagt ykkur endalausar sögur af pabba og hans sterku skoðunum. Pizzur vill pabbi til dæmis alls ekki borða, hann vill frekar mat. En samlokubrauð með osti og skinku hitað í örbylgjuofni finnst honum mjög gott. Bensín frá Essó fer mjög vel með vélina í bílnum en á öðrum bensínstöðfum kaupir þú drasl sem vísast til brýtur fyrir þér mótorinn

Pabbi er af þeirri kynslóð sem aldrei var kennt að tjá tilfinningar sínar gangvart börnunum sínum. Ég er 41 árs og hef aldrei heyrt pabba segja “Ég elska þig”. En pabbi hefur hins vegar verið mjög duglegur að leyfa mér að vita að hann elskar mig og ég veit að það gerir hann svo sannarlega. Einlæg umhyggja hans gagnvart fólkinu sínu kemur fram með ýmsum og mjög áberandi hætti. Gott dæmi um það er þegar við Kata mín bjuggum á Ísafirði og síðan Akureyri fyrir nokkrum árum mátti ekki gera vont veður án þess að  pabbi hringdi til að vita hvort allt væri ekki í lagi. Setningar eins og “Eru krakkarnir ekki örugglega allir inn í húsi í þessu veðri” sögðu mér meira um einlæga um hyggju hans í minn garð heldur en hann hefur gert sér grein fyrir. Þegar ég þurfti – sem gerðist nokkuð oft – að bregða mér á milli lands eða heimshluta og Kata var ein með krakkana hafði hann reglulega samband við hana til að athuga hvort allt væri í lagi. Það hefur alltaf skipt pabba miklu máli að fólkið hans hafi það gott og öllum líði vel. Þegar við Kata vorum að keyra landið þvert og endilangt í ýmsum erindagjörðum fyrir kirkjuna okkar vildi pabbi vita hvert við værum að fara og oft hringdi hann og var þá búinn að kanna á textavarpinu hvernig færðin og spáin væri. Þó svo að ég hafi að sjálfsögðu verið búinn að athuga það líka sjálfur þá glöddu þessi símtöl mig afar mikið. Þetta var pabbi að segja “Ég elska þig!”

Þegar við krakkarnir hans förum erlendis má heldur ekki gleyma að senda honum sms þegar lent er og láta hann vita að allt sé í lagi. Eitt sinn þegar Erla systir og Erling fóru í eitt af sínum fjölmörgu ferðalögum um heiminn hafði Erla gleymt að senda honum sms og 2 tímum eftir áætlaða lendingu hringdi pabbi í mig til að athuga hvort ég hefði eitthvað heyrt af þeim. Krúttlegt – og svo mikið pabbi að athuga með fólkið sitt.

Elsku pabbi minn – innilega til hamingju með daginn. Ég elska þig!  


Á morgun...

... verð ég kominn í páskafrí!

 Ég er svo heppinn að mér líður mjög vel í vinnunni og er afar þakklátur Guði fyrir að hafa gefið mér vit í kollinn og hæfileika til að nýta það vit til vinnu og að ég skuli hafa góða vinnu til að stunda. En mér finnst samt afar gott að eiga frí og þurfa ekki að gera neitt nema hvíla mig. Við fjölskyldan ætlum að vera heima alla páska helgina og njóta þess að vera saman. Það eina sem skemmir er að Birgir Steinn sonur okkar er ekki heima en hann stundar nám í Kaliforníu þetta árið. 

Njótið þess að vera til elsku vinir - það er vilji Guðs með líf okkar allra! 


Fyrirgefning!

Mikið er gott að fara í sundlaugina snemma morguns, synda svolítið, fara svo í heitapottinn og þaðan í gufuna. Alger lúxus! Ég er sem sagt heima í dag og læt mér líða vel. Ég var líka heima í gær á meðan Kata mín fór í kirkju með liðið okkar. Ég notaði tíman meðal annars til að horfa á einn af mínum uppáhalds sjónvarpsþáttum - 60 minutes. 

Í þættinum var meðal annars fjallað um konu sem varð fyrir barðinu á hrottafengnum nauðgara. Hún lagði andlit glæpamannsins á minnið og benti síðan á hann í sakbendingu hjá lögreglu. Til að gera langt mál stutt þá óx í hjarta hennar einlægt hatur á manninum sem fékk ævilangan fangelsis dóm fyrir verknaðinn sem hann fullyrti að hann væri saklaus af. Maðurinn sat í fangelsi í 11 ár en þá fékkst það loksins sannað með aðstoð DNA að hann var blásaklaus. Konan sem hafði ranglega sakfellt manninn varð algerlega miður sín yfir því hvað hún hafði gert honum. Yfir sig sakbitinn bað hún manninn að hitta sig til að hún gæti beðið hann að fyrirgefa sér. Kirkjan í bæjarfélaginu var valinn sem fundarstaður og þar bað skelfingu lostinn og útgrátinn konan manninn að fyrirgefa sér. Sér til mikillar undrunar tók hann í hendur hennar, horfði í augu hennar og sagðist fyrirgefa henni og þau skyldu bæði nota það sem eftir væri ævi sinnar í að njóta þess að vera til. 

Í dag, 25 árum eftir nauðgunina, ferðast þessi kona um öll Bandaríkin til að halda fyrirlestra um óáreiðanleika þess að treysta á sjónminni. Oft á tíðum fer mjög góður vinur hennar með henni til að segja sína hlið sögunnar, maðurinn sem sat í fangelsi í 11 ár vega sakbendingar sem ekki var rétt. Þau eru bæði gift í dag og eiga sínar fjölskyldur en mikil vinátta hefur skapast á milli þessara tveggja fjölskyldna. Það er ekki orðum aukið að ég klökknaði þegar ég sá þessa umfjöllun. 

Fyrir nokkrum misserum myrti ógæfumaður mörg Amish börn í fólskulegri árás á barnaskóla safnaðarins. Hann endaði ódæðisverkið með því að taka sitt eigið líf. Eftir sátu harmi slegnar fjölskyldur barnanna, og ekkja og börn glæpamannsins. Heimsbyggðin öll fylgdist með einstökum viðbrögðum Amish fólksins sem tók ekkjuna og börnin hennar uppá sína arma. Þeirra skýring var: Eina raunverulega lækningin felst í fyrirgefningu! 

Þvílík viska - viska sem þjóðin okkar þarf svo mikið á að halda núna! 

 


Vormót

Vorið er gengið í garð þó að veðrið sé ekki alveg að átta sig á því. Dagarnir lengjast og það sést skemmtilegur munur á milli vikna. Mér finnst vorið einn skemmtilegasti tími ársins þó svo að allar árstíðir hafi sannarlega sinn sjarma.

Núna um helgina er í fyrsta sinn haldið vormót Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík. Að mótinu standa Mozaik, Samhjálp og Fíladelfía og fara allar samkomurnar fram í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Hátúni 2. Samhliða mótinu, sem ber yfirskriftina "Jesús lifir í mér", er frábært krakkamót með mjög skemmtilegri dagskrá. Í kvöld og á laugardagskvöld eru t.d. sérstakar krakkasamkomur sem fara fram í húsnæði Mozaik að Skógarhlíð 2. Samkomurnar eru ætlaðar fyrir átta ára og eldri og verða algerlega frábærar. Ég hef verið í kirkjubransanum í 25 ár og ég veit ekki til þess að krakkasamkomur með þessu sniði hafi nokkurn tíma verið haldnar áður. Það er búið að umbreyta húsnæðinu og í gær voru hátt í 30 manns sem vann að undirbúningi kvöldsins í Skógarhlíðinni. Alveg magnað!!! 

Ég verð síðan sjálfur að predika á samkomu fyrir fullorðna í kvöld í Fíladelfíu og það verður alveg frábær ræða....Vona ég alla vega. Það er því nóg um að vera þessa helgina hjá mér eins og flestar helgar. 

Njótið lífsins vinir - það er Guðs gjöf til okkar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband