Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Heimsmarkaðsverð á olíu.

Allir bíleigendur á Íslandi, svo og þeir sem fylgjast með almennri umræðu á Fróni, vita að heimsmarkaðsverð á hráoliu breytist hratt og sveiflast mikið. Þessar sveiflur skila sér inní verðlag á eldsneyti heima á Íslandi um það bil korteri áður en búið er að breyta heimsvarðkaðsverðinu hjá byrgjum. Þvílík er fyrirhyggjusemi íslensku olífélaganna.

Ég er frekar vel að mér í Íslenskri tungu og met mitt móðurmál enn meira núna en nokkurn tíma. Það að glíma við undarlegt tungumál eins og dönsku allan daginn, alla daga, kennir manni meira en nokkuð annað að meta sitt eigið tungumál. En nú veit ég ekki hvort ég hef skilið orðið "heimsmarkaðsverð" rétt. Ég hef alltaf skilið það þannig að það sé verðið sem gildir hjá byrgjum í almennum markaðvæddum heimi. Það sé sem sagt sama "heimsmarkaðsverð" alls staðar í heiminum.

Nú hef ég búið í Danmörku í eitt ár og rekið hér heimili, og þar með talið bíl. Ég hef keyrt talsvert mikið og keypt talsvert mikið af bensíni á gamla græn. Tvær ferðir höfum við farið suður til Germaníu og því hef ég einnig átt talsverð viðskipti við þýska eldsneytissala. Þann tíma sem við höfum búið hér ytra hefur íslenska krónan styrkst gagnvart þeirri dönsku um 18%. Á þessum sama tíma hefur eldsneyti ekki hækkað neitt hér í danmörku! Og það hefur lika verið sama verð þau skipti sem ég hef skotist suður yfir landamæri. Heima á klakanum hefur hins vegar "heimsmarkaðsverð" hækkað um 6% á sama tíma og styrking krónunnar hefur verið mjög áberandi.

Nú er ég bara "skólastrákur í útlöndum" og ekki ósennileg að ég kornungur maðurinn skilji bara ekki "business" betur en þetta. En þar sem ég veit að pabbi minn, sem er mikill áhugamaður um þróun verðlags á Íslandi og auk þess stærðfræðisnillingur af Guðs náð, á eftir að lesa þessar línur mínar þyrfti ég að biðja hann að útskýra fyrir mér hvernig "heimsmarkaðsverð" á hráoliu þróast í samræmi við gengisþróun íslensku krónunnar.

Niðurstaða mín af þessari óvísindalegu rannsókn minni á þróun heimsmarkaðsverðs er reyndar sú að það sé alls ekki það sem ráði ferðinni í verðlagi á eldsneyti heima fyrir. Það eru einhver önnur sjónarmið sem þar ráða för. Og í þeirri umræðu verð ég að segja að ég treysti íslensku oliufélögunum hreint ekki til að gæta hagsmuna neytenda. Og þá er ekki laust við að maður varpi öndinni mun léttar vitandi að olíufélögin eru löngu hætt öllu samráði um verð........

Njótið þessarar miklu ferðahelgi og vonandi sveiflast heimsmarkaðsverðið ekki mikið á milli daga.


Í sandölum og ermalausum bol....

Það hefur verið mikil veðurblíða í Danmörku undanfarnar vikur og Álaborg hefur skartað sínu fegursta. Ég sé það reyndar á fréttum frá gamla landinu að veðrið hefur einnig leikið við landann.

Munurinn á veðrinu hér í Álaborg og heima á Fróni finnst mér ekki síst mælast í stöðugleika. Hér er bara einfaldlega sumar á sumrin, en heima veit maður svo sem aldrei hverju maður má búast við. Það er reyndar líka einn af kostunum við að búa á Íslandi, alltaf eitthvað spennandi að gerast.

Í gærkvöldi fór ég að venju í góðan göngutúr. Að þessu sinni fór ég einn þar sem Kata mín var upptekin við að finna sér sófa á Gul og Gratis síðunni, sem er Barnaland baunverjanna. Það er svo sem ekki í frásögur færandi að ég fari í göngutúr, en eins og oft á mínu rölti hugsaði ég heim til Íslands í gærkvöldi. Hugleiddi hvað vinir mínir væru að aðhafast, hugsaði um hvernig veðrið skyldi vera og hvernig fólkið mitt almennt hefði það. Þetta var svo sem afar hefðbundin göngutúr, eitthvað sem ég hef alltaf gert mikið af, bæði hér við Limfjorden og heima á gamla klakanum. Það sem gerði göngutúrinn í gær ólíkan þeim sem ég hef tekið heima á Íslandi var skófatnaður minn.

Ég held að það hafi verið Þórhallur Sigurðsson leikari, sem hélt uppá 60 ára afmælið sitt í rúmlega tvö ár, sem söng um sólarþyrstan landann sem skemmdi sér vel við suðrænar strendur í "sandölum og ermalausum bol....."

Ekki á ég neinn ermalausan bol en ég á mjög góða Rockport sandala sem ég keypti í Peuerto Rico fyrir 6 árum síðan. Þessir sandalar hafa síðan ferðast með mér til fjölmargra landa og meðal annars gengið götur Páls postula við botn Miðjarðarhafsins. Heima á Íslandi hafa Rocport skórnir eingöngu verið notaðir sem inniskór en hér í ríki Margrétar Þórhildar hef ég varla gengið í neinu öðrum vikum saman. Á táslunum í Rocport!!

Ekki veit ég hvernig skófatnað þú ætlar að nota í dag, en ég ætla á ströndina með fólkið mitt, í sandölum og sundbuxum. Kúnstin við að njóta lífsins felst nefnilega í að njóta lífsins og þess sem augnablikið gefur tækifæri til.


Viðburðarríkir dagar!

Það hefur sannarlega verið líflegt í okkar húsi undanfarna daga og við fjölskyldan virkilega notið samfélagsins við fólk sem við elskum. Anna systir Kötu minnar hefur verið hjá okkur í tæpar tvær vikur en fór heim í gær, og Kiddi og Ásta hafa verið hér í Álaborg í vikutíma og við öll notað tímann vel til samfélags ásamt Óla bróðir og hans fjölskyldu.

Við höfum, auk þess að borða mikið og vel bæði heima hjá Óla og Anette og okkur Kötu minni, farið öll út að borða saman, gegnið um miðbæ Álaborgar og skoðað mannlífið, farið niður á strönd og borðað þar nestið okkar (Sandwich og sandkaka)og notið þess að liggja í sólinni og svambla í sjónum. Í hnotskurn má segja að við höfum verið verulega upptekin við að njóta lífsins.

Í gær fór Anna systir sem sagt heim, en með sömu vél og hún fór kom elsku Birgir Steinn okkar heim eftir fjórar vikur á Íslandi og það var verulega gaman að fá drenginn heim aftur. Þegar við komum heim frá flugvellinum biðu okkar síðan afar góðir gestir, en það voru þau Kiddý og Baddi sem vorum á leiðinni heim til Noregs og keyrði hér í gegnum Álaborg. Við áttum því yndislegan dag með vinum okkar, fengum okkur fyrst kaffi og með því, fórum síðan í góðan göngutúr um hverfið og loks grilluðum við góðan mat og nutum samfélagsins hvert við annað. Það var yndislegt að eiga tíma með Kiddý og Badda enda úrvalsfólk þar á ferð.

Eftir að vinir okkar voru farnir til að ná í ferjuna til Norðurvegs sátum við Kata mín út á svölum með börnunum okkar og nutum þess að spjalla saman. Það er svo óendanlega dýrmætt að eiga vináttu barnanna sinna og geta notið þess að deila af sínu lífi og taka þátt í þeirra lífi. Þar sem systkinin höfðu ekki hisst í 4 vikur, höfðu þau líka margt að segja hvert öðru. Við gömlu voru því löngu farinn inn að sofa áður en krakkarnir gengu til náða og Thea og Birgir Steinn fóru heim til sín.

Ég lagðist til hvíldar í gær afar þakklátur Guði fyrir það líf sem ég fæ að lifa og þá vini sem Guð hefur sett inní líf mitt, jafnt innan fjölskyldu sem utan. Það eru verðmæti sem ekki verða keypt!!

Í dag ætlum við bræðurnir þrír síðan að eiga okkar yndislegu "bræðrafundi" þar sem við tökum marga klukkutíma í það eitt að njóta einlægrar vináttu hvers annars og létta af hjarta okkar við hvern annan.

Ég elska að vera til!!


Germanía

Einn af kostum þess að búa í Danmörku er að Evrópa liggur við fætur manns. Þannig getur maður sest uppi í bílinn sinn og keyrt á milli landa eins og ekkert væri einfaldara. Fyrir mig sem innfæddan eyjabúa er þetta alltaf jafn mögnuð tilfinning, og eitthvað sem mér hefur þrátt fyrir ítrekaðar æfingar ekki ennþá tekist að venjast :-)

í gærmorgun sestum við hjónin ásamt Jósúa syni okkar uppí gamla græn og svo var keyrt af stað. Fyrsti áfangastaður var Silkiborg en þar tókum við Önnu mágkonu mína uppí, en hún var þar á fundum vegan vinnunnar sinnar. Ferðin til Silkiborgar gékk heldur hægara fyrir sig en upprunarlega var áætlað, þar sem danska vegagerðin var með framkvæmdir á E45. Við fengum því að bíða í biðröð og rétt silast áfram í tæpa klukkustund.

Við stoppuðum í rúmman klukkutíma í Silkiborg, sem er framúrskarandi fallegur bær, sem meðal annars skartar hinu himinnháa Himmelbjarget. Við fórum á útimarkað í miðbæ Silkiborgar, keyptum ávexti og jarðaber og að sjálfsögðu danskar pulsur!! Síðan sátum við á bekk utan við Silkiborg Kirke og virtum fyrir okkur mannlífið og nutum þess að vera öll saman.

Síðan var lagt af stað aftur og ferðin sóttist vel. það verður þó að segjast að ég saknaði verulega þeirra glæsibifreiða sem ég ók á Íslandi áður en allt fór eins og það fór. Mest saknaði ég Peogeot 407 bílsins míns. Hann hafði svo margt sem gamli grænn hefur ekki, t.d. sjálfskiptignu, cruise control og......LOFTKÆLINGU! Hitinn úti var 35 sænskar gráður og þegar yfirferðin skilar 140 kílómetrum á hvern klukkutíma er ekki mögulegt með góðu móti að hafa gluggana opna. Ekki veit ég hvað hitinn inni var mikill en það var heitt! Það hreinlega lak af okkur svitinn alla leiðina.

En það er samt eitt sem gamli grænn hefur sem glæsikerrurnar höfðu ekki: Ég á hann skuldlausann!!! Í dagskiptir það mig ÖLLU máli.

Eftir að hafa glímt við hraðbrautirnar í Þýskalandi og Danmörku í átta klukkutíma lögðum við fyrir utan hús Betu mágkonu og Detlefs. Þau áttu von á okkur Kötu og Jósúa en við höfðum haldið því rækilega leyndu fyrir þeim að Anna systir var með í för. Það voru því gríðarlegir fagnaðarfundir þegar þau Beta og Detlef komu út á móti okkur og sáu leynigestinn. Það var bara yndislegt að sjá og heyra. Og að sjá þær svo allar þrjár faðmast og kyssast var yndislegt. Hrein vinátta og djúp væntumþykja. Dýrmætara en gull!

Móttökurnar voru að venju framúrskarandi. Það verður að viðurkennast að það fyrsta sem ég bað um var eitthvað ískalt og svalandi að drekka... Við áttum svo yndislega kvöldstund, fórum meðal annars rétt utan við bæinn að horfa á sólarlagið, sátum svo í eldhúsi þeirra heiðurshjóna og nutum jafnt frábærra veitinga og yndislegs samfélags. Það var langt gegnið inní nýjan dag þegar loksins var gengið til náða.

Lífið er ljúft - stundum sjáum við bara ekki skóginn fyrir trjánum. Kúnstin er að njóta auknablikanna og gera það best úr öllum kringumstæðum.

Ég elska lífið!!


Hver á hvað???

Þegar ég var strákgutti datt mér það snjallræði í hug að stela úr búð. Það gekk svo ljómandi vel að ég prófaði aftur. Og í nokkur skipti tókst mér að hnupla sælgætisstykkjum og fannst þetta fíansta leið til að mæta þeirri nammiþörf sem ég hafði, en foreldrar mínir höfðu lítin skilning á. En síðan komst upp um kauða! Sennilega hef ég (án þess að muna það í smáatriðum) gleymt að þurrka súkkulaðið úr munnvikunum eða eitthvað í þá áttina. Alla vega komst mamma að því hvað ég hafði gert og ég fékk mikinn skammarlestur. Innihaldið var að ég skyldi leggja stund á heiðarleika því að menn uppskæru alltaf í samræmi við sáninguna. Síðan var nýjasti ránsfengurinn gerður upptækur og mér tilkynnt með festu að ég ætti ekki neitt í þessu súkkulaði, og því kæmi ekki til greina að ég borðaði það. Tvennt ætti ég þó: ég ætti að skammast mín og ég ætti að biðja kaupmanninn afsökunnar.

Slík varð iðrun mín yfir þessum strákapörum að ég ákvað hið snarasta að beygja af glæpabrautinni og gerðist aftur Guðhræddur mömmustrákur ;-)
Enn í dag er ég feginn viðbrögðunum sem ég fékk heimafyrir þegar ég byrjaði að stela úr búð. Hefðu viðbrögðin verið önnur veit ég ekki hvert það hefði getað leitt mig.

Ekki veit ég hvort útrásarvíkingarnir sem rændu íslensku bankana innan frá hafi á æskuárum sínum stolið úr búð. Og ekki dytti mér í hug að væna foreldra þeirra um að hafa gleymt að kenna þeim það sem mamma kenndi mér í æsku. En það er samt athygglisvert hvernig þessir einstaklingar hafa náð að nýta sér ránsfengi sína til alls konar verkefna.

Þannig má lesa í fjölmiðlum í dag að Karl Wernersson hafi haft verulegar tekjur af úthátíð í Galtalækjarskógi um liðan helgi. Hann hafi nefnilega "keypt" skóginn á 300 milljónir fyrir nokkrum árum og fái því tekjur af honum dag. Ekki veit ég hvort bótasjóður Sjóvá Almennra hafi verið notaður til að "kaupa" skóginn, en ljóst er að Karl hefur ekki "keypt" ýkja mikið á útþennsluárum Milestone veldisins. Nú hefur nefnilega komið í ljós að peningarnir sem hann notaði hafa í flestum tilfellum verið stolið úr íslenska bankakerfinu, á kostnað almennings. Það er því hreint fáránlegt að Karl Wernersson skuli ennþá fá tekjur af ránsfengi sínum.

Ekki vekur það síður furðu, að Jón Ásgeir Jóhannesson, sem í septmber sl. átti bara fyrir Diet Coke, skuli þrátt fyrir kyrrsetningu eigna sinna getað snarað fram 1.300.000.000 króna til að greiða upp lán í glæsiíbúð "sinni" í New York.

Ekki veit ég með ykkur kæru lesendur, en ég skil hvorki upp né niður í þessu öllu og mér er það hulin ráðgáta hver á hvað í íslensku þjóðfélagi.

Svona er víst Ísland í dag!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband